Gunnar I. Birgisson
Gunnar I. Birgisson
ENGIN ákvörðun hefur verið tekin um hvort eða hvernig Kópavogsbær mun bregðast við nýgerðum kjarasamningum Reykjavíkurborgar við Eflingu og Starfsmannafélag Reykjavíkurborgar. Gunnar I.

ENGIN ákvörðun hefur verið tekin um hvort eða hvernig Kópavogsbær mun bregðast við nýgerðum kjarasamningum Reykjavíkurborgar við Eflingu og Starfsmannafélag Reykjavíkurborgar. Gunnar I. Birgisson bæjarstjóri segir að menn séu rétt að jafna sig á "þessari vitleysu" og það sé augljóst að fái aðrir sömu launahækkanir muni holskefla verðbólgu ríða yfir samfélagið. Það hafi í raun verið markmiðið; að setja samfélagið á annan endann.

Gunnar sagði alveg ljóst að aðrar stéttir myndu miða sínar kröfur við þessa samninga og það hefði raunar þegar komið fram. "Drifkraftur allrar launabaráttu er samanburður og nú eru menn komnir með samanburð," sagði hann. Fengju aðrir sömu hækkanir myndi það einfaldlega leiða til þess að verðbólga myndi hækka, kaupmáttur minnka og skuldir aukast.

Hann hefði alls ekkert á móti því að hækka laun hinna lægst launuðu, og hefði barist fyrir því, en það yrði að gera með einhverju viti og í sátt við aðila á vinnumarkaðnum. Slík sátt hefði náðst 1991 og 1995 en að þessu sinni spilaði Reykjavíkurborg algjöran einleik. Raunar væri það einnig ábyrgðarleysi af hálfu Eflingar að semja á þennan hátt. Félagið hefði fyrir nokkrum vikum samið innan vébanda ASÍ um eingreiðslur og hóflegar hækkanir til að sporna við verðbólgu en skrifaði nú undir samning sem gengi þvert á þau markmið.

Gunnar sagði að markmiðið með samningunum væri af pólitískum toga. Samningarnir hefðu verið kokkaðir í eldhúsi Samfylkingarinnar og ætlunin væri að "sprengja upp" íslenskt samfélag með því að stuðla að aukinni verðbólgu. Síðan, þegar verðbólgan kæmist á flug, myndi Samfylkingin geta kennt ríkisstjórninni um ástandið.

Slátruðu samstarfinu í launanefnd

Þá væri ljóst að fæst sveitarfélög hefðu efni á slíkum launahækkunum og að það gengi ekki að hið opinbera hækkaði laun umfram það sem fengist á almennum vinnumarkaði. Í þessu máli hefði Reykjavíkurborg í engu skeytt um samstarfið í launanefnd sveitarfélaganna. "Við höfum reynt að ganga í takt en síðan gefa þeir skít í allt það og fara sínar leiðir. Þeir eru með þessu held ég búnir að slátra launanefndinni og öllu sem henni við kemur," sagði hann.

Aðspurður hvort erfiðara yrði fyrir Kópavogsbæ að fá fólk til starfa, t.d. ófaglært starfsfólk á leikskólum, sagðist Gunnar ekkert geta sagt um það. Varla vildu menn samt að sveitarfélögin færu að yfirbjóða hvort annað því slíkt myndi aðeins leiða til verðbólgu sem myndi þurrka út hugsanlegar kjarabætur.