Sylviane á góðri stund með einum af skjólstæðingum sínum, Ásgeiri Þór. Á borðinu er sýnishorn af þeim vörum sem verða í boði á jólasölunni 1. des.
Sylviane á góðri stund með einum af skjólstæðingum sínum, Ásgeiri Þór. Á borðinu er sýnishorn af þeim vörum sem verða í boði á jólasölunni 1. des. — Morgunblaðið/Ómar
"Ég reyni að vera sveigjanleg og ég bíð eftir að skjólstæðingar mínir treysti mér, læt þá vita að ég sé til staðar og tek þeim fagnandi þegar þeir eru reiðubúnir og hafa valið mig til samstarfs.

"Ég reyni að vera sveigjanleg og ég bíð eftir að skjólstæðingar mínir treysti mér, læt þá vita að ég sé til staðar og tek þeim fagnandi þegar þeir eru reiðubúnir og hafa valið mig til samstarfs. Það getur vissulega tekið langan tíma, en það tekst yfirleitt að lokum," segir Sylviane Pétursson, iðjuþjálfi á geðdeild Landspítalans. Starf hennar felst í því að koma fólki aftur út í þjóðfélagið eftir veikindi. "Ég met með hverjum og einum hvað hann getur gert og hvað hann getur ekki gert. Við setjum okkur markmið og ég hjálpa viðkomandi að efla sjálfstraust og öryggi til að geta gert það að raunveruleika sem hann langar til að gera. Sjálfstraust eflist nefnilega ekki við það að sitja heima og bíða eftir bata. Það þarf að gera eitthvað. Og þó lyf geti vissulega hjálpað, þá gerist ekkert ef fólk trúir ekki á sjálft sig."

Ekki setja fólk í hólf eða flokk

Sylviane segir að hlutverk iðjuþjálfa á geðdeild sé m.a. að styðja fólk í því að uppgötva sjálft sig á ný eftir erfið veikindi, hjálpa þeim að klifra "upp úr kjallaranum" og smám saman að komast hærra, þar til viðkomandi treystir sér aftur út í lífið og getur þá gert það sem hugurinn stendur til, hvort sem það er að vinna eða vera í skóla. "Alla þá, sem ég hef unnið með, dreymir um að vera í skóla eða að fara að vinna. Enginn hefur sett sér það markmið að vera öryrki," fullyrðir Sylviane eftir tuttugu og fjögur ár í þessu starfi.

"Á þessum tíma hefur mismunandi hugmyndafræði verið ríkjandi. En mér finnst alltaf gleymast að einstaklingur er ekki sjúkdómur. Einstaklingar eru ólíkir með mismunandi þarfir og persónuleika.

Það á ekki að setja fólk í hólf eða flokk, vegna þess að sumir passa alls ekki í neitt hólf. Skoða þarf hvern einstakling út frá honum sjálfum og haga meðferðinni eftir því. Ég vil að við sem störfum hér á geðsviðinu aðlögumst hverjum sjúklingi fyrir sig."

Eigum aldrei að gefast upp

Sylviane segist meðal annars hafa lært það á löngum starfsferli sínum, hversu áríðandi er að vera þolinmóður þegar kemur að því að aðstoða fólk. "Sjúklingarnir þurfa að vera þolinmóðir og starfsfólk þarf líka að vera það. Við eigum ekki að gefast upp eftir nokkra mánuði þó lítill árangur sjáist. Við verðum að vera tilbúin þegar viðkomandi treystir okkur. Við megum aldrei gefa þau skilaboð að einhver sé vonlaus þó að hann sé erfiður í samskiptum eða hegðun. Þannig rænum við fólki voninni. Gagnvart sumum sjúkdómsgreiningum eins og geðklofagreiningu, fylgir oft vonleysi og neikvæðni, en staðreyndin er sú að meira en helmingur þeirra lifir ósköp venjulegu lífi. Oft er eitthvað annað en sjúkdómurinn sem kemur í veg fyrir að fólk geti lifað eðlilegu lífi, til dæmis fordómar, neysla vímuefna, lítill félagslegur stuðningur eða fjárhagsvandræði."

Jólasala til að styrkja fólk til náms

"Allir eiga von um bata. Árangur af okkar starfi er ekki alltaf sá að fólk komist út á vinnumarkaðinn aftur. Hann felst líka í betri líðan og auknum lífsgæðum. Fleiri úrræði úti í bæ gefa einstaklingum sem ná ekki sínu markmiði í endurhæfingu, val um að stunda iðju eða félagsskap til að viðhalda þeim árangri sem hefur náðst. Aðstoð í nærumhverfi er það sem koma skal í framtíðinni. Hér í iðjuþjálfun er boðið upp á starfsendurhæfingu þar sem fólk tekst á við verkefni eins og á venjulegum vinnustöðum. Framleitt er allskyns handverk sem selt er tvisvar sinnum á ári og jólasalan núna er 1. desember. Allur ágóðinn af jólasölunni er notaður til að styrkja skjólstæðinga til náms, hvort sem það er háskólanám eða iðnnám. Einnig eru peningarnir notaðir til að styrkja félagslega þátttöku og gera fólki kleift að komast á hin ýmsu námskeið," segir Sylviane að lokum.

Jólasala í anddyrinu á geðdeild Landspítalans við Hringbraut 1. des. kl. 12-15.30.