ALAN Curbishley, knattspyrnustjóri Charlton, upplifði að sjá sitt lið leggja botnlið Sunderland að velli á laugardaginn, 2:0, en þetta var fyrsti sigurleikur Hermanns Hreiðarssonar og félaga í síðustu sjö leikjum, en liðið hafði tapað sex leikjum í röð...

ALAN Curbishley, knattspyrnustjóri Charlton, upplifði að sjá sitt lið leggja botnlið Sunderland að velli á laugardaginn, 2:0, en þetta var fyrsti sigurleikur Hermanns Hreiðarssonar og félaga í síðustu sjö leikjum, en liðið hafði tapað sex leikjum í röð fyrir leikinn á laugardag. Hermann var að venju í vörn Charlton.

Darren Bent og Darren Ambrose skoruðu mörk Charlton, en markvörður liðsins, Dean Kiely, stóð í ströngu í leiknum og bjargaði liðinu hvað eftir annað.

"Það er mikill léttir fyrir okkur að hafa sigrað, og sannarlega kominn tími til þess að snúa við blaðinu eftir slakt gengi undanfarnar vikur," sagði Curbishley eftir leikinn. "Við vorum tveimur mörkum yfir í byrjun síðari hálfleiks en þrátt fyrir það var ég ekki rólegur þar sem ég hef séð okkur gera mistök og tapa leikjum í þeirri stöðu. Þessi sigur var gríðarlega mikilvægur. Sunderland liðið gafst ekki upp þrátt fyrir að vera tveimur mörkum undir og við áttum í erfiðleikum með þá þegar líða fór á leikinn.

Útlitið er frekar dökkt hjá nýliðum Sunderland sem er langneðst í deildinn með aðeins 5 stig. Mick McCarthy, knattspyrnustjóri liðsins, hefur enn trú á sínum mönnum.

"Það er ekki óheppni sem er að elta okkur á röndum. Í okkar liði eru góðir leikmenn sem geta leikið vel í úrvalsdeildinn en sem lið erum við ekki að leika vel í vörninni. Síðara markið sem við fáum á okkur var fáránlegt, og röð mistaka átti sér stað. Það var næstum því hægt að hlæja að þessum mistökum. Við erum í vondri stöðu en við eigum enn möguleika," sagði McCarthy.