Gunnar Örn Örlygsson
Gunnar Örn Örlygsson
Gunnar Örn Örlygsson fjallar um málefni aldraðra: "Það getur aldrei verið verjandi að 75-80% tekna komi til skerðingar vegna skatta og tekjutengingar á öllum umframtekjum eldri borgara."

Í RÆÐU minni um fjárlög á yfirstandandi þingi ræddi ég um tillögur er lúta að frekari sparnaði í ríkisrekstri. Ég tiltók m.a. fjölda ríkisstofnana sem án nokkurra vandkvæða má setja í einkarekstur. Ég vil að tekið verði hressilega til í stjórnsýslunni. Um mögulegan einkarekstur vil ég nefna til sögunnar ríkisstofnanir sem annast ýmiss konar mælingar, matvælarannsóknir, hafrannsóknir, sjúkraflutninga, tölvudeildir ríkisstofnanna, eftirlit af ýmsu tagi, gerð námsgagna og margt fleira. Í þessum áherslum ber ég fyrir mig ósanngjarna samkeppni ríkisstofnana við einkafyrirtæki á mörgum sviðum sem og þá staðreynd að rekstur einkafyrirtækja getur án efa verið ríkinu hagstæður án þess að bitni á gæðum þjónustunnar sem þau veita.

Vandinn er tvíþættur

Í hinum hluta ræðunnar ræddi ég um mikilvægi þess að gripið verði til róttækra aðgerða í málefnum eldri borgara. Í þeim efnum er vandinn aðallega tvíþættur. Í fyrsta lagi er um að ræða áhrif skatta og tekjutengingar á laun og lífeyrissjóðstekjur. Í annan stað er um að ræða mjög erfiða stöðu á höfuðborgarsvæðinu þegar kemur að vistunarmálum og biðlistum á hjúkrunarheimili en vandinn er staðbundinn og virðist fyrst og síðast eiga við höfuðborgarsvæðið og allra nálægustu byggðir svo sem á Reykjanesi. Hér er að mínu viti um að ræða eitt allra brýnasta viðfangsefni sem stjórnvöld þurfa að bregðast við og það með skjótum hætti. Eitt ár er dýrmætur tími fyrir fullorðið fólk og það er skiljanlegt að því þyki erfitt að hlusta á lausnir sem eiga að skila sér til þeirra eftir tvö ár, þrjú ár eða lengri tíma.

Vandi kallar á lausnir

Það getur aldrei verið verjandi að 75-80% tekna komi til skerðingar vegna skatta og tekjutengingar á öllum umframtekjum eldri borgara. Það er heldur ekki verjandi að fjöldi eldri borgara fái ekki inni á hjúkrunarheimilum vegna biðlista sem myndast hafa í kerfinu. En að sama skapi verður öllum að vera ljóst að eldri borgurum fer fjölgandi og lífaldur Íslendinga fer hækkandi. Sjálfur man ég eftir því að gamall afi minn fékk inni á heimili foreldra minna þegar heilsu hans hrakaði. Ekki beið hans vistvæn aðstaða á nútímaheimili til hjúkrunar og aðhlynningar á þessum tíma og ekki var umræðan á þeim tíma eins áberandi um stöðu eldri borgara og þekkist í dag. Staðreyndin er sú að Ísland er nýrík þjóð sem hugsanlega skýrir þá brotalöm sem er að finna í málaflokknum. Það breytir þó ekki því, að eitt allra brýnasta viðfangsefni ríkisstjórnarinnar er að mæta þeirri gagnrýni og þeim ábendingum sem komið hafa fram að undanförnu í málaflokknum.

Breytum til hins betra

Á síðasta landsfundi Sjálfstæðisflokksins voru fjölmargar ályktanir um málefni eldri borgara samþykktar. T.a.m. samþykkti landsfundurinn að afnema skuli tekjutengingu á grunnlífeyri, skerðingarhlutföll tekjutryggingarauka verði lækkuð í áföngum úr núverandi 45% og að lokum afnumin. Frítekjumörk vegna tekjutryggingar og heimilisuppbótar verði endurskoðuð til hækkunar. Landsfundurinn samþykkti einnig að tryggt verði nægt framboð húsnæðis, hjúkrunaríbúða, dagvistunar- og hjúkrunarrýmis fyrir aldraða. Neyðarástand er hjá mörgum öldruðum vegna skorts á leiguhúsnæði og vistunarrými á hjúkrunarheimilum. Landsfundurinn samþykkti að stórátak verði gert til úrbóta. Laga þarf lausnina að einstaklingnum en ekki einstaklinginn að lausninni. Leita skal leiða til að fjármagna framkvæmdir á þessum nauðsynlega þjónustuþætti. Landsfundurinn samþykkti að heimaþjónusta við aldraða verði efld verulega frá því sem nú er, með það að markmiði að aldraðir geti búið sem lengst á eigin heimilum. Landsfundur samþykkti einnig að hjón/sambýlisfólk njóti fullra lífeyrisgreiðslna almannatrygginga án tillits til tekna maka. Það síðastnefnda er að mínu mati grundvallaratriði með tilliti til mannréttinda.

Mínar væntingar og kröfur

Ég vænti þess að sjá róttækar aðgerðir í málaflokknum á næstu misserum. Ég krefst þess af forystu Sjálfstæðisflokksins að samþykktir frá landsfundi flokksins verði virtar með markvissum aðgerðum. Mín lokaorð verða þau skilaboð til ríkisstjórnarinnar að brýnna úrbóta er þörf í málefnum eldri borgara. Núverandi ríkisstjórn getur verið sú fyrsta í sögu þjóðarinnar sem tryggir fullorðnu og stoltu fólki í samfélaginu viðunandi lífsskilyrði, betri en áður hefur þekkst. Þannig getur ríkisstjórnin sýnt þakklæti til þeirra sem skilað hafa bændasamfélaginu Íslandi í stöðu einnar ríkustu þjóðar veraldar á umliðnum áratugum. Ríkissjóður hefur aldrei staðið betur - nú er lag!

Þakka þeim sem lásu.

Höfundur er alþingismaður í þingflokki Sjálfstæðisflokksins.