Ari Trausti Guðmundsson
Ari Trausti Guðmundsson
Ari Trausti Guðmundsson skrifar í tilefni af ráðherrafundi í Montreal: "Þjóðir heims eru hikandi í aðgerðum."

UMHVERFISMÁL snúast um margt en tvennt ber þó af. Mannfólkið langar að lifa á sjálfbæran hátt, þ.e. lifa af náttúrunni en í sátt við framvinduna eða með öðrum orðum þannig að lífið beri ekki skaða af þótt auðlindir, lifandi eða dauðar, séu nýttar. Hitt atriðið er þetta: Menn geta brugðist við því sem rangt er gert og bætt úr. Gott dæmi um það er of mikil framræsla mýra á Íslandi og aðgerðir til að endurheimta votlendi sem er vistkerfum okkar mikilvægt.

Nú þegar meðalhiti á jörðinni hefur hækkað um tæpt eitt stig á örfáum áratugum eru teikn um það augljós. Nægir að nefna minnkandi jökla, hækkandi yfirborð sjávar, breytt gróðurfar og breytt veðurmynstur. Um leið eru mælistærðir óyggjandi. Dæmi: Til viðbótar hækkandi hitastigi á hundruðum viðmiðunarveðurstöðva er mældur hærri sjávarhiti víðast hvar um heim, einnig 15-20% hærri mæligildi fyrir helstu lofttegundina sem hækkar yfirborðshita jarðar og loks er vitað að yfir 20 milljarðar tonna af þessum kolsýringi berast frá samfélögum út í andrúmsloftið hvert ár.

Jörðin heldur uppi sínum eigin gróðurhúsalofttegundabúskap, óhað manninum. Koltvísýringur og t.d. metan losna úr jarðlögum, kolefnisgös bæði losna og bindast í sjó, gróður, sem er breytilegur með tíma að umfangi, bindur koltvísýring og eldstöðvar geta haft áhrif á þennan búskap. Myndin er raunar miklu flóknari.

Við getum kynnt okkur hvernig magn gróðurhúsalofttegunda og hitastig hefur sveiflast í fleiri hundruð þúsund ár (í fáein jökulskeið og hlýskeið) með því t.d. að skoða setlög, borkjarna úr jöklum og steingervinga. Sveiflur eru stórar og smáar og sumar mjög dramatískar. Oftar en ekki eru orsakir óljósar enda samhengið milli losunar og bindingar gróðurhúsalofttegunda flókið og margþætt. Atburðalíkön í tölvum sem reyna að líkja eftir þróuninni og jafnvel spá framhaldi miðað við gefnar forsendur eru einföld að gerð og gefa nokkuð ólíkar vísbendingar þó tilhneigingin sé ljós: Áframhaldandi hlýnun. Að sjálfsögðu er ekki unnt að ákvarða hve mikið af henni er náttúruleg uppsveifla og hve stór huti er af manna völdum. Það á enda ekki að skipta meginmáli. Aðalatriðið er að tiltekinn, en óvissan, hluta getum við haft áhrif á. Og okkur ber að gera það vegna samábyrgðar á vegferð mannkyns, vegna óvissu um hve há sveiflan verður og vegna þess að hver milljarður tonna af gróðurhúsalofttegnundum skiptir umtalsverðu máli meðan bindigeta jarðar minnkar.

Ef vöxtur hagkerfa og hagur umhverfis rekast harkalega á verða menn að ákveða hvort þeir leiki rússneska rúllettu gagnvart umhverfinu eða skerða ýtrustu vaxtarkröfur hagkerfa til hagsbóta fyrir umhverfið. Sú tilhneiging er greinileg hjá sumum áhrifamönnum að draga úr áhrifum þessara staðreynda. Þjóðir heims eru hikandi í aðgerðum. Margur maðurinn er ruglaður á misvísandi fréttum og skilvirk umræða er víða lítil, bæði í iðnríkjum og þróunarríkjum. Verst er tal um "óþarfa heimsendaspár". Þær eru þó aðeins til í innantómri slagorðaumræðu eða í varnarræðum þess minnihluta sem lætur eins og allt sé í stakasta lagi. Ábyrgir sérfræðingar og vel upplýstir stjórnmálamenn eða almenningur halda ekki dómsdagstali uppi, heldur vilja þeir ákveðnari aðgerðir og sátt um að umhverfismál eru mikilvægri en raunin er á.

Á Íslandi geta aðgerðir til mótvægis við hlýnunina helst snúist um: Samgöngur, stóriðju, uppgræðslu og landbúnað ásamt orkumálum. Meira um það síðar. Markmið um minni losun gróðurhúsalofttegunda og frekari bindingu þeirra þarf að ná mun lengra en Kyoto-bókunin eða sérákvæði hennar og aðgerðirnar eiga að vera ein af þungamiðjum stjórnmála en ekki afgangsstærð eða deilumál um augljós efni.

Höfundur er jarðeðlisfræðingur og áhugamaður um umhverfismál.