Maður borðaði alltaf margsinnis yfir sig á aðfangadagskvöld," segir Bjarni Hafþór Helgason, nýráðinn fjárfestingastjóri KEA á Akureyri, þegar hann er beðinn að rifja upp einhverja skemmtilega æskuminningu tengda jólunum. Æskuheimilið var á Húsavík og hét því merkilega nafni Grafarbakki og þar kom stórfjölskyldan saman á aðfangadagskvöld. "Ég man sérstaklega eftir einu aðfangadagskvöldi þegar mandlan lék aðalhlutverkið. Á mínu æskuheimili var það nefnilega þannig að mandlan var sett í allan grautinn. Á borðið var svo sett risastór skál með 10-12 kílóum af hrísgrjónagraut og einhvers staðar í þessum ósköpum af graut var mandlan, sem allir vildu fá. Auðvitað voru allir búnir að borða rjúpu áður en kom að grautnum og enginn var maður með mönnum nema hann hefði borðað 3 rjúpur eða svo. Þegar grauturinn var svo settur á borðið hófst slagurinn og allir tróðu í sig graut eins og þeir best gátu. Við vorum fimm systkinin og þetta tiltekna aðfangadagskvöld hef ég sennilega verið níu ára. Helgi, bróðir minn, var tveimur árum yngri og við tveir öttum líklega helst kappi þegar kom að því að hreppa möndluna. Það þótti afskaplega fyndið á mínu heimili að láta ekki vita strax af því ef einhver fékk möndluna, sérstaklega ef það var einhver af fullorðna fólkinu. Í þetta skiptið var það amma heitin (hún var lifandi þá) sem fékk möndluna og henni tókst að leyna því að hún hefði fengið möndluna með því að fela hana uppi í sér undir fölsku tönnunum þangað til allur grauturinn var búinn. Þá vorum við bræður orðnir útkeyrðir af ofáti og horfðum tileygðir á hitt fólkið við matarborðið. Allir hlógu þegar amma loks sýndi möndluna, nema við bræður. Við ráfuðum inn í stofu og gengum á dyrastafi á leiðinni."
Kvöldkaffi líka
Bjarna Hafþóri er líka minnisstætt þegar hann hugsar til jóla bernskunnar hversu gríðarlegt magn af mat, sælgæti, smákökum og rjómatertum fór ofan í maga fjölskyldumeðlima. "Þar sem þetta var á þeim árum þegar fólk gerði sér verulegan dagamun með því að borða sætindi og slíkt var tíminn nýttur vel. Innbyrtir voru að minnsta kosti þrír bollar af súkkulaði, tvær stórar sneiðar af rjómatertu, sextán smákökur og í viðbót tvær loftkökur hafðar með í nesti inn í stofu." Þegar öllu þessu var lokið fór spennufall að gera vart við sig hjá heimilisfólkinu. "Auðvitað reyndi maður að svara spurningum um hvað jólagjafirnar væru skemmtilegar þótt maður sæi þær flestar í móðu. Á óskilgreindum tíma var staulast inn í rúm með "Óla og Magga á ísjaka" en letrið rann allt saman. Síðan leið yfir mann. Á jóladag vaknaði maður undarlega úthvíldur, fór framúr svona bjartur að innan. Tiplaði fram í stofu til að skoða jólagjafirnar aftur. Fyrsti klukkutíminn á jóladag er í minningunni alltaf einhvern veginn besti tíminn. Það er eins og veður hafi alltaf verið gott. Heiðskírt." Það er ekki laust við að tregi sé í rödd Bjarna Hafþórs þegar hann lýkur við að rifja upp þessa skemmtilegu jólasögu."Þetta voru góðir tímar."
sia@mbl.is