Fyrir skömmu flutti fyrirtækið Gluggar og klæðning ehf. í nýtt húsnæði við Völuteig í Mosfellsbæ og við það tækifæri var ný tölvustýrð gluggavinnsluvél tekin í notkun. "Við stefnum að því að fimmfalda framleiðsluna á næsta ári," segir Hallgrímur Óskarsson, framkvæmdastjóri fyrirtækisins.
Sex menn starfa hjá Gluggum og klæðningu við að smíða glugga og útihurðir. Framleiðslan er samkvæmt íslenskum staðli og hægt er að fá gluggana ísetta, glerjaða og fullmálaða og hurðirnar ísettar og fullfrágengnar. Ef óskað er mælir fyrirtækið einnig fyrir gluggum og hurðum. Eingöngu eru seldar hurðir með karmi.
Mörg verkefni
Að sögn Hallgríms eru hurðir um 30% framleiðslunnar og gluggar um 70%. Salan hefur fyrst og fremst verið á Suður- og Vesturlandi. "Við höfum einkum selt glugga á svæðinu frá Stykkishólmi og austur að Kirkjubæjarklaustri. Það hefur verið mjög mikið að gera, við erum með mörg verkefni og útlitið er bjart framundan. Við seljum fyrst og fremst til verktaka sem reisa hús og steypa í glugga og er um fimm til sex vikna afgreiðslufrestur hjá okkur. Eins er töluvert um það að við seljum til einstaklinga, bæði í nýtt og gamalt húsnæði. Við sérsmíðum allar stærðir en erum með staðlaða framleiðslu og því er ákveðið form á körmum og fögum. Við höfum haft undirverktaka til að koma gluggum og hurðum fyrir hjá einstaklingum en hann hefur meira en nóg að gera og er biðtíminn nokkrir mánuðir. Viðskiptavinir hafa reynt að bregðast við með því að útvega sjálfir smiði en það er ekki alltaf hlaupið að því. Það varð sprenging á markaðnum í ár og árið hefur því verið engu líkt."
Afkastamikil og nákvæm vél
Gólfrými fyrirtækisins tæplega fimmfaldaðist við flutninginn, fór úr 120 fermetrum í 540 fermetra, og má ekki minna vera, að sögn Hallgríms. "Nýja vélin tekur mikið pláss og hún er líka afkastamikil," segir hann. "Áður smíðuðum við fimm til sex glugga á dag en með nýju vélinni eigum við að geta farið í 45 glugga á dag. Við afköstum núna um 20 gluggum daglega og það er raunhæft að tala um að fara í 30 glugga."Nýja vélin, SCM Windor 40R, er frá Ítalíu og kostaði um 30 milljónir króna. "Við lyftum okkur á mun hærri stall með þessari vél sem er með þeim betri í landinu," segir Hallgrímur. "Hún er algerlega sjálfvirk og ótrúlega nákvæm."
Hjörtur P. Jónsson, sölustjóri hjá Iðnvélum í Hafnarfirði, umboðsfyrirtæki SCM, segir að tvær svona vélar séu hérlendis og um sé að ræða fullkomnustu gluggaframleiðsluvélar landsins. "Þessi vél afkastar 45 gluggum og 90 fögum á 8 tímum," segir hann og bætir við að í vélinni séu fimm 320 til 620 mm spindlar, yfirfræsir með sjálfvirkum 24 verkfæra verkfæraskipti og glerlistasög. Allir spindlarnir eru tölvustýrðir og er nákvæmnin 0,05 úr mm. Staðsetningarhraði er mestur 100m/mín.