Einleikurinn Manntafl: Einn maður margar persónur! Þór Tulinius í hlutverkum sínum.
Einleikurinn Manntafl: Einn maður margar persónur! Þór Tulinius í hlutverkum sínum.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Þegar þeir hafa lesið Manntafl munu þeir velta fyrir sér hinni undarlegu tilgátu um að dr B sé í raun Björn Kalman, sonur Páls Ólafssonar skálds.

ÞAÐ hefur spurst út að leikhópurinn Þíbilja ætli í samvinnu við Leikfélag Reykjavíkur að setja upp Manntafl Stefans Zweigs. Manntafl verður í leikgerð Þórs Tulinius sem jafnframt er eini leikarinn því um einleik er að ræða. Margir munu forvitnir að sjá hvernig Þór fer höndum um þessa frægu smásögu sem sumir telja einhverja fegurstu perlu smásagnagerðar í heiminum og er þá langt til jafnað.

Íslendingar halda margir mikið upp á Manntafl, sem kom á sínum tíma út hjá Menningarsjóði í þýðingu Þórarins Guðnasonar. Sagan var fyrir mörgum árum kvikmynduð og lék þá þýski leikarinn Curd Jürgens aðalhlutverkið. Fyrir nokkrum árum var sagan sett upp sem ópera í Vín og nú fá Íslendingar eigin útgáfu á leiksviði. En Manntafl höfðar ekki bara til Íslendinga vegna listarinnar, frábærrar frásagnarsnilli og ótrúlegra örlaga. Í nokkra áratugi hefur verið á kreiki getgáta um að aðalsöguhetjan, dr B, sé Íslendingurinn Björn Kalman. Tilgátan er heillandi og studd röð af líklegum burðarásum og stoðum. Hún er fyrst og fremst byggð á samanburði og samlestri ævisögu Zweigs, veröld sem var, og ævisögu Vilhjálms Stefánssonar landkönnuðar. Líklega er það Gylfi Gröndal sem kemur þeirri getgátu fyrst á prent með viðtali sínu við Jón Ólafsson hæstaréttarlögmann, sem hann birti síðar í bók sinni Menn og minningar sem kom út 1981. Garðar Sverrisson ritaði stórmerka grein um þetta efni í Lesbók Morgunblaðsins árið 1982. Undirritaður ritaði um þetta stutta grein í skákblað Ólympíumótsins í Luzern gefið út í Sviss árið 1982 og fékk reyndar nokkur andmælabréf frá erlendum mönnum sem lögðu aðaláherslu á tengsl sögunnar við nasismann.

Sagan Manntafl

Manntafl er síðasta sagan sem austurríski snillingurinn Stefan Zweig skrifaði, stuttu áður en hann og síðari kona hans sviptu sig lífi í Brasilíu árið 1942. Saddur lífdaga hvarf hann af sjónarsviðinu og undarlegt er til þess að hugsa að slík sköpunargáfa skuli leiftra í síðasta verki hans, Manntafli, á þeim tíma sem uppgjöf er að heltaka huga þessa mikla meistara hins ritaða máls. Í ritum sínum fjallar Zweig um einstaklinginn sjálfan, sálarástand hans og sálarbaráttu. Oft ritar hann um einstaklinga sem eru reknir áfram af hálfmeðvituðum og ómeðvituðum kröftum, stundum í yfirþyrmandi einhyggju með demonískum eldmóði.

Í Manntafli varpar Zweig fram spurningunni hvað hefur skák fram yfir aðra leiki eins og t.d. lúdó? Hvernig geta fullorðnir menn varið allri ævinni í að færa trémenn af hvítum reitum á svarta? Og svarið er einfaldlega fegursti óður til skáklistarinnar sem ritaður hefur verið.

Skákin er svo gömul að enginn þekkir uppruna hennar. Samt nær enginn langt í skák án þess að fylgjast stöðugt með nýjungum. Allir geta lært að tefla en aðeins örfáum er gefið að höndla kjarna listarinnar og verða meistarar. Skákin er takmörkuð við sextíu og fjögurra reita borð en er þó algjörlega takmarkalaus í flækjum sínum. Þótt leikreglur skáklistarinnar séu strangar eru máttarviðir þeirra listaverka sem verða til á skákborðinu hugarflug og ímyndunarafl. Og skákin hefur skapað listamenn ekki síður en tónlist, ritlist eða höggmynda- og málaralist, listamenn sem lifa í verkum sínum meðan heimur byggist.

Í Manntafli teflir Zweig saman umgjörð nasismans, snilli manns, dr B, sem á engra úrkosta völ annarra en tefla til þess að afla hugsun sinni viðfangsefna í fangelsi, og heimsmeistara í skák, sveitadreng, sem virðist ekki hafa aðra hæfileika en skákgáfuna, "þar skín skákgáfan í andlegri eyðimörk eins og gullæð í gráu bergi". En skákin heimtar sína fórn. Annar helgar sig skákinni, líf hans er skák og innan þess hrings er allt sem er. Hinn flýr á síðustu stundu vald skákgyðjunnar og nær þannig að bjarga geðheilsu sinni. Sagan gerist á millilandaskipi sem er eini staðurinn þar sem unnt er að setja svo ólíka menn í návígi í nægilega langan tíma. Frásögnin er þrungin spennu og persónulýsingar Zweigs bera vott um snilli höfundar. Þó nokkrir hafa komið að máli við mig og séð ákveðnar hliðstæður með Manntafli og heimsmeistaraeinvíginu sem hér var 1972. Ég held að þar sé nokkuð langt seilst þó leita megi einhverrar samsvörunar.

Dr B og Björn Kalman

Íslendingar hafa gaman af tilgátum um að frægar persónur séu af íslenskum uppruna. Við teljum að Hamlet sé í raun þjóðsögupersónan Amlóði, að Pétur Gautur sé Grímur Thomsen, að James Bond sé Vestur- Íslendingurinn William Stevenson, að franska stjórnarbyltingin eigi uppruna sinn á Íslandi og forfaðir Shakespeares hafi verið Íslendingur að nafni Jón.

Upp úr 1970 kom til mín fullorðinn maður, Jón Ólafsson, og varpaði fram þeirri tilgátu að dr B í Manntafli væri Björn Kalman en Björn og Jón höfðu rekið saman lögmannsstofu. Eftir að hafa hlustað á rök hans hvatti ég hann mjög til að rita þessa tilgátu sína og birta hana. Í bók Gylfa Gröndal kemur fram að nemandi Björns hafði varpað fram tilgátunni í eyru Jóns og Gylfi skráir frásögnina og bjargar henni frá gleymsku. Garðar Sverrisson heillaðist af tilgátunni og ritaði um hana.

Svo margt fellur saman í frásögninni að ósjálfrátt telur maður að þetta geti ekki allt verið tilviljun. Tilgátan byggist á að Zweig hafi á fyrirlestraferð sinni í Harvard heyrt frásögnina af Birni sem var þar námsmaður um skeið. Allt kemur heim og saman, taflmennska Björns við meistarana á skipinu til Ameríku, hræðsla hans við að hann sé að missa vitið vegna þess að hann geti ekki gleymt neinni skák og hvernig hann hleypur burt eftir skák sína við Marshall með orðum um að tefla aldrei framar.

Björn vinnur meistarana eins og dr B, og nafnið - af hverju velur Zweig nafnið B, skyldi það vera Björn? Báðir voru lögmenn.

Leikritið og tilgátan

Meðan Íslendingar unna sagnalistinni munu þeir lesa Manntafl, dást að list höfundarins og hrífast með atburðarásinni. Þegar þeir hafa lesið Manntafl munu þeir velta fyrir sér hinni undarlegu tilgátu um að dr B sé í raun Björn Kalman, sonur Páls Ólafssonar skálds. En við eignum okkur ekki bara höfuðpersónuna. Við eru nú að eignast íslenska leikgerð af sögunni og bíðum full eftirvæntingar eftir að sjá hana.

Höfundur er verkfræðingur.