Þorgrímur Jón Einarsson fæddist í Reykjavík 12. janúar 1953. Hann varð bráðkvaddur á heimili sínu í Ugluhólum 12 í Reykjavík 17. nóvember síðastliðinn og var útför hans gerð frá Víðistaðakirkju í Hafnarfirði 28. nóvember.
Toggi frændi minn er fallinn í valinn langt um aldur fram.
Það er undarlegt til þess að hugsa, að aldrei framar muni hans mildi málrómur hljóma fyrir eyrum né brosið hans bjarta hlýja hjartarótum.
Og fá ekki lengur að njóta þeirrar innri hlýju, sem svo auðveldlega og eðlilega streymdi frá honum til þeirra sem voru honum kærir, kærleiksstraums sem gat bæði vermt og hughreyst.
Já, mikill er missirinn.
Þá er erfitt að sætta sig við þá staðreynd að með honum hverfa nýstárlegar hugmyndir og ógerð afreksverk sem hann hefði án efa unnið í fyllingu tímans.
Toggi frændi var einn af þeim mönnum sem hefja lífsstarfið af undraverðum þrótti, skara fram úr í flestu því sem þeir taka sér fyrir hendur og nýta hæfileika sína og gáfur til hins ýtrasta.
Allt gengur þeim í haginn - þar til einn daginn að eitthvað kemur fyrir - eitthvað sem sveigir þá af leið og hamlar framþróuninni. Eitthvað sem enginn fær skilið en er, samt sem áður, allt að því áþreifanlegt.
Brautin fram á við, sem áður var breið og tálmunarlaus, verður torsótt og illfær og margir steinar virðast leggjast í götu þeirra. Að lokum verður gangan of erfið og menn taka sér hvíld. Hvílast og safna kröftum.
Það var það sem minn elskulegi frændi gerði. Hann dró sig í hlé til hvíldar enda virtist ekkert liggja á. Hann, eins og við öll, reiknaði með mörgum góðum árum framundan. En erfiðu árin höfðu tekið sinn toll, slitið líkamsvélinni og daprað heilsuna.
Samt virtist hann stöðugt vera að ná sér aftur í gang og átti marga góða spretti á milli. Hann stundaði krefjandi nám og bætti við menntun sína. Því virtist einungis vera tímaspursmál hvenær hann rifi sig upp og hæfi aftur sigurgönguna. Vonir okkar allra stóðu til þess.
Engill dauðans tók hann til sín svo óvænt aðfaranótt 17. nóvember en þá varð Toggi frændi bráðkvaddur á heimili sínu. Banamein hans var blóðtappi.
Nú kveð ég góðan frænda með miklum söknuði og bið góðan Guð um að blessa hann og varðveita á þeim ókunnu slóðum sem hann nú fetar.
Einnig votta ég börnum hans, foreldrum, systkinum og öðrum vandamönnum og vinum, mína dýpstu samúð.
Einar Þorgrímsson (Dongi).