6. maí 1993 | Viðskiptablað | 1256 orð

Hugbúnaður Bjartsýnin í fyrirrúmi hjá Softis Rætt við forráðamenn Softis um

Hugbúnaður Bjartsýnin í fyrirrúmi hjá Softis Rætt við forráðamenn Softis um markaðsstöðuna og væntingar um framtíð fyrirtækisins sem þeir eru mjög bjartsýnir á enda er búist við að fyrstu samningarnir verði gerðir í haust SOFTIS HF. er það fyrirtæki sem...

Hugbúnaður Bjartsýnin í fyrirrúmi hjá Softis Rætt við forráðamenn Softis um markaðsstöðuna og væntingar um framtíð fyrirtækisins sem þeir eru mjög bjartsýnir á enda er búist við að fyrstu samningarnir verði gerðir í haust

SOFTIS HF. er það fyrirtæki sem mesta athygli hefur vakið á hlutabréfamarkaði undanfarna mánuði og viðskiptagengi hlutabréfa í fyrirtækinu hefur verið það hæsta sem sést hefur á Opna tilboðsmarkaðnum og Verðbréfaþingi Íslands. Á bak við hið háa gengi búa fyrst og fremst væntingar manna um að Softis takist að ná umfangsmiklum samningum um Louis forritið, sem forsvarsmenn Softis segja að boði byltinu í forritun notendaviðmóta, fyrir tölvur og önnur tæki er þarfnast stýringa. Þeir segja jafnframt að gengi hlutabréfanna sé rétt að fara af stað og samkvæmt markaðsspám þeirra kemur gengið til með að hækka verulega á næstu árum og verða margfalt það sem það nú er.

Forsvarsmenn Softis hf. vilja gæta sín á því að vera ekki með of miklar yfirlýsingar um þær samningaviðræður sem í gangi eru hverju sinni, meðal annars vegna þess að Softir hf. hefur skrifað undir gagnkvæma trúnaðarsamninga. Þeir Jóhann Malmquist, Grímur Laxdal og Snorri Agnarsson féllust þó á viðtal við Morgunblaðið og kynntu fyrir blaðamanni ýmsar þær athuganir og drög að samningum sem fyrirtækið hefur verið að vinna að. Flest af því er enn trúnaðarmál, en í stuttu máli má segja að þeir séu mjög bjartsýnir á að fyrirtækið eigi sér glæsta framtíð. Samningar eigi eftir að takast á næstu misserum og gengið eigi eftir að hækka verulega.

Umfangsmiklar viðræður

Forsvarsmenn fyrirtækisins hafa ekki vitneskju um að neitt annað fyrirtæki sé að vinna að sambærilegri lausn og með þann pálma í höndunum hefur Softis m.a. átt í viðræðum við tölvurisana IBM og Apple og Novell, sem er stærsta fyrirtækið á sviði nettenginga í heiminum. Apple og Novell munu skrifa undir betasamning við Softis í lok maí, en í því felst m.a. að þau fyrirtæki munu fá sjálf að prófa hvernig Louis virkar.

Forsvarsmenn Softis segja að í sjálfu sér sé það merkur áfangi að ná samningi við eitt þessara fyrirtækja en markmiðið sé auðvitað að ná samningi við þau öll þannig að Louis geti orðið viðurkennd samskiptaaðferð um allan heim.

Bjarsýnir á samninga

Aðspurðir um hvaða áfangar hefðu nú þegar náðst á markaðssviðinu sögðu forsvarsmenn Softis að þeir teldu sig hafa orðið vel ágengt í þeim viðræðum sem þeir hefðu átt við fyrirtækin í Bandaríkjunum. "Okkur finnst við vera komnir að lokamarkinu um að ná samningum. Í fyrstu hafa ýmsir tæknimenn þessara fyrirtækja verið með efasemdir en í lok hvers fundar, þegar við höfum sýnt þeim hvernig forritið virkar, þá hafa viðbrögðin orðið mjög jákvæð. Þannig höfum við komist í gegnum hverja síuna á fætur annarri og erum nú að fara að snúa okkur að þeim sem sjá um peningamálin."

Um hverjar væru líkurnar á samningum á þessu stigi sögðust Softismenn nærri útiloka annað en að einhverjir samningar yrðu gerðir, en hversu stórir þeir yrðu væri enn óljóst.

Auk þessara þriggja fyrrnefndu fyrirtækja hafa verið í gangi viðræður við Microsoft um markaðssamstarf og nú þegar hefur verið skrifað undir samstarfssamning um markaðssetningu við Microsoft.

Styttist í lokapróf

Tæknilega séð er staðan nú sú að Louis fyrir Macintosh er í lokaprófun. Tveir mánuðir eru síðan í að Louis fyrir Windows og DOS fari í lokaprófun og um 4 mánuðir í að OS/2 fari í lokaprófun. Lokapróf getur staðið í hálft ár og jafnvel lengur, en Softismenn telja líklegt að af samningum verði í haust.

Áhersla lögð á að vernda hugmyndina

Til að tryggja að hugmyndinni að Louis verði ekki stolið sótti Softis um 10 mismunandi einkaleyfi fyrir Louis í Bandaríkjunum fyrir um ári síðan og einnig er fyrirtækið að sækja um einkaleyfi í Evrópubandalaginu, Ástralíu, Japan, Kanada og Brasilíu. Bið eftir einkaleyfi tekur nokkuð langan tíma en það má búast við að það fari að skýrast á næstu mánuðum. Ekki er víst að hinar 10 mismunandi einkaleyfisumsóknir séu allar einkaleyfishæfar, en lögfræðingar Softis telja víst að þeir hljóti leyfi fyrir meirihlutanum af umsóknum sínum .

"Auk þess að sækja um einkaleyfi höfum við skrifað undir trúnaðarsamning við þau fyrirtæki sem við höfum rætt við. Þar kemur fram að þeim er alls ekki heimilt að nota hugmyndina án okkar leyfis og ef þeir gera það eru þeir skaðabótaskyldir gagnvart okkur. Þessir samningar eru mjög ítarlegir og eiga að koma í veg fyrir að við sköðumst af viðræðunum," sagði Jóhann Malmquist.

Ekki bara tölvur

Í Bandaríkjunum er gert ráð fyrir að á hverju heimili séu nú að meðaltali 3 fjarstýringar, en í framtíðinni er gert ráð fyrir að 6 fjarstýringar verði að meðaltali á hverju heimili. Þetta eru góðar fréttir fyrir Softis þar sem Louis mun ekki einungis virka fyrir tölvur heldur einnig fyrir hvers kyns fjarstýringar fyrir heimilistæki. Louis mun einfalda notkun heimilistækja almennt, hvort sem það eru þvottavélar, myndbandstæki eða annars konar heimilistæki.

Í því sambandi horfa Softismenn m.a. á Japansmarkað en Softis hefur nýlega verið boðið að taka þátt í rannsóknarstarfsverkefni með Carnegie-Mellon háskólanum í Pittsburg, Sony, Hitachi og Háskólanum á Írlandi. "Við lítum þetta sem stóran möguleika fyrir okkur til að komast inn á Japansmarkað."

Allir starfsmenn hluthafar

Ekki er laust við að efasemdir hafi heyrst um Softis og þann árangur sem fyrirtækið býst við að ná. Menn segja sem svo: "Ef Louis er svona frábært forrit, hvers vegna hafa engir samningar náðst við þessi stóru fyrirtæki í Bandaríkjunum?" Þegar þessi gagnrýni var borin undir forsvarsmenn Softis brostu þeir og sögðu einfaldlega: "Við erum bara langt á undan okkar samtíð, enda er Louis algjör nýjung og bylting á sínu sviði. Í upphafi þegar við fórum af stað með að kynna hugmyndina vorum við bara með glærur og menn áttu erfitt með að átta sig á hversu mikil bylting þetta var. Nú getum við sýnt í raun hvernig Louis virkar og þessir aðilar eru orðnir sannfærðir um tæknina og vilja prófa hana. Það er okkar næsta skerf og nú styttist í að samningar verði gerðir."

Máli sínu til stuðnings nefna þeir að allir starfsmenn Softis séu hluthafar í fyrirtækinu og hafi því mikla trú á því sem þeir eru að gera. Starfsmennirnir hafa bæði fengið tækifæri til að kaupa hlutabréf í fyrirtækinu, en einnig hafa þeir fengið hlutabréf sem launauppbót.

Stöðugildi hjá Softis eru nú 12 en voru 10 fyrir tveimur mánuðum. Á næstunni eiga stöðugildin eftir að aukast enn frekar, en forsvarsmenn fyrirtækisins sögðust alls ekki geta sagt á þessari stundu hversu margir starfsmenn yrðu í lok ársins.

Hluthafar Softis hf. eru yfir 150 en Radíóbúin hf. er eini hlutahafinn með yfir 10% hlutafjár.

Vonir um velgengi

Auglýsing Softis sem birt var í síðastliðinni viku hefur vakið mikla athygli. Fyrirtækið auglýsir að nú sé einstakt tækifæri þar sem stjórnin hafi ákveðið að selja þau hlutabréf sem enn eru í eigu Softis hf. Orðrétt segir í auglýsingunni: "Vitað er um mann sem seldi bifreið sína til að kaupa sér hlutabréf í félaginu og daginn eftir átti hann andvirði tveggja bifreiða." Ýmsir hafa gagnrýnt þessa aðferð Softis til að auglýsa og telja að áhættan sem fylgi kaupunum sé allt of mikil til að hægt sé að auglýsa á þennan máta.

Softismenn telja sig hins vegar alls ekki vera með gífuryrði og fullyrða að jafnvel þó ekki gangi jafnvel og þeir vonist til þá eigi gengi Softisbréfa eftir að hækka. Þeir eru mjög sannfærandi og hafa ýmis gögn máli sínu til stuðnings. Enn eru það þó fyrst og fremst væntingar sem liggja að baki gengi hlutabréfanna.

ÁHB

Aðgangsupplýsingar

Notandi:Þú ert ekki innskráð(ur).
Greinin: Þessi grein er ókeypis þar sem hún er eldri en þriggja ára.
Morgunblaðið - fyrsta forsíðan

Morgunblaðið hjá Landsbókasafni

Á vefnum timarit.is er að finna stafrænt safn Landsbókasafns yfir helstu dagblöð og tímarit landsins. Þetta er eina leiðin til að leita að efni úr Morgunblaðinu frá því fyrir 1986.