Orri Harðarson hefur sent frá sér hljómplötuna "Trú". Orri syngur og spilar á gítar, píanó o.fl. en með honum leika m.a. þau Pálmi Gunnarsson (bassi), Halldór G.

Orri Harðarson hefur sent frá sér hljómplötuna "Trú". Orri syngur og spilar á gítar, píanó o.fl. en með honum leika m.a. þau Pálmi Gunnarsson (bassi), Halldór G. Hauksson (trommur), Marc Breitfelder (munnharpa), Arnbjörg Hlíf Valsdóttir (söngur/raddir), Jón Kjartan Ingólfsson (raddir), Agnar Már Magnússon (rhodes) og fleiri, auk þess sem KK leggur Orra lið í einu lagi. Lög og textar eru eftir Orra, sem jafnframt sá um hljóðritun og -blöndun, tónjöfnun og stýrði upptökum. Útgefandi er Orri Harðarson.

Það er engum ofsögum sagt að Orri Harðarson sé, líkt og Toyotan, tákn um gæði. Hann er lúnkinn lagasmiður, með næmt eyra fyrir ljúfsárum laglínum og afbragðs textahöfundur. Hann er söngvaskáld af Guðs náð. Orri er jafnframt einn allra færasti upptökustjórinn hér um slóðir, en hann hefur unnið með fjölda tónlistarmanna sem slíkur, og vinnubrögð hans alltaf fyrsta flokks. Hann hefur reyndar sagt að sér finnist skemmtilegra að vinna með öðrum en taka upp eigin tónlist. Það skýrir kannski að hluta það að hann hefur aðeins sent frá sér þrjár plötur síðustu 12 árin, þar til nú nýverið er fjórða platan, "Trú", leit dagsins ljós.

Á þessari plötu er Orri bæði einlægur og opinskár sem fyrr, en þó kveður við svolítið nýjan tón. Á fyrri plötum hefur verið frekar tregakenndur undirtónn, létt melankólía ef svo má segja. Hér ríkir hins vegar eintóm gleði, Orri er hér hreinlega að rifna úr hamingju, en ástin hefur tekið völdin og það er líkt og gagnger hugarfarsbreyting hafi átt sér stað sbr. "það er kannski ég / sem orðin er nýr" og "ég sem áður fór vegavillt / vakin var til lífsins aftur". Hugsanlega vísar titill plötunnar í texta lagsins "Biðin eftir þér" þar sem segir "á kærleikann hef nú tekið trú", en kærleikurinn er eiginlega meginstef plötunnar. Orri kemur þessu ótrúlega vel til skila, einlæglega og án allra predikana og kjánalegheita, einfaldlega frá hjartanu, hann sýnir að ekki þarf endilega að vera bullandi dramatík í gangi til að semja góða tónlist.

Platan hefst á hinu glæsilega "Ástarljóð", sem er svona dæmigert Orra Harðar lag, með einkar smekklegu munnhörpuspili. Í "Listin að lifa" hefur Orri fengið meistara KK til liðs við sig, sem setur heldur betur sinn stimpil á lagið og úr verður gríðargóður kántrýskotin KK/Orra kokteill, en lagið er stórskemmtilegt, taktur þess er þannig að erfitt reynist, í það minnsta að stappa ekki létt niður fæti. Glæsilegur gítarleikur Kristjáns Edelstein sýnir hér svo um munar hvers hann er megnugur. Þetta lag gerir reyndar ansi mikið fyrir heildarmynd plötunnar, sem væri kannski svolítið einsleit án þess, því hér er eilítið önnur stemming en í hinum lögunum. Munnhörpuleikur á plötunni er mjög eftirtektarverður, þó hvergi sem í laginu "Atlot" þar sem Marc Breitfelder fer algjörlega á kostum. "Ástartangóinn" er mjög vel heppnað lag, eilítið Mannakornslegt en ekki verra fyrir það. Eitt af betri lögum plötunnar er tvímælalaust hið blúsaða "Ég og þú", með skemmtilegum trompetleik Alo Jarving og er ekki laust við að andi Chet Baker svífi yfir vötnum í þessu lagi. Lokalagið "Ást sem aldrei deyr" er sérlega hugljúft þar sem næmni Orra fyrir melódíunni skín í gegn.

Hljóðfæraleikur á plötunni er allur með miklum ágætum, og er sérlega gaman að heyra Pálma Gunnarsson plokka bassann, nokkuð sem heyrist alltof sjaldan. Öll vinnsla plötunnar, hljómburður og útsetningar eru til fyrirmyndar líkt og er Orra von og vísa, enda maðurinn sá óumdeildur snillingur þegar kemur að slíku.

Þó lagasmíðar þessar séu kannski ekki þær frumlegustu sem þrykkt hefur verið á plast skal virða það sem vel er gert. Þetta er vel unnin og vönduð plata, persónuleg og einlæg, þar sem tilfinningin ræður sannarlega för. Fyrir slíku tekur maður ofan.

Grétar M. Hreggviðsson