Finnur Eiríksson
Finnur Eiríksson
Finnur Eiríksson fjallar um flutning Hjörleifs Valssonar og Íslensku kammersveitarinnar á tónleikum í Grafarvogskirkju: "Þó að undirritaður sé ekki tónlistargagnrýnandi vil ég leyfa mér að slá því föstu að tónleikarnir hafi verið vel heppnaðir og afar ánægjuleg upplifun fyrir leika sem lærða."

Vorið er komið fögnuð sinn að færa,

fuglarnir kátir syngja af öllum mætti

og Vestanvindur örum andardrætti

eykur og fjörgar lækjaniðinn kæra.

Að þessum orðum slepptum hófst flutningur Hjörleifs Valssonar og Íslensku kammersveitarinnar á Árstíðunum eftir Antonio Vivaldi, í Grafarvogskirkju miðvikudaginn 30. nóvember. Að fara á klassíska tónleika hefur hingað til ekki verið ofarlega á forgangslistanum mínum, að örfáum Sinfóníutónleikum undanskildum, en þar sem tónleikarnir voru haldnir til styrktar Barna- og unglingageðdeild LSH var ærin ástæða til að mæta og styrkja gott málefni. Þó að undirritaður sé ekki tónlistargagnrýnandi, vil ég leyfa mér að slá því föstu að tónleikarnir hafi verið vel heppnaðir og afar ánægjuleg upplifun fyrir leika sem lærða.

Fjármögnunarfyrirtækið Lýsing, sem kostaði tónleikana, hafði fengið Þórarinn Hjartarson, sagnfræðing og ljóðaþýðanda, til þess að þýða sonnettur Vivaldi yfir á íslensku. Fyrir flutning hverrar árstíðar las Pálmi Gestsson leikari þá sonnettu sem átti við og með því að hafa þennan háttinn á voru Árstíðirnar færðar nær áheyrendum. Við leik Vorsins fór ekki á milli mála þegar þrumugnýrinn fyllti Grafarvogskirkju, en lauk síðan stuttu seinna og við tók fuglasöngur sem fiðlur og víólur kepptust við að túlka.

Himininn kveikir - skrýddur skýjum dökkum -

skruggur og eldgang, vorið til að hylla.

Endar það skjótt, þá aftur loftið fylla

unaðarsöngvar fuglarómi klökkum.

Pálmi Gestsson færði áhorfendur enn fjær skammdeginu eftir flutning Vorsins þegar hann tók við af Hjörleifi og félögum og las sonnettuna um sumarið, færandi sumaryl og hlýju; vestanvindurinn lék við okkur sem sátum fyrir miðja kirkjuna:

Steikjandi sól og þurrkar landið þjaka

þorsti og drungi menn og hjarðir kvelur

djúpt inn í myrkum skógi gaukur gelur,

gullfinkur þá og dúfur undir taka.

Vestlægur vindur blæs nú blítt en síðan

bróðir hans Norðri kemur fullur þótta

kvíðir því hjarðsveinn andvarpandi af ótta

aleinn að kljást við regn og vindinn stríðan.

Veiði og glamrandi tennur

Haustið byrjaði á hressandi samleik fiðla og víóla, eftir þrumuveður sumarsins. Eftir glaðlega tóna sem túlkuðu fyrstu daga haustsins þögnuðu fiðlurnar, ein af annarri. Þær fóru síðan rólega af stað aftur, ögn sorgmæddar, ekki ósvipað því að þær væru að kveinka sér undan hinum kalda andvara sem lýst er í sonnettunni um haustið. En sorgin vék þó fljótlega aftur fyrir gleðinni og endurtekningu á glaðlegum samleik sem fylgdi í kjölfarið.

Það kom mér á óvart hversu vel hljómsveitinni tókst að túlka veðraskiptingar. Þess má geta að hin íslenska þýðing sonnettanna og upplestur þeirra, á undan hverri árstíð fyrir sig, hafi auðveldað skilning áheyrenda á því hverju tónaflóðinu var ætlað að lýsa. Uppskeruhátíð bænda, dans, kuldatrekkur og skotveiðimenn birtust manni ljóslifandi í tónlistinni.

Bændur að hausti byrja dans og gleði,

byrgir af forða víst þeir fagna mega,

fjörgaðir dátt af gjöfum guðaveiga,

grasið þá oft vill verða að hægum beði.

Andar nú svalur, ofurlítill kaldi.

Árstíðin þessi, sú hin himinsenda

fyllir oss værð svo fjör og dans má enda,

freistar æ meir að lúta svefnsins valdi.

Setið við arin

Þegar Pálmi hóf upp raust sína í síðasta sinn, til þess að lesa Vetrarsonnettuna, var ekki laust við að kaldur aðventuvindur utan við Guðshúsið í Grafarvoginum hafi aukið á upplifunina. Hljóðfæraleikurinn skildi ekki eftir mikið pláss fyrir ímyndunaraflið þegar lagið hófst á sínum ljúfu tónum. Þessir ljúfu tónar stóðu lengi yfir - líkt og Vivaldi hafi ætlað áheyrendum tónverksins að skilja að engin árstíð varir jafnlengi.

Að blása í kaun í kalsa íss og fanna

kveljur að súpa í norðanbáli hörðu

hlaupa og fótum hart að stappa´ í jörðu

hlusta á marr í snjó og glamur tanna.

sitja við arin inni í hlýjum krika

úti þó slyddu og regni niður helli

fikra sig hægum fetum úti á svelli

fara með gát af ótta við að skrika.

Þrátt fyrir að kallast nýgræðingur í túlkun tónverka tel ég að flutningur Hjörleifs og hljómsveitar hafi verið það góður að hann sendi hugann hálfa leið inn í ítalskt vor, sumar, haust og vetur - upplesturinn á sonnettunum kom manni svo endanlega á áfangastað. Undir það tóku aðrir tónleikagestir þegar þeir blönduðu dynjandi lófaklappi við síðustu tóna strengjahljóðfæranna. Lófaklappið var síðan rofið með trumbuslætti aftan úr sal. Kúabjöllur, bongótrommur, harmonikkur og kontrabassi? Það kom heldur betur á óvart þegar niður kirkjuganginn gekk trommuleikari með bongótrommur í fanginu og kúabjöllur á hvorum fæti og tveir harmonikkuleikarar og bassaleikari fylgdu fast á hæla hans. Hjörleifur Valsson og félagar tóku undir með þessum óvæntu gestum. Óhætt er að segja að gestir tónleikanna voru eins og spurningamerki í framan. Þarna var þó ekki um framhald á Árstíðum Vivaldi, heldur verið að taka aukalög ættuð frá Austur-Evrópu. Ótrúlega skemmtileg uppákoma sem kórónaði annars mjög skemmtilega tónleika - tónleika sem munu seint líða mér úr minni!

Jólakveðjur.

Höfundur er hugbúnaðarsérfræðingur.