FYRSTA skóflustungan að nýrri byggð á svokölluðu olíutankasvæði á Hvaleyrarholti í Hafnarfirði var tekin á laugardag en þar er gert ráð fyrir um 320 íbúðum. Að sögn Lúðvíks Geirssonar, bæjarstjóra í Hafnarfirði, munu framkvæmdir nú hefjast af fullum krafti en áætlað er að byggðin verði risin á síðari hluta næsta árs.
Olíufélagið hf. er með byggingarrétt á svæðinu og gengið hefur verið frá samningum við Fjarðarás um framkvæmdir. "Þetta er mikið hagsmunamál fyrir okkur að fá breytingu á þessu svæði enda kjörið landsvæði fyrir íbúðabyggð," segir Lúðvík og bætir við að framkvæmdirnar séu einn þáttur í þéttingu byggðar í Hafnarfirði en unnið hefur verið að henni undanfarin ár. "Verið er að byggja um eitt þúsund nýjar íbúðir inni í gömlu byggðinni en verulegu máli skiptir að geta unnið bæði á þessum nýbyggingarsvæðum ásamt því að byggja inni í byggð."
Hæð fjölbýlishúsanna sem byggð verða er áætluð að verði svipuð og þegar olíutankarnir voru á svæðinu en Lúðvík segir reitinn opnast mikið og nýtast mun betur. Um þriðjungur íbúðanna verður sérstaklega hannaður fyrir eldri borgara og telur Lúðvík mikla eftirspurn eiga eftir að verða eftir íbúðum á reitnum. Hann hafi greint talsverðan áhuga nú þegar enda svæðið mjög miðsvæðis og hverfið í kring skemmtilegt.