Hölt hóra gaf nýverið út plötuna Love me like you elskar mig.
Hölt hóra gaf nýverið út plötuna Love me like you elskar mig. — Ljósmynd/Hörður Sveinsson
Höskuldur Ólafsson hoskuldur@mbl.is Hljómsveitin Hölt hóra gaf á dögunum út sex laga stuttskífu sem ber heitið Love me like you elskar mig.
Höskuldur Ólafsson hoskuldur@mbl.is

Hljómsveitin Hölt hóra gaf á dögunum út sex laga stuttskífu sem ber heitið Love me like you elskar mig. Hljómsveitin vakti verðskuldaða athygli í fyrra fyrir lögin, Vændiskona og Muddy Rokk og ról, en þau fengu allnokkra spilun, bæði í útvarpi og sjónvarpi. Einnig verður að reikna með því að einhverjir hafi hnotið um nafnið sem seint verður flokkað með pólitískri rétthugsun. Hins vegar ber einnig að minnast orða rithöfundarins og nóbelsverðlaunahafans Saul Bellow sem kallaði pólitíska rétthugsun hinn eina sanna kúgara okkar tíma.

Hljómsveitin Hölt hóra er svo að segja öll af Suðurlandi; Drangsnesi, Biskupstungum og Selfossi og hefur verið starfrækt í á þriðja ár. Atli Fannar, söngvari hljómsveitarinnar, kom óforvarandis í heimsókn og ræddi við undirritaðan um skífuna og hljómsveitina.

Hafið þið verið að sýsla við tónlist lengi?

"Já, flestir okkar. Ég byrjaði reyndar mjög seint að pæla í tónlist. En við komum úr mörgum áttum. Einn okkar er til dæmis Brit-poppari, annar venjulegur poppari, einn hugsar of mikið um tónlist og svo framvegis."

Af hverju pönktónlist?

"Ég myndi ekki segja að þetta væri pönk ef frá er talið nafnið á sveitinni. Að vísu er smá pönk-fílingur en ég myndi miklu frekar kalla þetta rokk. Hins vegar kann ég ekki að syngja svo að þetta verður aldrei of fágað."

Þið hafið tekið Rúdolf með Þeysurunum á tónleikum. Eruð þið kannski að fara meira í þá átt?

"Kannski. Við elskum að spila Rúdolf en erum nýbúnir að fá nýjan bassaleikara og höfum ekki getað æft lagið með honum. Þessi plata hefur eiginlega verið fyrir okkur í hálft ár en núna getum við loksins farið að einbeita okkur að því að æfa, spila Rúdolf og semja fleiri lög."

Atli segir að hljómgrunnarnir að plötunni hafi verið teknir upp í Bláfjöllum þar sem hljómsveitin leigði skála og setti upp hljóðver. Upptökurnar gengu þó ekki áfallalaust fyrir sig því í miðju upptökutímabilinu bilaði protools-upptökuforritið. Eftir það fór platan í biðstöðu en var svo kláruð hægt og bítandi í æfingahúsnæði hljómsveitarinnar sem hún deilir með upptökumanninum Magnúsi der og hljómsveit hans Benny Crespo's Gang.

"Platan átti fyrst að vera fjögurra laga skífa en á þessu ferli sömdum við önnur tvö lög sem við vorum ánægðir með svo að þau fengu að fljóta með. Hvorki Vændiskona né Muddy Rokk og ról eru á plötunni. Okkur fannst þau vera orðin gömul og ákváðum að hafa þau ekki með."

Þið hafið ekki viljað bíða aðeins lengur og gefa út heila plötu?

"Nei. Persónulega finnst mér - ég er svolítið frekur - það ekki rökrétt fyrir svona lítið og ungt band að demba sér út í að gefa út breiðskífu. Þessi plata er bara til að kanna áhugann en þó hún sé bara sex laga, leggjum við heilmikið í útgáfuna. Skífan mun einungis kosta 1.000 kall í plötubúð svo að við erum að tapa á hverju seldu eintaki. En ef þetta gengur vel vitum við að það er áhugi fyrir bandinu og það skiptir okkur miklu máli til þess geta haldið áfram. Sá grunur leitar stundum á mann þegar maður spilar fyrir fullan stað af drukknu fólki, hvort einhver sé í raun og veru að hlusta."

Eruð þið kannski pirraðir á tónleikasenunni?

"Nei, nei. Það getur verið fjör að spila fyrir blindfullt fólk sem er að fíla sig en það skilur stundum lítið eftir sig. Þetta er oftast tvískipt, fulla fólkið er fremst en hinir hanga fyrir aftan og súpa á bjórnum. Það er frekar að það fari í taugarnar á manni að fólk krefst þess að fá fría tónleika en kemur svo ekki fyrr en um eitt leytið. Svo er fólk til í að borga 2-3.000 kr. inn á Skítamóral og mæta á slaginu."

Um hvað eruð þið að yrkja á plötunni?

"Það er eins konar ástarþema í öllum lögunum. Mismunandi birtingarmyndir ástarinnar. Venjuleg kærustuparaást, þráhyggja, ánægjan með að vera ástarlaus, partíást en svo er líka eitt lag um það þegar djöfullinn fer til sálfræðings."

Hvað er svo framundan?

"Við ætlum að spila eins mikið og við getum og kynna plötuna og útgáfutónleikar verða fljótlega eftir Hróarskeldu. "

Stór plata á næsta ári?

"Nei, eða ég veit það ekki. Við erum ekkert að stressa okkur á þessu. Þetta gerist þegar það gerist. Við gerum þetta á okkar hraða og hann er ekki mjög hraður."