SEX hundruð þúsund króna launaþak Fæðingarorlofssjóðs hefur haft áhrif á rúmlega 4% umsækjenda um greiðslur úr sjóðnum, frá því lagabreytingar um hámarkslán úr sjóðnum tóku gildi 1. janúar sl.
SEX hundruð þúsund króna launaþak Fæðingarorlofssjóðs hefur haft áhrif á rúmlega 4% umsækjenda um greiðslur úr sjóðnum, frá því lagabreytingar um hámarkslán úr sjóðnum tóku gildi 1. janúar sl. Þakið hefur áhrif á orlofsgreiðslur mun fleiri karla en kvenna skv. upplýsingum á vef Tryggingastofnunar. Eftir breytingarnar getur mánaðarleg greiðsla til foreldris í fullu orlofi ekki orðið hærri en 480 þúsund kr. eða 80% af 600 þúsund króna meðallaunum.

Á vef TR kemur fram að 50 feður og 11 mæður með sex hundruð þúsund kr. meðallaun á síðustu tveimur árum sóttu um fæðingarorlofsgreiðslur á fyrstu 6 mánuðum ársins. "Feður sem sóttu um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði á þessu tímabili eru 1.421 og því hefur 600 þúsund króna launaþakið, sem kom til framkvæmda um síðustu áramót, haft áhrif til lækkunar á greiðslum hjá 3,5% feðra. Mæður sem sóttu um fæðingarorlof á fyrri hluta ársins eru 1.549 og launaþakið hefur haft áhrif á 0,7% þeirra," segir á vef TR.

Árni Magnússon félagsmálaráðherra sagði í gær að lögum um fæðingarorlof væri ætlað að ná ákveðnum grundvallarþáttum. "Einn þeirra þátta er að tryggja börnum samvistir við báða foreldra og þá á staða foreldris eða tekjur ekki að skipta máli. Annar þátturinn er að jafna stöðu kynjanna. Það myndi vinna þvert gegn því markmiði ef stjórnendur fyrirtækja eða þeir sem eru launahæstir hefðu minni rétt til orlofs en aðrir."

Benedikt Sigurðarson, formaður stjórnar KEA, segir að fæðingarorlof sé ekki orsök hvað varðar starfslok fráfarandi framkvæmdastjóra KEA. Hins vegar hafi frágangur málsins verið miðaður við það að hann ætti þennan rétt og gengið hafi verið frá samkomulagi varðandi starfslok hans. | 10