ANDRI Ísaksson, fyrrverandi prófessor við Háskóla Íslands, er látinn, 65 ára að aldri. Hann andaðist á heimili sínu í Kópavogi aðfaranótt 6. ágúst síðastliðins. Andri fæddist í Reykjavík 14. nóvember 1939.

ANDRI Ísaksson, fyrrverandi prófessor við Háskóla Íslands, er látinn, 65 ára að aldri. Hann andaðist á heimili sínu í Kópavogi aðfaranótt 6. ágúst síðastliðins.

Andri fæddist í Reykjavík 14. nóvember 1939. Foreldrar hans voru hjónin Ísak Jónsson skólastjóri og Sigrún Sigurjónsdóttir kennari. Andri lauk stúdentsprófi af máladeild Menntaskólans í Reykjavík árið 1958. Hann lauk licence-és-lettres-prófi í sálarfræði frá Parísarháskóla, Sorbonne, 1965 og M.A.-prófi í uppeldisfræði frá Kaliforníuháskóla, Berkeley, árið 1970. Hann stundaði síðar framhaldsnám og rannsóknir við Gautaborgarháskóla í Svíþjóð og München-háskóla í Þýskalandi.

Andri var skólasálfræðingur við sálfræðideild skóla, Fræðsluskrifstofu Reykjavíkur, 1965-1966, sérfræðingur við skólarannsóknir í menntamálaráðuneytinu 1966-1968 og deildarstjóri skólarannsóknardeildar 1968-1973. Þessi ár var hann jafnframt stundakennari við Kennaraskóla Íslands. Andri var skipaður prófessor í uppeldisfræði við Háskóla Íslands frá 1973-1992 (leyfi 1980-1983 og 1989-1992). Hann var ráðinn svæðisráðgjafi UNESCO, Menntastofnunar Sameinuðu þjóðanna, vegna nýjunga í skólastarfi í Suðaustur-Evrópu 1980-1983, með aðsetur í París, skrifstofustjóri tengslaskrifstofu UNESCO í New York 1988-1992, og yfirdeildarstjóri framhaldsskóla- og verkmenntadeildar höfuðstöðva UNESCO í París 1992-1999.

Andri sinnti fjölmörgum trúnaðarstörfum. Hann var formaður Sambands íslenskra stúdenta erlendis 1965-1966, formaður Sálfræðingafélags Íslands 1972-1976, ritari UNESCO-nefndarinnar 1966-1980 og fulltrúi Íslands í framkvæmdastjórn UNESCO 1983-1987. Hann var fulltrúi Íslands í stjórnarnefnd um samhæfingu norrænna skólakerfa 1972-1976, og í stjórnarnefnd CERI, Menntarannsóknastöðvar OECD, Efnahags- og framfarastofnunar, í París 1972-1980. Andri átti sæti í stjórn hugvísindadeildar Vísindasjóðs Íslands 1974-1980 og sat í skólanefnd Skóla Ísaks Jónssonar 1966-1979. Eftir Andra liggur fjöldi greina í blöðum, tímaritum og safnritum um uppeldisfræði, skólamál og fleira.

Andri var kvæntur Svövu Sigurjónsdóttur, safnakennara og listsagnfræðingi, og eignuðust þau fjögur börn.