SVEINN Guðmundsson, fyrrverandi bóndi og kennari, á Miðhúsum í Reykhólasveit lést í gær, 82 ára að aldri. Hann var fréttaritari Morgunblaðsins í Reykhólasveit um áratuga skeið. Sveinn var fæddur 2.

SVEINN Guðmundsson, fyrrverandi bóndi og kennari, á Miðhúsum í Reykhólasveit lést í gær, 82 ára að aldri. Hann var fréttaritari Morgunblaðsins í Reykhólasveit um áratuga skeið.

Sveinn var fæddur 2. júlí 1923 á Kirkjubóli í Norðfirði, sonur hjónanna Guðmundar Sveinssonar bónda og Guðbjargar Stefaníu Jónsdóttur. Sveinn stundaði nám við Eiðaskóla og var búfræðingur frá Bændaskólanum á Hvanneyri og búfræðikandídat frá Hvanneyri 1954. Hann stundaði síðar nám við Kennaraháskóla Íslands.

Sveinn stundaði barnakennslu og verslunarstörf um árabil og var um tíma nautgriparáðunautur hjá Búnaðarsambandi Borgarfjarðar. Hann var bóndi og jafnframt kennari á Miðhúsum í Reykhólasveit frá árinu 1955. Hann hætti kennslu fyrir aldurs sakir árið 1993 og lét af búskap 1995. Þau hjónin bjuggu áfram á Miðhúsum um skeið en fluttu til Reykjavíkur fyrir fáeinum árum.

Sveinn tók virkan þátt í félagsmálum og vann ýmis trúnaðarstörf fyrir sveit sína og í félagasamtökum bænda.

Eftirlifandi eiginkona Sveins er Ólína Kristín Jónsdóttir kirkjuorganisti frá Miðhúsum. Þau eignuðust fimm börn.

Sveinn Guðmundsson gerðist fréttaritari Morgunblaðsins á árinu 1955 og sinnti því starfi alla tíð, á meðan hann bjó í Reykhólasveit. Hann var heiðursfélagi Okkar manna, félags fréttaritara Morgunblaðsins. Á kveðjustund þakkar Morgunblaðið Sveini fyrir vel unnin störf og sendir aðstandendum hans innilegar samúðarkveðjur.