STJÓRNVÖLD hafa enn á ný stórlega vanáætlað fjárveitingar til framhaldsskóla í fjárlagafrumvarpi ársins 2006 að mati stjórnar Félags framhaldsskólakennara sem gagnrýna stjórnvöld hvað þetta varðar. Hefur stjórnin ályktað um málið þar sem fram kemur m.a.

STJÓRNVÖLD hafa enn á ný stórlega vanáætlað fjárveitingar til framhaldsskóla í fjárlagafrumvarpi ársins 2006 að mati stjórnar Félags framhaldsskólakennara sem gagnrýna stjórnvöld hvað þetta varðar. Hefur stjórnin ályktað um málið þar sem fram kemur m.a. að á sama tíma og stytta eigi nám til stúdentsprófs sæki æ fleiri um inngöngu í skólana. Ekki sé hægt að skilja þessi áform örðuvísi en sem ásetning um að koma böndum á fjölda framhaldsskólanema til að spara í rekstri skólanna.

Bent er á að í fjárlagafrumvarpi 2004 hafi verið miðað við 16.220 nemendur og hefði Alþingi samþykkt 600 milljóna króna viðbótarframlag sem hefði verið notað að tveimur þriðju hlutum þeirra til að kenna þeim sem frumvarpið gerði ráð fyrir. Með góðum vilja hefði verið hægt að tala um 200 milljóna kr. viðbótarframlag sem kenna hefði mátt 400 nemendum fyrir. Mun hærra framlag hefði þó þurft að koma til í ljósi þess að rúmlega 23 þúsund nemar voru skráðir í framhaldsskóla haustið 2004. Í frumvarpi 2006 sé gert ráð fyrir 18.900 nemum.

Menntamálaráðuneytið segir í yfirlýsingu sinni vegna ályktunarinnar að fullyrðingar um stórlega vanáætlaðar fjárveitingar standist ekki. Rekstrarafgangur framhaldsskólanna árið 2004 hafi verið um 250 milljónir króna og útlit sé fyrir afgang 2005. Þá lýsir ráðuneytið því sem staðlausum fullyrðingum að það sé ásetningur fjárveitingavaldsins að koma böndum á fjölda framhaldsskólanema til að spara í rekstri skólanna. Fyrir liggi að á meðan nemum fæðingarárganganna sem vænta mátti í skólana á árunum 2000-2004 fjölgaði um 13,6%, fjölgaði ársnemum sem skólunum var greitt fyrir um 17,3%. Þess sé af einhverjum ástæðum ekki getið í ályktun stjórnar FF að í fjárlagafumvarpi 2006 hafi framlög til framhaldsskólastigsins aukin um 14,9% og aftur um 11,5% 2006.

Þá virðist því vera haldið fram að 6.780 nemar hafi verið vantaldir 2004 en þegar allt kom til alls var munur milli þess fjölda sem fjárlög gerðu ráð fyrir og þess fjölda sem var í skólunum 295 nemar sem hafi allir verið umfram fjárheimildir skólanna.