MEÐ auknu námsframboði á Íslandi á liðnum árum hefur spurningin breyst úr "hvað vil ég læra?" í "hvernig vil ég læra?". Lögfræði er nú kennd í fjórum háskólum á Íslandi sem segir okkur að það er boðið upp á fjölbreyttar námsleiðir í þessari grein. Maður gæti spurt sig: hvers vegna ætti ég að fara alla leið norður til Akureyrar að læra lögfræði? Ég spurði sjálfa mig einmitt þeirrar spurningar í fyrravor og mig langar til að svara þeirri spurningu í þessari grein.
Haustið 2004 hóf ég nám í stjórnmálafræði við Háskóla Íslands. Ég hóf önnina spennt og gat varla beðið eftir að kynnast kennurum og samnemendum mínum. En þegar ég mætti í mína fyrstu tíma komst ég að því að ég var einungis dropi í mannhafi bekkjarins. Á því ári sem ég stundaði nám við HÍ náði ég aldrei tali af kennurum mínum og fékk enga aðstoð með námið þrátt fyrir að hafa ítrekað sent þeim tölvupóst. Það voru engin verkefni, stöðupróf eða umræðutímar alla önnina og eina námsmatið sem fór fram var í 100% lokaprófi í desember. Ég sá fljótt að þetta kerfi átti alls ekki við mig og þótti það sárt því ég hafði mikinn áhuga á náminu sjálfu. Þegar leið á vorönnina bárust mér fregnir af kunningjum mínum sem ætluðu að færa sig um set og hefja nám við Háskólann á Akureyri. Þegar ég spurði þá nánar út í námið sögðu þeir mér frá svokölluðu símati sem er notað við félagsvísinda- og lagadeild Háskólans. Símat þýðir í stuttu máli: engin lokapróf. Margir gætu hugsað með sér að þetta nám væri þá bara leikur einn, en svo er alls ekki. Símatið felur í sér stöðuga verkefnavinnu og tíð próf sem hafa há prósentugildi. Ég ákvað að kynna mér námsframboðið betur og komst að því að þar kennir ýmissa grasa. Í Háskólanum á Akureyri er spennandi námsframboð og er til dæmis hægt að leggja stund á lögfræði, fjölmiðlafræði, nútímafræði, samfélags- og hagþróunarfræði, sálfræði svo fátt eitt sé nefnt. Ég kynnti mér lögfræðina betur og vakti það áhuga minn að þetta nám er tilvalinn grunnur fyrir framhaldsnám í alþjóðalögfræði. Það sem af er önninni hef ég verið með gestakennara frá Ítalíu, Svíþjóð, Íslandi og Írlandi. Ég hef lært Rómarrétt, þýska lögfræði, franska lögfræði, réttarheimildir og fleira. Íslenskur réttur er ekki kenndur sem sérstakt fag fyrr en á 4. og 5. ári sem gefur okkur kost á að fara utan strax að loknu 3. ári og takast á við alþjóðalögfræði. Þetta er tilvalið nám fyrir þá sem vilja læra lögfræði án þess þó að hafa endilega í huga að vinna hefðbundin störf lögfræðinga eða sem vilja vinna að lögfræðilegum viðfangsefnum erlendis.
Í lögfræðinni er náið samband á milli nemenda og kennara og þekkja kennararnir okkur öll með nafni enda erum við einungis 30 í bekknum.
Þegar ég lít aftur um öxl, sé ég alls ekki eftir að hafa tekið þá stóru ákvörðun um að flytja norður. Vissulega var erfitt að fara frá vinum og ættingjum og öllu því sem maður hafði vanist í borginni, en ég tel að Akureyri sé fyrirtaks áningarstaður fyrir næstu þrjú árin áður en maður heldur út í heim.
Höfundur er nemandi í lögfræði við Háskólann á Akureyri og fulltrúi í stjórn félags laganema.