Eftir Elvu Björk Sverrisdóttur elva@mbl.is LÍKUR eru á því að framleiðsla og útflutningur á saltfiski eftir áramót dugi ekki til að anna eftirspurn eftir fiski á páskaföstu í þeim löndum sem helst kaupa saltfisk af Íslendingum.
Eftir Elvu Björk Sverrisdóttur elva@mbl.is

LÍKUR eru á því að framleiðsla og útflutningur á saltfiski eftir áramót dugi ekki til að anna eftirspurn eftir fiski á páskaföstu í þeim löndum sem helst kaupa saltfisk af Íslendingum. Almennt virðist vera skortur á þorskafurðum og er eftirspurn eftir öllum þorski góð, að sögn fiskútflytjenda. Framleiðendur segja hins vegar stefna í að framleiðsla á saltfiski fari minnkandi, en verð fyrir fiskinn hafi lækkað. Þau ríki sem kaupa mest af íslenskum saltfiski eru Grikkland, Ítalía, Portúgal og Spánn.

Guðjón Ingi Guðjónsson, framkvæmdastjóri saltfisksútflutningsfyrirtækisins Síríuss, segir að í haust hafi verið ágætis eftirspurn eftir öllum stærðum saltfisks, einkum frá Ítalíu og Spáni. Til Portúgals sé fyrst og fremst seldur stór fiskur fyrir jólin, en neyslan þar hafi dregist saman undanfarin ár. Eftirspurn eftir gæðafiski, svonefndum Spig-fiski, sem mest er seldur til Ítalíu, Spánar og Grikklands, hafi verið mjög góð í haust.

"Framleiðsla á honum mætti vera meiri," segir Guðjón Ingi. "Af ákveðnum stærðum er verið að framleiða nóg en af öðrum ekki."

Bátum sem selja á markaði hefur fækkað

Helstu sölutímabil saltfisks eru haustin og páskafasta. "Það eru ákveðnar líkur á því að það komi til með að vanta fisk í páskasölu. Mikið selst af stórum fiski fyrir jólin og það lítur út fyrir að markaðurinn hafi fengið það sem hann þurfti fyrir jólasölu," segir Guðjón.

Gestur Ólafsson, einn eigenda útgerðar- og fiskvinnslufyrirtækisins Stakkavíkur í Grindavík, segir stefna í að framleiðsla á saltfiski verði á heildina litið minni í ár en undanfarið. Hugsanlega verði framleiðslan aðeins um helmingur af því sem verið hefur, en hún hafi ekki gefið nógu vel af sér.

"Í gegnum árin hefur verðið hækkað mest á haustin en sú hækkun hefur farið minnkandi," segir hann. Verðið í dag sé lægra en það var fyrir um þremur til fjórum árum. "Þá er orðið erfitt að ná í hráefnið í saltfiskinn í dag," segir Gestur. Samþjöppun á kvótum hafi leitt til þess að bátum sem selji á markaði hafi fækkað.