Þessi krans hefur fylgt mér í 20 eða 30 ár," segir Dröfn Guðmundsdóttir glerlistakona um leið og hún sýnir blaðamanni og ljósmyndara uppáhaldsjólaskrautið sitt. "Hlutirnir á honum eru allt hlutir sem einhver hefur gefið mér. Einhver sem mér þykir vænt um. Þess vegna hefur hann orðið mér svo kær. Það kemur fyrir ef ég fæ eitthvað alveg sérstakt að ég skipti út eða bæti á kransinn."
Dröfn á líka svolítið sérstakt stofuborð. Á því er glerplata og undir hana er hægt að setja muni sem litlar hendur mega ekki komast í. "Þarna set ég t.d. allar gömlu jólakúlurnar mínar og allt það sem mér þykir vænst um og vil ekki að barnabörnin mín brjóti. Það er í öruggu skjóli þarna."
Fann ísinn í glerinu
"Ég er mestmegnis í glerinu og hef verið síðan 1993," segir Dröfn en hún vinnur glerlist sína í litlu galleríi á Fálkagötunni. "Ég útskrifaðist úr Mynd- og handíðaskólanum þá en fram að því hafði ég verið svona námskeiðskelling." Í MHÍ kynntist Dröfn glerinu og fann strax að það hentaði hennar sköpun vel. "Þar fann ég glerið í rauninni. Ég hef þessa þörf fyrir að breyta einhverju hörðu í eitthvað annað. Að gera gat á málmvegg fannst mér alveg meiriháttar flott. Að taka eitthvað og umbreyta því í eitthvað annað." Dröfn bjó um tíma úti í Þýskalandi og hún saknaði Íslands á meðan hún bjó þar. "Glerið fannst mér minna mig svolítið á ís. Ég saknaði alltaf Íslands á meðan ég var úti og ég saknaði Tjarnarinnar. Á veturna þegar Tjörnina lagði og svo þiðnaði og svo lagði hana aftur, þá lagðist ísinn svona ofan á hana og þetta bráðnaði saman. Þetta fannst mér alltaf svo heillandi. Loftbólur á milli. Þessa tilfinningu fann ég í glerinu."Dröfn langaði alltaf til að læra að blása í gler en hefur ekki haft tækifæri til þess. "Ég ákvað þá að nota einhverja aðferð sem ég gæti þróað sjálf áfram. Aðferðin sem ég nota er kölluð "slumping", ég þekki ekki íslenskt orð yfir hana. Maður hitar glerið þangað til það sígur ofan í mót í ofni sem fer yfir 800°."
Fyllir á yfir sumartímann
Dröfn hefur unnið við listina að mestu síðan hún útskrifaðist úr MHÍ. Á sumrin er hún þó leiðsögumaður. "Ég hef aðeins haldið fram hjá listinni því að ég fór í Leiðsögumannaskólann og vinn við það á sumrin. Mér finnst það starf styðja mjög vel við listina. Ég er ein á verkstæðinu á veturna og þegar ég er innan um ferðamennina fylli ég alveg á, kynnist nýju fólki, í rauninni nýjum víddum sem ég kem svo með inn á verkstæðið. Þá vinn ég úr því sem ég fæ á sumrin."Dröfn vinnur ýmislegt úr glerinu. Á meðal þess er matarstell og myndir. Einnig má sjá hjá henni skálar sem hún hefur málað í.
"Þessar glermyndir hef ég t.d. selt ferðaskrifstofum. Matarstellin kalla ég fjölnota matarstell því að hluti úr þeim er hægt að nýta til ýmissa hluta. Langan bakka má t.d. nota undir kjöt, meðlæti og kartöflur, nú eða setja flotta borðskreytingu í hann og hafa bara á borðinu. Svo getur fólk pantað hjá mér eftir máli. Þá er mér gefið upp málið á borðstofuborðinu og svo hanna ég matarstell á borðið," segir Dröfn.
Dröfn er með vinnustofu á Fálkagötu. Einnig má finna hluti eftir hana í Kokku, Uniku, Blómastofu Friðfinns og nokkrum galleríum úti á landi, þ.ám. á Laugarvatni.