LEITARVEFURINN dohop.com er að stækka um þessar mundir. Gera á vefinn ítarlegri og hraðvirkari og bæta við einum 560 flugfélögum.

LEITARVEFURINN dohop.com er að stækka um þessar mundir. Gera á vefinn ítarlegri og hraðvirkari og bæta við einum 560 flugfélögum. Til þessa hefur verið hægt að leita að flugmiða á vefnum hjá 80 lágfargjaldafélögum en eftir breytingarnar hafa ferðalangar aðgang að 640 flugfélögum um allan heim í gegnum dohop.com. Leitarþjónustan er sem fyrr án endurgjalds en vefurinn selur ferðaþjónustufyrirtækjum auglýsingar.

Að sögn Frosta Sigurjónssonar, stofnanda og framkvæmdastjóra dohop.com, er þetta í fyrsta sinn sem fólk getur samtímis leitað hjá bæði lággjaldaflugfélögum og hefðbundnum flugfélögum til að finna bestu flugáætlun sína. Frosti segir nýja og endurbætta leitarvél skila niðurstöðum á innan við fimm sekúndum og verða ein stærsta og hraðvirkasta flugleitarvélin sem í boði er á markaðnum í dag.

Hægt er prófa nýju vélina á slóðinni http://labs.dohop.com.

Eins og fram kom í síðasta viðskiptablaði Morgunblaðsins fjallaði ferðavefur CNN um dohop.com og segir Frosti þá umfjöllun hafa verið gríðarlega mikilvæga. Síðan þá hafi heimsóknir á vefinn stöðugt verið fleiri.

Einnig hafi flugfélög og bílaleigufyrirtæki haft samband og sýnt áhuga á að auglýsa á vefnum.