"VIÐ erum fyrst og fremst að óska eftir skýringum eftir hverju er farið þegar styrkveitingar eru ákveðnar.

"VIÐ erum fyrst og fremst að óska eftir skýringum eftir hverju er farið þegar styrkveitingar eru ákveðnar. Nú virðist vera ljóst að tekin hefur upp ný stefna þegar ÍSÍ ákveður að veðja á einn íþróttamann umfram annan," segir Sigurður Haraldsson, formaður frjálsíþróttadeildar FH, en í gær ritaði hann stjórn Íþrótta- og Ólympíusambands Íslands (ÍSÍ) bréf. Í bréfinu óskar hann eftir svörum við því hvað legið hafi til grundvallar þegar ákveðið var að veita Silju Úlfarsdóttir, hlaupakonu, C-styrk en Ásdísi Hjálmsdóttur, spjótkastara, A-styrk, frá og með 1. janúar, þegar litið er til þess að árangur þeirra sé "mjög sambærilegur" eins og segir í bréfinu.

C-styrkur nemur 480.000 krónum á ári en A-styrkur er fjórum sinnum hærri.

Í bréfinu segir ennfremur m.a. "Frjálsíþróttadeild FH telur að hér sé um að ræða gróflega mismunun til styrkþega. Óskar Frjálsíþróttadeild FH eftir því að þessi mistök verði leiðrétt hið fyrsta."

Máli sínu til stuðnings benda FH-ingar á að Ásdís sé á þessu ári í 6. sæti á afreksskrá Norðurlanda í spjótkasti á sama tíma og Silja sé í 2. sæti á sömu skrá í 400 m grindahlaupi. Þá sé Ásdís 41. sæti í á afreksskrá Evrópu og í 62. sæti heimsafrekalistans í spjótkasti en Silja sé í 36. og 67. sæti á Evrópu- og heimsafrekalistum í 400 m grindahlaupi.

"Þess vegna óskum við eftir að ÍSÍ geri grein fyrir hvað lagt var til grundvallar þegar ákveðið var að mismuna íþróttamönnum," sagði Sigurður í samtali við Morgunblaðið.

Hvort frjálsíþróttadeild FH og Silja hyggist grípa til einhverra ráðstafana verði ekki leiðrétting gerð sagði Sigurður að ekki væri tímabært að ræða það. "En það er ljóst að við styðjum okkar íþróttamann fullkomlega."