— Morgunblaðið/Sigríður Víðis
Eftir Sigríði Víðis Jónsdóttur í Suður-Súdan sigridurv@mbl.is EFTIR undirritun friðarsamninga í Suður-Súdan snýr ekki einungis flóttafólk heim heldur einnig flóttakýr. Hundruð þúsund nautgripa streyma þessa dagana í gegnum höfuðstað Suður-Súdan, Juba.
Eftir Sigríði Víðis Jónsdóttur í Suður-Súdan sigridurv@mbl.is

EFTIR undirritun friðarsamninga í Suður-Súdan snýr ekki einungis flóttafólk heim heldur einnig flóttakýr. Hundruð þúsund nautgripa streyma þessa dagana í gegnum höfuðstað Suður-Súdan, Juba. Þeir eru á heimleið eftir borgarastyrjöldina ásamt eigendum sínum. Kýrnar ganga í gegnum bæinn og yfir brúna sem þar er yfir ána Níl. Þúsundir hafa þegar farið yfir ána en heildarfjöldinn er talinn munu verða á bilinu ein til ein og hálf milljón.

"För kúnna er merki um frið," segir Mary Laku, súdanskur starfsmaður Matvælaaðstoðar Sameinuðu þjóðanna. Sameinuðu þjóðirnar aðstoða börn, aldraða, sjúka og aðra sem eru í hópnum og eiga erfitt með að ganga á áfangastað.

Mikill fjöldi jarðsprengna er í Suður-Súdan. Leiðin sem kýrnar og eigendurnir fara norður eftir til bæjarins Bor er varasöm og hefur ekki enn verið sprengjuhreinsuð. Slíkt tekur afar langan tíma. Búist er við að hluti hjarðarinnar muni springa í loft upp við að stíga á jarðsprengjur. Bjartsýnismenn í Suður-Súdan benda á að eftir för meira en milljón nautgripa yfir svæðið muni það vera vel sprengjuhreinsað og því öruggt yfirferðar í framtíðinni.