Margir lögðu leið sína í Kringluna í gær.
Margir lögðu leið sína í Kringluna í gær. — Morgunblaðið/Sverrir
Eftir Elvu Björk Sverrisdóttur elva@mbl.is JÓLAVERSLUNIN í ár fór vel af stað að sögn kaupmanna og jafnvel fyrr en á síðasta ári. Margt var um manninn í helstu verslunarkjörnum um helgina.
Eftir Elvu Björk Sverrisdóttur elva@mbl.is

JÓLAVERSLUNIN í ár fór vel af stað að sögn kaupmanna og jafnvel fyrr en á síðasta ári. Margt var um manninn í helstu verslunarkjörnum um helgina.

Svava Johansen, eigandi NTC, sem rekur verslanir í Kringlunni, á Laugavegi og í Smáralind, segir að í ár fari verslunin jafnvel fyrr af stað en í fyrra. "Verslunin er mjög góð í ár og mun betri en í fyrra sem var þó eitt af bestu árunum," segir Svava. Hún segir að jólaverslunin hafi byrjað af alvöru um síðustu helgi, en þá hafi nýtt kortatímabil hafist. Verslunin hafi svo verið á fullum skriði frá því á fimmtudag.

"Það hefur verið mikið að gera um helgina og verslunin góð á öllum markaðssvæðunum, í Kringlunni, Smáralind og á Laugavegi," segir Svava. "Ég finn mikinn uppgang í verslun í Smáralind og það sama má reyndar segja um Kringluna, en þar er mjög mikil aukning. Það er líka meiri verslun á Laugaveginum nú en í fyrra," segir Svava. "Við höfum verið heppin með veðrið þar," bætir hún við. Þá hafi nýtt bílastæðahús á Laugavegi, þar sem hægt er að leggja ókeypis til áramóta, haft sitt að segja.

Aðspurð segist Svava telja líklegt að almenningur eyði álíka háum fjárhæðum fyrir jólin í ár og í fyrra, en þá hafi orðið nokkur aukning milli ára.

Betri verslun í góðu veðri

Óskar Óskarsson, annar eigenda úra- og skartgripaverslunarinnar Jón og Óskar á Laugavegi, er bjartsýnn á jólaverslunina í ár. Útlit sé fyrir að hún verði mun meiri í ár en í fyrra.

Óskar segir verslunina á Laugaveginum betri þegar veður er hagstætt. "Svo erum við líka farin að klæða okkur eftir veðri, sem við gerðum ekki í mörg ár. Fólk skammast sín ekkert fyrir að vera hlýlega klætt," segir hann.

Spurður um hvort fólk eyði hærri fjárhæðum fyrir jólin nú en í fyrra segir Óskar að örlitla aukningu megi merkja í þeim vöruflokkum sem verslunin hafi á boðstólum.

Nái hámarki í kringum 15. desember

Jón Páll Grétarsson, eigandi íþróttavöruverslunarinnar Fjölsport í verslunarmiðstöðinni Firði í Hafnarfirði, segir að jólaverslunin sé hafin, en hún eigi enn eftir að ná hámarki. Búast megi við að það verði í kringum 15. desember líkt og verið hafi undanfarin 15-20 ár.

Hann kveðst áætla að almenningur muni eyða álíka háum fjárhæðum í jólainnkaupin í ár og í fyrra. "Miðað við það sem ég hef heyrt sýnist mér að á heildina verði verslunin í ár ekki ósvipuð og í fyrra."