Unnur Birna Vilhjálmsdóttir, nýkjörin ungfrú heimur, náði lítið að sofa eftir krýninguna því hún þurfti að sækja blaðamannafundi og fara í myndatökur í gær.
Unnur Birna Vilhjálmsdóttir, nýkjörin ungfrú heimur, náði lítið að sofa eftir krýninguna því hún þurfti að sækja blaðamannafundi og fara í myndatökur í gær.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Eftir Sigurhönnu Kristinsdóttur sigurhanna@mbl.is Þetta er allt í einhverri móðu, ég held að ég sé ekki nálægt því búin að átta mig á þessu, ég fékk algjört sjokk.
Eftir Sigurhönnu Kristinsdóttur sigurhanna@mbl.is

Þetta er allt í einhverri móðu, ég held að ég sé ekki nálægt því búin að átta mig á þessu, ég fékk algjört sjokk. Þetta var það síðasta sem ég bjóst við, ég held að hjartað sé búið að vera á fullu síðan í gærkvöldi." Þetta sagði Unnur Birna Vilhjálmsdóttir, nýkjörin ungfrú heimur, í samtali við Morgunblaðið í gær.

Keppnin fór fram í borginni Sanya í Kína síðastliðið laugardagskvöld og tóku 102 stúlkur þátt. Í öðru sæti varð ungfrú Mexíkó og ungfrú Púertó Ríkó varð í því þriðja. Unnur Birna er 21 árs og er á fyrsta ári í lögfræði við Háskólann í Reykjavík. Hún var kjörin ungfrú Ísland á vordögum.

Greinilegt er að Unnur Birna er orðin mikilvæg persóna því þegar blaðamaður reyndi að ná af henni tali í gær þurfti hann að fara í gegnum fjölmiðlafulltrúa keppninnar, Unnur Birna mátti ekki tala við blaðamann í gegnum sinn síma.

"Ég get ekki sagt að það leiti einhverjar efasemdahugsanir á mig, þetta verður örugglega alveg æðislegt ár og þetta er tækifæri sem örfáir fá í lífinu. Ég er alveg í skýjunum," segir Unnur Birna.

Fyrir ömmu Gull

Unnur Birna hefur haldið úti dagbók á mbl.is og þar skrifaði hún í gær: "Ég hef aldrei á minni litlu ævi fundið jafn sterkt fyrir einni manneskju og ég fann fyrir henni Jórunni Karlsdóttur, ömmu Gull í gærkvöldi. Hún hefði alveg eins getað staðið við hliðina á mér á sviðinu í bleiku dragtinni sinni og haldið þéttingsfast utan um mig.

Ég vil tileinka henni þetta kvöld að öllu leyti. Þetta var fyrir hana, yndislegustu konu sem uppi hefur verið. Sakna hennar sárar en nokkurs annars og hefði gefið allt, allt fyrir að hún hefði getað upplifað þessa stund í gærkvöldi áður en hún fór frá okkur. En hún var þarna með mér, sannaði það fyrir mér og ég mun aldrei efast." Jórunn móðuramma Unnar Birnu lést í janúar á þessu ári.

Unnur Steinsson, móðir Unnar Birnu, var með dóttur sinni í Kína en hélt heim á leið í gærmorgun. Hún var kjörin ungfrú Ísland árið 1983 og komst í 5 manna úrslit í alheimskeppninni sama ár.

Kemur heim fyrir jólin

Unnur Birna segist ekki vita hvað taki nú við því hún hafi ekki haft tíma til að setjast niður með aðstandendum keppninnar og ræða það. Hún mun fljúga til London næstkomandi þriðjudag og dvelja þar í einhverja daga. "En ég veit að ég fæ að koma heim fyrir jólin. Það er mjög mikilvægt," bætir hún við.

Unnur Birna átti að halda af stað heim á leið í gærmorgun en þau plön breyttust snarlega þegar hún vann keppnina. Í dagbókinni daginn fyrir keppnina skrifaði Unnur Birna: "...ég get lofað ykkur því eins og ég hef gert áður að kórónan verður ekki í ferðatöskunni þegar ég kem heim á mánudag." Hún segir að í raun hafi hún staðið við þetta loforð því hún sé ekki á leiðinni heim á þeim tíma sem til var ætlast. Kórónan verði með í för þegar hún kemur heim í næstu viku.

Unnur Birna segir að hún muni starfa á vegum keppninnar allt næsta ár. "Við komum til með að fara í svakalegan túr um allan heim, ferðumst til allra heimsálfanna og ég þarf alltaf að vera með í för. Ég hugsa að það verði alltaf um mánuður í senn í hverri heimsálfu og svo fái ég að koma heim á milli."

"Ég veit í raun og veru ekki hvernig þetta mun hafa áhrif á námið mitt vegna þess að ég er ekki búin að sjá nein plön, en ég giska á að ég þurfi að skera niður í námi eða fresta því á einhvern hátt. Aðstandendur keppninnar vilja að ég haldi áfram í náminu mínu og þeir munu greiða allt mitt nám í framtíðinni. Ég mun halda áfram í skólanum og ég ætla að reyna að taka prófin í janúar eins og ég var búin að ákveða að gera," segir Unnur Birna.

Vill vinna að góðgerðarstörfum

Unnur Birna segir að ungfrú Ísland hafi í raun aldrei unnið nein góðgerðarstörf, þ.e. ekki lagt það fyrir sig að safna peningum til að hjálpa fólki. "Þessi vera mín hérna í Kína hefur opnað augu mín fyrir þessu hugtaki "fegurð með tilgang" (e. beauty with a purpose) sem eru einkunnarorð keppninnar. Ég var búin að ákveða það meðan ég var hérna úti að strax í janúar á næsta ári ætlaði ég að breyta þessari staðreynd að ungfrú Ísland hefur aldrei gert neitt svona. En núna mun ég að sjálfsögðu gera það og í miklu meiri mæli en mér hafði nokkurn tíma dottið í hug."

Unnur Birna hélt til Sanya í Kína 9. nóvember síðastliðinn og því verður hún búin að vera í burtu í 6 vikur þegar hún kemur heim. "Þetta er það lengsta sem ég hef verið að heiman," segir hún.

Unnur Birna segist vera búin að fá vel yfir 150 skilaboð frá Íslandi með hamingjuóskum síðan hún var krýnd. Þá bárust henni skeytin frá bæði forseta og forsætisráðherra og segir hún að það hafi verið alveg gífurlegur heiður að fá þau.

Heillaskeyti frá forseta og forsætisráðherra

ÓLAFUR Ragnar Grímsson forseti Íslands og Dorrit Moussaieff forsetafrú sendu Unni Birnu heillaóskaskeyti í fyrradag. Í skeytinu segir "Við óskum þér til hamingju með glæsilegan árangur. Þú ert landi og þjóð til sóma. Heillaóskir til fjölskyldunnar."

Þá sendi Halldór Ásgrímsson forsætisráðherra heillaóskaskeyti til Unnar Birnu í fyrradag. Þar segir: "Innilegustu hamingjuóskir frá íslensku þjóðinni allri. Þú varst landi og þjóð til sóma eins og við var að búast."

"Fékk gæsahúð þegar hún var krýnd"

UNNUR Birna Vilhjálmsdóttir er þriðja íslenska stúlkan sem hlýtur titilinn ungfrú heimur (Miss World). Hólmfríður Karlsdóttir vann titilinn árið 1985 og Linda Pétursdóttir 1988. Þá varð Guðrún Bjarnadóttir fyrst íslenskra kvenna til að vinna titil í alþjóðlegri fegurðarsamkeppni þegar hún hlaut titilinn ungfrú alheimur (Miss International) árið 1963.

Linda segir að sér finnist alveg frábært að Unnur Birna hafi unnið og hún sé vel að titlinum komin. Þá sé gott að fá hana í Miss World-hópinn. Hún segist hafa gefið Unni Birnu heilræði áður en hún fór út. "Ég ráðlagði henni áður en hún fór út því ég er búin að vera dómari svo oft og hef því verið báðum megin við borðið. Það vonandi hefur nýst henni eitthvað," segir Linda.

"Ég horfði á keppnina í gær [laugardag] og það komu fram gamlar minningar og ég fékk gæsahúð þegar hún var krýnd," segir Linda.

Spurð um hvort árið eftir krýninguna, þegar Linda ferðaðist um heiminn líkt og Unnur Birna mun koma til með að gera, hafi verið strembið segir Linda að svo hafi verið. Nú strax eftir keppnina sé Unnur Birna líklega uppbókuð í blaða- og sjónvarpsviðtölum og svo fái hún frí yfir jólin en strax í janúar muni ferðalögin hefjast. "Á mínu ári fór ég til rúmlega 30 landa og oft til sumra þeirra. Það verður því nóg að gera hjá Unni Birnu eftir áramótin," segir Linda.

Skemmtilegur tími og lærdómsríkur

Hólmfríður Karlsdóttir var krýnd ungfrú heimur árið 1985, hún segir árið eftir sigurinn hafa verið nokkuð annasamt, en afskaplega skemmtilegt og lærdómsríkt. Hófí segir keppnina vera nokkuð frábrugðna frá því þegar hún tók þátt í henni en telur breytingarnar til batnaðar.

"Ég vissi reyndar ekki alveg hvernig þetta myndi koma út með síma- og netkosningu, þar sem við erum nú svo fá og smá. En það hafði ekkert að segja og Unnur sló í gegn. Þetta var bara stórkostlegt."

Hófi segir keppnina og tímann eftir sigurinn vera frábæra lífsreynslu og vonar fyrir hönd Unnar að hún eigi eftir að njóta hans. "Það komu heilmiklar tarnir en svo var voða gott að geta náð að slaka á inn á milli. Hún fær vonandi, eins og ég, að koma öðru hvoru heim, hitta vini og slaka á í faðmi fjölskyldunnar."