Horft frá skólasvæðinu til suðurs yfir miðsvæðið.
Horft frá skólasvæðinu til suðurs yfir miðsvæðið. — Morgunblaðið/Ómar
Friðsæld og náttúrufegurð er óvíða meiri en á Álftanesi. Mikið er þar af opnum svæðum, en landið liggur lágt og byggðin er lágreist og engin háhýsi til staðar. Það er því fátt, sem skyggir á útsýnið.

Friðsæld og náttúrufegurð er óvíða meiri en á Álftanesi. Mikið er þar af opnum svæðum, en landið liggur lágt og byggðin er lágreist og engin háhýsi til staðar. Það er því fátt, sem skyggir á útsýnið. Náttúruvernd hefur líka verið höfð í fyrirrúmi, en stórar tjarnir setja mikinn svip á umhverfið, ekki hvað síst á sumrin, þegar þær iða af fuglalífi. Víða eru heillandi fjörur og aðgangur að góðri strönd er miklu meiri en gengur og gerist annars staðar. Allt þetta skapar mikla frelsistilfinningu. Það er hátt til lofts og vítt til veggja.

En er ekki hætt við að þessi dýrð fari forgörðum að öllu eða einhverju leyti, ef öflugur miðbæjarkjarni rís á Álftanesi með þeim ys og þys, sem fylgir tilheyrandi íbúafjölgun og vaxandi bílaumferð? Fyrir svörum verður Guðmundur G. Gunnarsson, bæjarstjóri á Álftanesi, en hann hefur búið þar síðan 1975.

"Friðsældin og náttúrufegurðin munu halda sér," segir Guðmundur. "Markmiðið er þéttari byggð á miðsvæðinu en stór opin svæði á jöðrunum, þar sem náttúruvernd verður í fyrirrúmi, heillandi fjörur og tjarnir með iðandi fuglalífi eins og verið hefur," segir Guðmundur. "Útsýnið mun líka halda sér, þar sem á miðsvæðinu verður lágreist byggð og engin hús það há að þau taki útsýni frá neinum. En þetta er lítið sveitarfélag og eins og er þá sækjum við okkar miðbæjarþjónustu til annarra bæjarfélaga í grennd við okkur. Við viljum miðlæga þjónustu, sem hæfir stærð sveitarfélagsins, ellegar staðnar Álftanes og dregst aftur úr."

"Tillagan sem nú er til kynningar felur í sér metnaðarfullt skipulag," heldur Guðmundur áfram. "Hún er unnin af viðurkenndum arkitektum, sem búa yfir mikilli reynslu og ásamt skipulagsnefnd og bæjarstjórninni hafa þeir lagt mikla vinnu í skipulagið, sem fengið hefur mikla kynningu. Ég er líka sannfærður um, að tillagan felur í sér farsæla lausn og tel, að þetta skipulag eigi eftir að henta umhverfi okkar mjög vel."

Ef allt gengur eftir í formlegri afgreiðslu á tillögunni kveðst Guðmundur gera ráð fyrir, að skipulagið geti legið fyrir tilbúið í janúar-febrúar nk. og að þá hefjist gatnahönnun. Þegar hefur verið gerður samningur við Hjúkrunarheimilið Eir, sem ætlar að reisa myndarlega þjónustubyggingu á miðsvæðinu auk öryggisíbúða. Auk þess ætlar Eir að reisa lítið ráðhús, sem hæfir sveitarfélaginu, en þar verður stjórnsýsla og bókasafn sveitarfélagsins. Gert er ráð fyrir, að sú bygging verði tekin í notkun um mitt ár 2007.

Guðmundur telur, að uppbygging miðsvæðisins muni taka 5-10 ár, en úthlutun á byggingarlóðum til einstaklinga fyrir allt að 80 íbúðir og hús verði í vor. Guðmundur segir, að mikil eftirvænting ríki varðandi þessar lóðir, en sveitarfélagið hefur ekki úthlutað lóðum í marga áratugi

"Við voru svo heppin að ná eignarhaldi á stórum hluta miðsvæðisins í samningum við landeigendur í sumar," segir Guðmundur. "Fyrir bragðið getum við skipulagt svæðið á eigin forsendum og náð að selja hluta af landinu til hjúkrunarheimilisins Eirar. Þetta er mikið hagsmunamál fyrir okkur. Við höfum sinnt unga fólkinu vel og erum mjög hreykin af okkar leikskóla og skóla. Nú er komið að þeim eldri, en við viljum líka gera vel við þá.

Guðmundur á von á mikilli ásókn í lóðirnar. "Það var byggingabann á Álftanesi 1960-1970 og það eimdi af því lengi á eftir. Það var lítið byggt. En að undanförnu hefur fólksfjölgunin verið mikil og stöðug og mikil ásókn í húsnæði í sveitarfélaginu. Það land, sem sveitarfélagið hefur keypt, kostaði mikið fé og það er því mikil þörf á að koma þessu landi aftur út og fá þetta fé til baka. Þeir verktakar, sem byggt hafa á Álftanesi síðustu þrjú árin, hafa venjulega verið búnir að selja íbúðirnar, þegar þeir byrja á sökklinum.

Miðsvæðið er úrvalssvæði og miðað við eftirspurn eftir lóðum á höfuðborgarsvæðinu að undanförnu er ég sannfærður um, að þessar lóðir eiga eftir að ganga út hratt og vel og að á þeim rísi falleg byggð, sem verði okkur öllum til sóma.

Auk þess er það okkur fagnaðarefni að átaksverkefni Álftaness og Hjúkrunarheimilisins Eirar í því að koma þarna upp þjónustumiðstöð og íbúðum fyrir eldri borgara verður að veruleika, en á þessu hefur verið tilfinnanlegur skortur á Álftanesi," segir Guðmundur G. Gunnarsson að lokum.