[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Fyrir skömmu gekk Steingrímur J. Sigfússon, formaður Vinstri grænna, skáhallt norðaustur yfir Ísland, frá Reykjanestá að Langanesfonti. Guðrún Guðlaugsdóttir ræddi við hann um leiðarlýsinguna sem hann samdi sjálfur og 50 ára afmælisveislu hans á Gunnarsstöðum í Þistilfirði.

Göngur yfir hálendi Íslands voru forfeðrum okkar brýn nauðsyn en eru nútímafólki íþrótt og gleðigjafi. Reynslan sýnir að þeir sem taka að kanna hálendið sækjast eftir gönguferðum um það þegar þeir eiga möguleika.

Einn úr hópi göngugarpa Íslendinga nú um stundir er Steingrímur J. Sigfússon formaður Vinstri grænna, sem nýlega hélt upp á fimmtíu ára afmæli sitt.

"Að kvöldi Jónsmessu í sumar lagði ég upp frá Reykjanestá og stefnan var tekin skáhallt norðaustur yfir landið og endapunktur var Langanesfontur," segir Steingrímur, en hann er nú staddur á Gunnarsstöðum í Þistilfirði, sem er hans fæðingarstaður og heimahöfn, eins og hann orðar það.

- Er þetta gömul gönguleið?

"Já og nei, þessi leið skásker flestar gömlu leiðirnar milli landshluta," svarar Steingrímur.

- En útbjó hann þá sjálfur þessa leiðarlýsingu?

"Já, ég gerði það, bæði las mér til og er nú sæmilega kunnugur löngum köflum á þessari leið. En þó voru svona eyður sem ég var að glíma við að fylla inn í, sérstaklega af því ég fór dálítið óhefðbundna leið og var að færa mig á milli hefðbundinna fornra leiða yfir hálendið, eins og Kjalvegar og Sprengisandsvegar.

Leiðarlýsing göngu Steingríms

- Hvernig er leiðarlýsingin?

"Jú, það er í fyrsta lagi Reykjanesskagi, þar gekk ég nesið sunnanvert, þ.e. fór um Grindavík og framhjá Ísólfsskála og tjaldaði í Ögmundarhrauni. Í þetta fór Jónsmessunótt.

Síðan lá leiðin um Vigdísarvelli og undir hlíðum að Kaldárseli og áfangi númer tvö endaði við Elliðavatn.

Þar næst tók ég Mosfellsheiðina og leiðina um Þingvöll að Meyjarsæti á tveimur dögum.

Þaðan lá leiðin meira austur á bóginn, sunnan Skjaldbreiðar að Hlöðufelli og þar næst upp að Langjökli og ýmist var vaðið yfir eða gengið á jökli fyrir vötn úr vestari og eystri Hagafellsjökli. Sú dagleið var nokkuð strembin og til muna erfiðari en fært var meðan brúin var til staðar á Farinu.

Síðan komu þægilegir áfangar, frá skálanum við Hagavatn, um Bláfellsháls, á Kjalveg, þaðan í Kerlingarfjöll og til austurs í Setrið við suðausturjaðar Hofsjökuls. Þá hófst glíman við Þjórsárverin og vötnin sem þaðan falla. Fyrst var vaðið yfir Blautukvíslar og vötn frá Nauthagajökli en síðan ýmist vaðið eða gengið fyrir vötn úr Múlajökli og Þjórsárjökli. Þar á milli liggur að sjálfsögðu ein mesta perla íslenska hálendisins - Arnarfell hið mikla með skrúðgarði sínum. Úr efsta hluta Þjórsárvera lá leiðin skáhallt til austnorðausturs, yfir Þjórsá og upp á Sprengisandsleið. Af henni var svo tekin Gæsavatnaleið, hin gamla - sú sem liggur um Dyngjuháls og Urðarháls og yfir flæður eða aura Dyngjujökuls. Þessi áfangi er meðal annars sérstakur fyrir það að þar voru tvær dagleiðir án drykkjarvatns. (Reyndar má skjóta því að, að mun fleiri áfangar á leiðinni reyndust "þurrir", þ.e. án þess að þar væri drykkjarvatn á yfirborði.)

Eftir þetta lá leiðin frá Svartá, sunna Vaðöldu yfir Jökulsá á Fjöllum á brú við Upptyppinga, út Krepputungu, yfir brú á Kreppu og norður í Dyngju í Arnardal. Sennilega var þetta lengsta dagleiðin, nálægt 44 kílómetrum, við vorum 14 tíma að ganga þá dagleið, nánast stanslaus ganga.

Þaðan af lá leiðin um kunnugar slóðir til Möðrudals, norður Haugsöræfi niður í Þistilfjarðarheiðar og út á Langanes, sem ég gekk að sunnanverðu, um Skálar og á Font. Þá varð ekki lengra komist þurrum fótum þannig að ég lagðist á bjargbrúnina og kyssti jörðina í þakkarskyni."

Erum aðeins gæslumenn landsins

- Hvað varstu að þakka fyrir, gönguna eða að eiga þetta land?

"Eigum við ekki að segja allt í senn - ég nota reyndar ekki orðið að eiga, við erum aðeins gæslumenn landsins, það sjálft er sammannleg - samfélagsleg eign kynslóðanna. Okkar skylda er að gæta þess og skila því af okkur óskemmdu eins og öðru sem við höfum aðeins að láni.

Þessi ganga var vissulega persónuleg þakkargjörð eða óður af minni hálfu til þessa stórkostlega lands - Íslands, sem ég er svo gæfusamur að fá að njóta, þetta augnablik sem ég stoppa hér, eins og aðrir landsmenn."

- Hvað margt fólk tók þátt í þessari göngu?

"Það voru allt í allt sex til átta manneskjur. Það var nokkur hópur sem gekk með mér mismunandi áfanga en ég var sá eini sem gekk alla leið og reyndar allmargar dagleiðir aleinn. Konan mín, Bergný Marvinsdóttir, gekk með mér á fyrsta kaflanum og Jóhannes stóri bróðir minn og bóndi á Gunnarsstöðum gekk með mér síðasta spölinn, frá Skálum og á Font. Þar á milli tóku rispur með mér, í einn til þrjá daga hver, skólabræður úr jarðfræðinni, Andrés I. Guðmundsson (sem reyndar er starfsmaður Morgunblaðsins) og Sigurður Reynir Gíslason. Skólabróðir og íþróttafélagi Haukur Valtýsson og mágur minn Helgi Kristinn Marvinsson frá Selfossi, sem fékk harðvítugasta kaflann, þ.e. glímuna við Þjórsárverin og Sprengisand í norðanbálviðri og slagveðursrigningu. Einnig tók Björn Ingimarsson sveitarstjóri á Þórshöfn með mér spöl."

Útbúnaður í hina löngu göngu

- Hvernig útbúnað tekur fólk með sér í svona gífurlega gönguferð?

"Aðalvandinn er að taka aðeins það sem er nauðsynlegt, velja úr það mikilvægasta og sleppa öllum óþarfa."

- Hvað er bráðnauðsynlegt?

"Hafa góðan gönguklæðnað, bæði nærföt til að svitna í og fullnægjandi hlífarföt - en ekkert annað fatakyns. Léttan og orkuríkan mat, t.d. frostþurrkaðar máltíðir, drykki til að hita o.s.frv. Næga sokka til skiptanna og góða skó. Ég var á vel tilgengnum skóm, það er ekki hyggilegt að fara í nýjum skóm. Ég náði að halda fótunum að mestu alveg heilum með fyrirbyggjandi ráðstöfunum, svo sem með plástrum á álagsstöðum, áður en skinnið fer í sundur."

Lengsta samfellda ganga Steingríms

- Hver eru áhrifin í minningunni af þessari göngu?

"Þau eru margvísleg og ábyggilega meiri en ég er enn farinn að átta mig á. Ég hef auðvitað fengið landið og mikilfengleik þess svo rækilega í blóðið og sálina með þessari göngu að varla verður betur gert. Ég vissi auðvitað fyrir hvers konar gersemi Ísland er fyrir útivistar- og náttúruunnendur en þetta stimplaði það rækilegar og betur inn hjá mér en nokkuð annað hefur gert fyrr. Ég kem úr ferðinni barmafullur af lotningu fyrir öræfunum, landinu og því að lifa lífinu hér."

- Er þetta þín lengsta samfellda ganga á æviveginum?

"Já, það er ekki ólíklegt en alls ekki mín hinsta."

Sameiginleg afmælisveisla

- Hvernig var svo afmælisveislan sem var beint framhald af göngunni miklu?

"Jú, mikið rétt, fljótlega eftir að göngunni lauk hófst undirbúningur hér heima á Gunnarsstöðum undir sameiginlegt stórafmæli okkar feðga, mitt og Bjarts sonar míns, en við eigum sama afmælisdag. Urðum sem sagt 63 ára núna á fimmtudaginn var. Hann 13 ára og ég 50 ára.

Veislan sjálf var stórkostleg, hér glöddust með okkur líklega allt í allt um 350 til 500 manns og skemmtu sér vel við söng, ræðuhöld, borðhald og dans. Eins góð og veislan var, var undirbúningurinn ekki síðri. Það var ánægjulegt að vinna hér að því með fjölskyldu minni og vinum að fegra staðinn og búa til veisluaðstöðu fyrir þennan fjölda, svona til að sýna að sveitamenn kunna enn að taka á móti gestum og ekki síður að gleðja sjálfa sig og aðra."

gudrung@mbl.is