TVÖ úrvalsdeildarlið féllu úr keppni í gær í 32 liða úrslitum bikarkeppni karla í körfuknattleik, en ÍR tapaði gegn Skallagrími í Borgarnesi, 88:81.

TVÖ úrvalsdeildarlið féllu úr keppni í gær í 32 liða úrslitum bikarkeppni karla í körfuknattleik, en ÍR tapaði gegn Skallagrími í Borgarnesi, 88:81.

Íslandsmeistaralið Keflavíkur lék á heimavelli gegn Fjölni og hafði Keflavík betur í 200 stiga leik, 104:96.

Það var lítið um óvænt úrslit í þessari umferð en þó má geta þess að B-lið KR gerði sér lítið fyrir og sló út 1. deildarlið Stjörnunnar úr Garðabæ, 83:78, en B-lið KR leikur í 2. deild og er ekki með bandarískan leikmann í sínum röðum eins og Stjarnan.

Úrvalsdeildarlið KR vann stórsigur á Laugarvatni gegn Laugdælum sem leika í 2. deild en KR-ingar skoruðu alls 165 stig í leiknum gegn 44 stigum heimaliðsins - og skildi því 121 stig liðin að í leikslok.

Það var einnig skorað mikið í leik Breiðabliks úr Kópavogi sem leikur í 1. deild gegn B-liði Keflavíkur en Blikar skoruðu 150 stig gegn 75 stigum Keflvíkinga.

Úrvalsdeildarlið Grindavíkur skoraði 123 stig gegn B-liði Hauka í Hafnarfirði og var 67 stiga munur á liðunum í leikslok þar sem Haukar skoruðu ekki nema 56 stig.

Einum leik er ólokið í 32-liða úrslitunum en KFÍ og Haukar áttu að leika í gær á Ísafirði en ekki var fært á Ísafjörð í gær. Haukar eru í úrvalsdeild með einn sigur í farteskinu en KFÍ er í neðsta sæti 1. deildar og hefur ekki unnið leik.