Guðni Th. Jóhannesson
Guðni Th. Jóhannesson
Guðni Th. Jóhannesson: Stjórnarmyndanir, stjórnarslit og staða forseta Íslands í embættistíð Kristjáns Eldjárn, 1968-1980. 383 bls., myndir. Mál og menning, Reykjavík 200

SÖGU mannkyns og þjóða hefur löngum verið skipt í lengri og skemmri tímabil. Saga síðustu ára og áratuga er gjarnan nefnd samtímasaga, en ekki eru allir á einu máli um hvenær telja beri að það skeið hefjist, sem þannig er nefnt, og enn síður hvenær því ljúki. Í huga margra getur það tímabil vart talist saga sem þeir sjálfir hafa lifað, en aðrir halda því fram, að öll liðin tíð sé saga, jafnvel atburðir gærdagsins. Fræðimenn munu flestir vilja fara bil beggja í þessu efni og líta svo á, að nýlegir atburðir geti talist fullgilt rannsóknarefni þegar "hæfilegur tími sé liðinn frá því að þeir áttu sér stað, þegar fjarlægð þeirra sé orðin það mikil að skoða megi þá frá sögulegu sjónarhorni, eins og stundum er sagt, beita megi hefðbundnum og viðurkenndum fræðilegum aðferðum við rannsóknina og heimildir séu aðgengilegar.

Bókin sem hér er til umfjöllunar er tvímælalaust samtímasaga og uppfyllir öll áðurnefnd skilyrði. Meginefni hennar fjallar um forsetatíð dr. Kristjáns Eldjárn, 1968-1980, og þó öðru fremur um afskipti hans af stjórnarmyndunum á þessum tíma. Tímabilið, sem hér um ræðir var afar viðburðaríkt og sviptingasamt í íslenskum stjórnmálum og Kristján Eldjárn þurfti oft að hafa afskipti af myndun ríkisstjórna. Í fyrstu tvö skiptin, 1971 og 1974, má segja að hlutirnir hafi gengið næsta greitt og eðlilega fyrir sig og reyndar voru stjórnarslitin vorið 1974 og þingrofið, sem fylgdi í kjölfar þeirra, mun sögulegri atburðir en stjórnarmyndunin síðar um sumarið. Eftir kosningarnar vorið 1978 komst hins vegar allt í uppnám og í reynd ríkti nær samfelld stjórnarkreppa allt þar til dr. Gunnar Thoroddsen myndaði ríkisstjórn með sögulegum hætti í ársbyrjun 1980. Þær tvær ríkisstjórnir sem sátu að völdum á þessum tíma voru báðar máttlitlar Hin fyrri var að vísu meirihlutastjórn en smíðaði fátt annað en axarsköft og verður að líkindum lengst minnst fyrir sundurlyndi og Ólafslögin illræmdu. Hin síðari var minnihlutastjórn og fékk engu áorkað, enda vart til þess ætlast.

Þessi bók er ekki stjórnmálasaga Íslands á árunum 1968-1980, þaðan af síður saga forsetaembættisins á þeim árum eða forsetans Kristjáns Eldjárn. Efni hennar er takmarkað við stjórnarmyndanir og stjórnarslit og stöðu forsetans gagnvart stjórnmálaflokkum og stjórnmálamönnum, ekki fólkinu í landinu, þegar til þess kom að mynda þyrfti nýja ríkisstjórn. Þessi afmörkun efnisins og aðferðafræði höfundar er snjöll og að minni hyggju er bókin eitt athyglisverðasta sagnfræðirit sem út hefur komið hér á landi hin síðari ár. Forsetinn, dr. Kristján Eldjárn, er ætíð miðpunktur sögunnar, ásinn sem allt snýst um, og með því að segja söguna af sjónarhóli hans og flétta saman við frásagnir stjórnmálamanna er við sögu komu, blaðafregnir og fleiri heimildir tekst höfundi að varpa skýru ljósi á atburðarásina. Hann segir einnig skemmtilega frá svo úr verður einkar læsileg og á köflum bráðspennandi saga. Leikendurnir á sviðinu standa lesandanum ljóslifandi fyrir hugskotssjónum, hann nær að átta sig á kostum þeirra og göllum og þeir lesendur sem ekki muna þessa tíma fá glögga mynd af þeim stjórnmálaforingjum sem hæst bar, djúphyggju Ólafs Jóhannessonar, drengskap og heiðarleika Geirs Hallgrímssonar, klókindum Gunnars Thoroddsen.

Á miðju sviðinu stendur forsetinn, Kristján Eldjárn. Eins og Guðni bendir réttilega á hefur sú skoðun lengi legið í landi, að hann hafi haft öðrum forsetum minni afskipti af stjórnmálum. Sú skoðun á greinilega ekki við rök að styðjast. Ólíkt forverum sínum í embætti blandaði Kristján sér að sönnu aldrei í erjur stjórnmálamanna, studdi aldrei einn flokk eða stjórnmálamann gegn öðrum, reyndi aldrei að hlutast til um það hvers konar ríkisstjórn yrði mynduð og gætti jafnan hlutleysis í hvívetna. Embættis síns vegna komst hann hins vegar ekki hjá því að skipta sér af stjórnarmyndunum, veita flokksforingjum umboð til að stýra þeim, ræða stöðu mála við þá. Þar hlaut hann að hafa nokkur áhrif á gang mála og vafalaust hefur hann á stundum sagt stjórnmálamönnum skoðun sína þótt ekki færi það hátt.

Myndin sem hér er dregin upp af forsetanum Kristjáni Eldjárn er að ýmsu leyti önnur en sú sem áður hefur blasað við. Okkur hefur alltof lengi hætt til að líta á hann sem hinn samviskusama embættismann, sem hélt sig utan við dægurþras, hafði helst áhuga á íslenskri menningu, minjum og sögu og var að líkindum ástsælasti forseti sem hér hefur setið. Þessi mynd var vissulega rétt, en hér eru dregnir fleiri drættir og Kristján birtist lesendum sem öflugur og ákveðinn þjóðhöfðingi. Hann átti sér góða og trausta ráðgjafa og hikaði ekki við að taka sjálfstæðar ákvarðanir um stjórnarmyndanir þegar allt virtist komið í hnút. Þar ber helst að nefna að tvívegis var hann kominn á fremsta hlunn með að skipa utanþingsstjórn og í annað skiptið munaði ekki nema hársbreidd að hann gerði það.

Hin nýju viðhorf sem fram koma í þessari bók byggjast öðru fremur á heimildum úr fórum Kristjáns Eldjárn, dagbókum, segulbandsspólum o.fl. Þessar heimildir hafa ekki verið notaðar af fræðimönnum áður en eru afar mikilsverðar. Með þeim kemst bókarhöfundur nær forsetanum og gangi viðburða en ella og getur þess vegna sagt söguna með þeim hætti sem hann gerir. Þá hlýtur sú spurning að vakna hvort hliðstæð gögn séu varðveitt úr fórum þeirra stjórnmálamanna sem hér koma helst við sögu. Myndin sem þau kynnu að sýna væri afar forvitnileg.

Jón Þ. Þór