Atli Gíslason
Atli Gíslason
Eftir Atla Gíslason: "Við verðum með öllum tiltækum ráðum að sjá til þess að mannréttindabrotum gegn íslenskum konum linni, bæði kynbundnu ofbeldi og kynbundnum launamun."

Dýrmætustu mannréttindi sérhvers einstaklings eru friðhelgi einkalífs. Þessi réttindi eru varin af stjórnarskrá lýðveldisins Íslands og Mannréttindasáttmála Evrópu. Friðhelgin nær yfir heimili, fjölskyldu, persónulega hagi manns, en umfram allt að hver einstaklingur hefur rétt til lífs og rétt til að ráða yfir líkama og sálarlífi. Það eru brýnustu einkalífsréttindin. Þessi réttindi verða ýmist alls ekki skert eða aðeins samkvæmt dómsúrskurði, sérstakri lagaheimild eða upplýstu og ótvíræðu samþykki. Vart þarf að taka það fram að rétturinn til lífs og líkama þarf að samræmast sjálfsvirðingu manna, rétti til frelsis, mannhelgi og að einstaklingur þurfi ekki að þola ólögmætar þvinganir. Íslensk löggjöf endurspeglar og verndar þessi mannréttindi, nema þegar kynfrelsi á í hlut. Í kynfrelsi felst kynferðislegur sjálfsákvörðunarréttur, það er réttur til að velja og hafna kynferðismökum, hvar sem er, með hverjum sem er og hvenær sem er. Kynmök án samþykkis fela það í sér að sjálfsákvörðunarréttur kvenna er virtur að vettugi og réttur þeirra til sjálfsstjórnar brotinn á bak aftur.

Samanburður á ákvæðum hegningarlaga leiðir í ljós að kynfrelsi nýtur ekki sömu réttarverndar og önnur einkalífsréttindi. Það er til að mynda refsivert að hnýsast í bréf og ryðjast heimildarlaust inn í hús og hýbýli manna. Öðru máli gegnir þegar líkami og sálarheill konu á í hlut. Sé kynfrelsi konu skert verður refsing ekki dæmd nema ódæðismaðurinn hafi þröngvað henni til kynmaka með ofbeldi eða hótun um ofbeldi. Samkvæmt orðalagi 194. gr. almennra hegningarlaga um nauðgun skiptir verknaðaraðferðin mestu máli en afleiðingarnar, verndarhagsmunirnir og samþykkið eru nánast látin liggja á milli hluta. Þá er vægari refsing lögð við að nauðga geðveikri konu eða konu í áfengisdái samkvæmt 196. gr. alm. hgl. þótt verndarhagsmunirnir séu í raun meiri Verknaðurinn er reyndar skilgreindur sem misneyting en ekki nauðgun. Lagaákvæði um kynferðisbrot eru okkur til háborinnar skammar. Það má fullyrða kinnroðalaust að kynfrelsi kvenna njóti að lögum mun lakari réttarverndar en bréf, heimili og önnur einkalífsréttindi þvert á grunnhugsun að baki mannréttinda um friðhelgi einkalífs.

Tölulegar staðreyndir um kærur til lögreglu, ákærur og sakfellingar fyrir dómi sýna einnig svo ekki verður um villst að íslenska ríkið tryggir heldur ekki réttarvernd kynfrelsis í framkvæmd. Í dæmaskyni má nefna að á árinu 2003 bárust lögreglu 103 tilkynningar um nauðgun, ákært var í 16 málum, sakfellt í 5 en sýknað í 11. Aðeins 5 af 103 kærum leiddu sem sé til sakfellinga. Sambærilegar tölur blasa við frá fyrri árum og ástandið hefur ekkert skánað. Auk þess hafa fræðimenn staðreynt með rannsóknum að kynferðisbrot eru mun algengari en tilkynningar til lögreglu bera með sér.

Til samanburðar má benda á að tilkynningar um meiriháttar líkamsmeiðingar, brot gegn 2. mgr. 218. gr. alm. hgl., leiddu undantekningarlaust til ákæru árin 1999 og 2000 en árið 2001 var ákært í 91% mála. Ekki þarf að fjölyrða um það að nauðgunarbrot og afleiðingar þeirra geta verið alvarlegri og síður læknanlegar. Við rannsóknir nauðgunarmála hefur megináherslan verið lögð á líkamlegt ofbeldi og líkamlega áverka en rannsókn á grafalvarlegum og varanlegum andlegum afleiðingum er lítill sem enginn gaumur gefinn sem og meintu samþykki. Til marks um afleiðingar nauðgana má nefna að talið er að 60% til 70% kvenna með geðraskanir og kvenna sem leiðst hafa út í neyslu fíkniefna og/eða afbrot eða misst tök á lífi sínu með öðrum hætti eigi að baki sögu um kynferðislegt ofbeldi. Óhjákvæmilegar tímabundnar og varanlegar afleiðingar nauðgunar, sem er auðvelt að sannreyna, hafa engan veginn sama sönnunargildi við rannsókn lögreglu, ákæruútgáfu og dómsmeðferð og líkamlegar afleiðingar eftir aðrar líkamsmeiðingar. Framanritaðar staðreyndir sýna glöggt vettlingatök réttarvörslukerfisins gagnvart kynferðisbrotum sem eru einfaldlega óásættanleg.

Í mars 2005 lýsti Mannréttindanefnd Sameinuðu þjóðanna yfir áhyggjum sínum yfir ofbeldi gegn konum á Íslandi og þá sérstaklega vegna kynferðisofbeldis. Var einkum kvartað yfir hversu fáar kærur til lögreglu leiddu til ákæru og dómsmeðferðar. Eftirfarandi athugasemd gerði finnskur sérfræðingur mannréttindanefndarinnar:

" Were all the women lying og did authorities just not care? Was the message that women should just not report the cases because they would only get into trouble ."

Mannréttindi eru ekki aðeins réttindi sem vernda einstaklinga fyrir óþarfa afskiptum og þvingunum ríkisins. Í þeim felst jafnframt skuldbinding fyrir ríkið að tryggja að þau verði virk í reynd. Það hefur Mannréttindadómstóll Evrópu staðfest með tveimur dómum er varða kynferðislegt ofbeldi frá 26. mars 1985 og 4. desember 2003. Í fyrra málinu var hollenska ríkið talið hafa brotið mannréttindi þar sem kynferðisleg misnotkun á andlega fatlaðri stúlku var ekki refsiverð að hollenskum lögum. Í síðara málinu komst dómstóllinn að þeirri niðurstöðu að búlgarska ríkið hefði ekki staðið með fullnægjandi hætti að lögreglurannsókn og meðferð nauðgunarmáls og þar með ekki uppfyllt skyldur sínar samkvæmt Mannréttindasáttmála Evrópu um að gera mannréttindin virk í reynd. Það blasir við að íslenska ríkinu verði áður en langt um líður gert að verja hendur sínar fyrir Mannréttindadómstóli Evrópu vegna ófullnægjandi löggjafar um kynferðisbrot og vangetu réttarvörslukerfisins í heild ef ekki verður tafarlaust brugðist við og kynfrelsi kvenna tryggt. Dómsmálaráðuneytið stendur nú fyrir endurskoðun á löggjöfinni. Brýnt er að við þá endurskoðun verði kynmök án samþykkis gerð refsiverð enda fela þau í sér ofbeldi burtséð frá verknaðaraðferð. Það er í anda mannréttinda um friðhelgi einkalífs. Einnig verður að sjá til þess að skelfilegar andlegar afleiðingar nauðgana verði hafðar að leiðarljósi. Síðast en ekki síst verður að hverfa frá karllægri hugsun í þessum málaflokki og taka mið af reynsluheimi kvenna, þolendanna. Við verðum með öllum tiltækum úrræðum að sjá til þess að mannréttindabrotum gegn íslenskum konum linni, bæði kynbundnu ofbeldi og kynbundnum launamun. Þar duga ekki fögur orð á tyllidögum, bréfaskriftir, rannsóknir og ráðstefnur. Staðreyndirnar liggja fyrir og það er fyrir löngu kominn tími á raunhæfa löggjöf og virk réttarvörsluúrræði.

Höfundur er hæstaréttarlögmaður og varaþingmaður VG í Reykjavík.