5. nóvember 2005 | Minningargreinar | 739 orð | 1 mynd

INGA BÍLDSFELL TJIO OG JOE HIN TJIO

Látin eru í Gaithersburg í Maryland í Bandaríkjunum hjónin Inga Bíldsfell og Joe Hin Tjio. Inga fæddist að Bíldsfelli í Árnessýslu 5. nóvember 1919. Hún lést 31. mars síðastliðinn. Foreldrar hennar voru Guðrún Kristjánsdóttir (1894-1990), Sigurðssonar, lengst af saumakona í Kaupmannahöfn, og Árni Ásgeirsson (1898-1967), Eyþórssonar, sjómaður, lengi í Boston.

Inga ólst upp hjá móður sinni í Höfn og lauk námi í náttúrufræðum við Háskólann í Kaupmannahöfn 1947. Sérgrein hennar var jarðfræði. Hún kom oft til Íslands og stundaði rannsóknir hér á landi, m.a. á Tjörnesi.

Hinn 4. október árið 1948 giftist Inga Joe Hin Tjio erfðafræðingi, f. í Jimalaka Soemadang á Jövu 11. febrúar 1919, d. 27. nóvember 2001. Foreldrar hans voru Tjhio Egn Bok, kínverskur að ætt, og Thung Kow Nio frá Indónesíu.

Árið 1955 eignuðust Inga og Joe Hin soninn Yu Hin Tjio sem nú býr í Silver Spring. Inga Bíldsfell helgaði líf sitt fræðum eiginmanns síns og syni sínum, en hafði alltaf sama lifandi áhugann á sínum fræðum.

Eftir líkbrennslu var aska þeirra hjóna flutt til Íslands og hvíla þau nú í íslenskri mold. Minningarathöfn um þau Ingu og Joe Hin var haldin í Fossvogskapellu 2. september síðastliðinn.

Joe-Hin Tjio var grasafræðingur að mennt sem öðlaðist heimsfrægð fyrir framlag sitt í mannerfðafræði (Encyclopaedia Britannica 2002). Seint að kvöldi hinn 22. desember 1955 í Lundi tókst Joe-Hin að greina grundvallaratriði mannerfðamengisins rétt í fyrsta skipti í sögu mannerfðafræðinnar. Hann komst að því að í frumu mannsins eru 46 litningar, eða 23 pör, en ekki 48 litningar eins og í mannöpum. Félagi hans, Maj Hultén, hefur sagt frá því hversu hrifin og orðlaus hún var við að sjá hversu vel dreifðir litningarnir voru og í svo mörgum frumum og þannig var aðgreiningin nákvæm í fyrsta skipti í sögunni. Niðurstaða litningagreiningarinnar var birt árið eftir í erfðafræðitímariti Lundar-háskóla, með Albert Levan sem var þá rannsóknastjóri og gestgjafi Joe-Hin (Tjio & Levan, 1956, The chromosome number of man, Hereditas 42: 1-6). Fljótlega eftir það birtist staðfesting á þessari niðurstöðu með athugun kynfrumuskiptingar (Ford & Hamerton, 1956, Nature 178: 2010-2013). Höfundar þessara tveggja greina hafa verið tilnefndir til Nóbelsverðlauna og Joe-Hin hefur staðfest fimm tilnefningar fyrir sig.

Verkið hans Joe-Hin er klassískt í líffræðinni og er meðal þeirra sem mest er vitnað í. Þetta var ekki tilviljunarkennd uppgötvun eða tilraunaslys, eins og margir vildu halda fram, heldur var niðurstaðan árangur margra ára reynslu við litningaeinangrun úr plöntum og dýrum, vísindalegrar þjáfunar og dugnaðar. Verkið hans Joe-Hin var tímamótauppgötvun. Hægt var í fyrsta skipti að tengja sjúkdómseinkenni við litningabreytingar og þar af leiðandi greindist m.a. orsök sjúkdómsins Down-heilkenni. Frumuerfðafræðilegar rannsóknir á sjöunda og áttunda áratugunum snerust að mestu um litningabreytingar sem orsaka sjúkdóma og krabbamein. Á níunda áratugnum var Joe-Hin Tjio tilnefndur af háskólum víðar um heim til Nóbelsviðurkenningar á sviði læknisfræði eins og áður var nefnt. Árið 1962 hlaut hann JFK-viðurkenningu fyrir alþjóðlegt vísindastarf og afhenti John F. Kennedy forseti sjálfur viðurkenninguna.

Ég varð þess heiðurs aðnjótandi að kynnast Joe-Hin Tjio hér á Íslandi. Einn vordag árið 1988 hringdi Þorsteinn Tómasson forstjóri Rannsóknastofnunar landbúnaðarins í mig og spurði hvort ég gæti komið að taka á móti gesti frá heimaslóðum mínum. Ég varð mjög undrandi að sjá sérprentun af heimsfrægri grein "Tjio & Levan 1956" og þarna var þá sjálfur Tjio. Ég sýndi honum rannsóknastofuna í litningafræði. Það kom honum svolítið á óvart að ég gæti fengið talsverðar niðurstöður með engan annan tækjabúnað en tvær gamlar smásjár, önnur frá Birni Sigurbjörnssyni og hin frá Áskeli Löve. Joe-Hin samþykkti niðurstöður um litningabreytingar í sauðfé frá Skriðuklaustri sem unnar voru undir forystu Stefáns Aðalsteinssonar, en vorkenndi mér mikið fyrir hvað birkilitningar væru litlir og erfiðir. Joe-Hin var svo innilegur og vingjarnlegur og hann bauð mér alla þá hjálp sem hann gat veitt til að koma litningaverkefni mínu á framfæri. Seinna sendi hann mér tæki, efni og margt fleira, og reglulega gaf hann mér ráð við rannsóknir og bréfaskipti okkar stóðu í mörg ár.

Einginkona hans, Inga, var jafn indæl, en ástin sem þau sýndu syni sínum Yu-Hin var ólýsanleg. Yu-Hin er elskulegur maður, góður og hamingjusamur. Þau hafa ferðast mjög mikið með honum, sérstaklega til að heimsækja listasöfn en það er megináhugamál Yu-Hin.

Minningarathöfn um hjónin Ingu og Joe-Hin sem var haldin hinn 2. september síðastliðinn var falleg stund um minningar, kærleika, vináttu og lífið. Ég þakka þeim innilega fyrir allt sem ég hef lært og upplifað með þeim. Við hjónin hugsum vel til Yu-Hin. Megi gæfa fylgja honum alla ævi.

Kesara Anamthawat-Jónsson.

Aðgangsupplýsingar

Notandi:Þú ert ekki innskráð(ur).
Greinin: Þessi grein er ókeypis þar sem hún er eldri en þriggja ára.
Morgunblaðið - fyrsta forsíðan

Morgunblaðið hjá Landsbókasafni

Á vefnum timarit.is er að finna stafrænt safn Landsbókasafns yfir helstu dagblöð og tímarit landsins. Þetta er eina leiðin til að leita að efni úr Morgunblaðinu frá því fyrir 1986.