Guðjón Rúdolf og Þorkell Atlason flytja. Þeir sömdu og lögin í sameiningu. Guðjón á alla texta utan að Steinn Steinarr á einn. Með þeim félögum leika Aksel Striim (selló og dragspil), Juha Valkeapää (rödd), Diljá (rödd) og Gréta (rödd). Þorkell stýrði upptökum og útsetti. Hann hljóðblandaði svo ásamt Henrik Corfitsen. Kjölur gefur út.
PLATA Guðjóns Rúdolfs frá því í hitteðfyrra, Minimania (Nokkrar leiðbeiningar í alþýðutónlist fyrir byrjendur), er hiklaust ein sú merkilegasta plata sem undirritaður hefur lengi heyrt. Látum vera með "Húfuskrattann", eins og Guðjón orðaði það sjálfur í spjalli við Morgunblaðið fyrir stuttu, lagið sem gerði allt vitlaust. Platan í heild er ótrúleg, bæði aðgengileg og stórskrýtin og heldur áfram að heilla í hvert sinn sem hún fer undir geislann. Algjör snilld.
Og það er ekki bara tónlist Guðjóns sem virðist gædd goðmagni, heldur hefur maðurinn sjálfur sérkennilegt aðdráttarafl. Starfar sem garðyrkjumaður á Jótlandi þar sem hann semur lög allan daginn á traktornum að eigin sögn. Það er eitthvað ævintýralegt við þetta allt saman.
Þessa nýju plötu vinnur hann með Þorkatli Atlasyni tónskáldi líkt og var með Minimaniu. Og vel tekst þeim félögum upp. Þjóðsöngur er angurværari og kyrrlátari plata en sú er á undan kom og um margt snúnari. Lögin eru ekki nema sjö og sum þeirra til muna tilraunakenndari en það sem áður hefur heyrst með Guðjóni.
Hér beitir hann röddinni margvíslega líkt og áður og syngur í ljúfri falsettu í opnunarlaginu, "Tangó". Þar má t.d. finna línuna "Það var dauðinn sem hirti mig/Setti mig í hvítan kassa en enginn gróf mig upp" . Það er myrkur í mörgu hérna, en platan dettur samt aldrei niður í neinn barlóm. Um mitt þetta lag tekur Guðjón svo að raula og taktur og laglína fer í skógarferð. En einhvern veginn gengur slíkt fullkomlega upp. Það er eiginlega erfitt að lýsa þeirri súrrealísku snilld sem umleikur sum lögin hér.
Kímnigáfa Guðjóns fær að skína í "Pacemaker", svalur skuggadjass sem Guðjón syngur á glettinn hátt. Lagið "Vals" er svo ekki nema ein mínúta rúm, einslags hljóðverk en við tekur "Að elska", þar sem eitthvað torkennilegt hvísl liggur grafið í hljóðrásinni. Tónar dragast í sundur og verða afstrakt, einslags nútíma tónlist, og bakgrunnur Þorkels verður auðheyranlegur. Þessu er framhaldið í "Leyndarmál" sem er sungið hálfkjökrandi; naumhyggjulegir, hvellir píanótónar eru einkennandi og stemning í laginu nokkuð sérstök. Guðjón grípur til bassaraddarinnar í titillaginu sem er mikil furðusmíð en platan endar á tíu mínútna stemmu, þar sem Guðjón fer með ljóðabálk. Tónlistin þar er sveimkennd og falleg.
"Það er einhver togstreita í þessu öllu saman...á maður að hlæja eða á maður að gráta...," sagði Guðjón á sínum tíma um Minimaniu. Setningin á mjög vel við þessa nýju afurð, sem er bæði sorgbundin og sælleg - en fyrst og fremst algerlega einstakt verk.
Megi traktorinn ganga lengi vel.
Arnar Eggert Thoroddsen