Eftir Hjálmar Jónsson hjalmar@mbl.
Eftir Hjálmar Jónsson hjalmar@mbl.is

RÚMLEGA fjögur hundruð aldraðir einstaklingar eru á biðlista og í mjög brýnni þörf eftir dvöl á hjúkrunarheimili og rúmlega fimmtíu til viðbótar eru í brýnni þörf, að því er fram kemur í svari heilbrigðisráðherra, Jóns Kristjánssonar, við fyrirspurn Björgvins Sigurðssonar, alþingismanns, á Alþingi.

Samkvæmt svarinu voru 260 aldraðir einstaklingar í mjög brýnni þörf eftir dvöl á hjúkrunarheimili í Reykjavík miðað við 1. nóvember síðastliðinn. Í Suðurkjördæmi voru þeir 44 talsins og í Suðvestukjördæmi 64 talsins sem voru í mjög brýnni þörf. Fimmtán voru skilgreindir í mjög brýnni þörf í Norðvesturkjördæmi og í Norðausturkjördæmi voru þeir 19 talsins. Til viðbótar voru síðan 53 einstaklingar í kjördæmunum öllum í brýnni þörf fyrir vistun á hjúkrunarheimili.

Fram kemur einnig að hjúkrunarrými eru 8 á hverja eitt þúsund íbúa í Reykjavík og nágrannasveitarfélögunum eða 1.468 talsins alls, en íbúafjöldi á þessu svæði er 184 þúsund manns. Þegar horft er til kjördæmanna og Reykjavík norður og suður tekin saman kemur í ljós að fæst eru hjúkrunarrými á hverja þúsund íbúa í Suðvesturkjördæmi þar sem búa 70 þúsund manns. Heimiluð hjúkrunarrými þar eru 403 talsins eða 5,7 á hverja þúsund íbúa. Flest eru hjúkrunarrýmin hins vegar hlutfallslega í Norðvesturkjördæmi þar sem heimiluð hjúkrunarrými eru 362 talsins á svæði þar sem búa tæplega 30 þúsund manns eða 12,2 á hverja þúsund íbúa. Landsmeðaltalið er tæplega níu hjúkrunarrými á hverja þúsund íbúa.

Rúm 9 þúsund eldri en áttræðir

Við þetta er því að bæta að samkvæmt upplýsingum Hagstofunnar voru sjötugir og eldri um síðustu áramót 25.300 talsins. Heimiluð hjúkrunarrými í landinu öllu eru 2.505 talsins, en það jafngildir því að um það bil eitt hjúkrunarrými sé á hverja tíu einstaklinga sem orðnir eru sjötugir eða eldri.

Þegar einungis er horft til þeirra sem orðnir eru áttræðir og eldri þá eru þeir rúm níu þúsund sem orðnir eru áttræðir og eldri. Miðað við 2.500 heimiluð hjúkrunarrými jafngildir það því að tæplega fjórir einstaklingar 80 ára og eldri séu um hvert hjúkrunarrými.