8. ágúst 2005 | Fasteignablað | 607 orð | 2 myndir

Gervihnattadiskar

— Morgunblaðið/Golli
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Mjög algengt er að leitað sé til Húseigendafélagsins vegna uppsetningar einstakra eigenda á gervihnattadiskum í fjöleignarhúsum. Yfirleitt lúta fyrirspurnirnar að uppsetningu prívat diska sem festir eru upp utan á hús, svalir eða innan svala.
Mjög algengt er að leitað sé til Húseigendafélagsins vegna uppsetningar einstakra eigenda á gervihnattadiskum í fjöleignarhúsum. Yfirleitt lúta fyrirspurnirnar að uppsetningu prívat diska sem festir eru upp utan á hús, svalir eða innan svala. Slíkir diskar hafa mjög verið til ófriðar og deilt hefur verið um rétt eigenda til að festa þá utan á hús eða ofan á það.

Þá hefur verið um það deilt hvort eigendum sé heimilt að hengja slíka diska innan svala, annaðhvort fyrir ofan svalahandrið eða neðan en það getur skipt sköpum með hvorum hætti gengið er frá því. Aðalatriðið er að diskar sem þessir hafa áhrif á ásýnd og heildarmynd viðkomandi húss og því hafa allir eigendur ákvörðunarrétt um hvort diskar skuli leyfðir eða ekki. Því er fullkomið frjálsræði einstakra eigenda ekki til staðar í þessu sambandi.

Ef diskar eru hins vegar hengdir upp á svölum fyrir neðan svalahandrið, og breyta þannig ekki ásýnd hússins, verður að telja að eigendum sé slíkt heimilt án þess að leita samþykkis annarra eigenda. Einnig má nefna að ef um verulega smávægilegar breytingar er að ræða getur samþykki einfalds meirihluta eigenda nægt til töku ákvörðunar.

Eins og áður segir eru stórir diskar og einnig smærri diskar utan á hús og svalir til þess fallnir að spilla ásýnd húsa. Uppsetning slíkra diska utan á hús er því háð fyrirfram samþykki annarra eigenda. Í langflestum tilvikum þarf samþykki allra eigenda fyrir slíku en í undantekningartilvikum þarf samþykki 2/3 hluta eigenda.

Lög og reglugerð

Samkvæmt fjöleignarhúsalögunum er allt ytra byrði fjöleignarhúss í sameign og þar með er talið útlit, ásýnd og heildarmynd húss. Allir íbúðareigendur eiga rétt á að eiga hlut að ákvörðun sem varðar útlitið og heildarmyndina. Þegar um miklar útlitsbreytingar er að ræða þurfa allir eigendur að ljá samþykki sitt fyrir þeim en þegar um breytingar er að tefla sem ekki eru verulegar nægir samþykki 2/3 hluta.

Í öllum þessum tilvikum er tilskilið að ákvörðun sé tekin á húsfundi enda er ákvörðunartaka með því að ganga með lista á milli eigenda ekki lögmæt nema allir skrifi undir.

Þegar um litla diska á svölum er að tefla þá snýr það að hagnýtingu séreignar og í slíkum tilvikum er það meginregla að eigandi eigi einn rétt á að ráða yfir og hagnýta séreign sína. Sá réttur takmarkast hins vegar og skerðist af ofangreindum rétti annarra sameigenda varðandi útlitsatriði og fleira. Bent skal á að nauðsynlegt er að sækja um leyfi fyrir öllum diskum hjá embætti byggingarfulltrúa og tekur hann ákvörðun um hvort hann telur öllum skilyrðum til uppsetningar disks fullnægt samkvæmt byggingarreglugerð.

Álit kærunefndar

Kærunefnd fjöleignarhúsamála hefur í nokkrum álitum sínum fjallað um heimildir eigenda til að setja upp gervihnattadiska í fjölbýlishúsum. Í nýlegu áliti kærunefndar er eiganda gert að fjarlægja disk sem settur hafði verið upp án þess að leitað hafi verið samþykkis eigenda í viðkomandi húsi.

Í forsendum kærunefndarinnar kemur fram að samkvæmt fjöleignarhúsalögunum verði ekki ráðist í framkvæmdir sem ekki er gert ráð fyrir á samþykktum teikningum nema allir eigendur samþykki ef um er að ræða verulega breytingu á sameign, þar á meðal útliti hússins. Þá kemur fram að ef ekki er um að ræða framkvæmdir sem geta talist verulegar þurfi samþykki 2/3 hluta eigenda.

Í málinu var um að ræða gervihnattadisk sem hafði verið festur á innanverðum svalavegg ofan handriðshæðar og breytti því ásýnd hússins. Kærunefndin taldi að uppsetning hans fæli ekki í sér verulegar breytingar og því þyrftu a.m.k. 2/3 hlutar eigenda að vera meðmæltir uppsetningunni. Þar sem tilskilinn meirihluti hafði ekki náðst á húsfundi var viðkomandi eiganda gert að fjarlægja diskinn. Þá var eigandanum jafnframt gert að fjarlægja allar meðfylgjandi lagnir og ganga þannig frá múrhúð og málningu að ummerki festinga væru afmáð.

Aðgangsupplýsingar

Notandi:Þú ert ekki innskráð(ur).
Greinin: Þessi grein er ókeypis þar sem hún er eldri en þriggja ára.
Morgunblaðið - fyrsta forsíðan

Morgunblaðið hjá Landsbókasafni

Á vefnum timarit.is er að finna stafrænt safn Landsbókasafns yfir helstu dagblöð og tímarit landsins. Þetta er eina leiðin til að leita að efni úr Morgunblaðinu frá því fyrir 1986.