"VIÐ töpuðum þessu fyrst og fremst með mjög slæmri byrjun, þar sem vörnin var slök og við lentum meðal annars 8:2 undir fljótlega," sagði Reynir Stefánsson, þjálfari handknattleiksliðs KA, sem í gær lauk þátttöku í Áskorendakeppni Evrópu að loknu níu marka tapi, 30:21, fyrir Steaua í Búkarest. KA vann fyrri leikinn á heimavelli aðeins með einu marki og tapaði því samtals með átta marka mun.
Eftir þessa slæmu byrjun vorum við alltaf á eftir, vorum fjórum mörkum undir í hálfleik, 13:9. Við urðum eftir þriggja mínútna leik þegar Goran Gusic meiddist og lék ekki meira með. Hann er eina örvhenta skytta liðsins og hefur auk þess mikla reynslu. Það var því mjög slæmt fyrir okkur að missa hann.
Í síðari hálfleik náðum við að minnka muninn í tvö mörk, 19:17, og áttum möguleika á að fara niður í eitt mark en þess í stað fengu leikmenn Steaua hraðaupphlaup og munurinn jókst á ný," segir Reynir.
"Þegar þrettán mínútur voru eftir, í stöðunni 20:17, var Jónatan Magnússon rekinn af leikvelli í þriðja sinn. Það var skarð fyrir skildi. Undir lokin reyndum við aðeins að leysa leikinn upp, taka áhættu til þess að vinna muninn upp. Það tókst ekki og þar með munaði níu mörkum þegar upp var staðið, en úrslitin gefa engan hátt rétta mynd af þeim mun sem er á liðunum. Þeir voru logandi hræddir við okkur, ekki síst í síðari hálfleik þegar munurinn var kominn niður í tvö mörk, þá var Vasili Stinga, þjálfari Steaua, orðinn alveg vitlaus," segir Reynir.
"Við fórum með okkar möguleika á heimavelli þar sem við áttum að gera betur auk þess sem dómgæslan þá var afar óhægstæð. Í þessum leik í Búkarest var hins vegar um toppdómgæslu að ræða, við getum kennt henni um tapið að þessu sinni," segir Reynir. "Lið Steaua er ekkert betra en mitt."
Reynir segir að sá lærdómur sem hægt sé að draga af þátttökunni sé fyrst og fremst sá að KA eigi fullt erindi í Evrópukeppnina. "Þetta hefur verið gríðarlega mikilvægt fyrir liðið sem er ungt að árum. Leikirnir tveir við Steaua hafa verið alveg ómetanleg reynsla fyrir alla leikmenn liðsins. Fyrir utan hvað þetta hefur allt þjappað hópnum saman utan vallar sem innan. Ef einhver möguleiki verður á að taka þátt í Evrópukeppninni í framtíðinni eigum við að gera það þótt þátttakan sé reyndar alveg gríðarlega kostnaðarsöm.
Við förum sáttir frá þessari keppni en súrir yfir að vera fallnir út þar sem við vorum alls ekki með síðra lið þegar á hólminn var komið."