Jón Valur Jensson
Jón Valur Jensson
Jón Valur Jensson fjallar um Framsóknarflokkinn og samkynhneigða: "Ljóst er að tölurnar djörfu um fjölda samkynhneigðra eru nálægt fjórum eða jafnvel 5-10 sinnum hærri en erlendar kannanir gefa vísbendingar um."

MUNDI það skipta sköpum fyrir gengi Framsóknarflokksins að laða til sín hluta af atkvæðum samkynhneigðra, ef hommar og lesbíur eru í reynd 1% kjósenda? Það mætti Reynir Þór Eggertsson hugleiða, sá sem skrifaði í Mbl. 17. þ.m. gegn tveimur samflokksmönnum sínum, en þeir hafa lýst sínum eðlilegu óskum um að flokkurinn styðji við kristin gildi.

Æ meir hallast ég að því, að hlutfall samkynhneigðra á Íslandi nái naumast 2,2%, eins og meðaltalið bendir þó til úr ýmsum könnunum frá árunum 1994-2004 í Bandaríkjunum, Bretlandi og Hollandi (sjá grein mína í Fréttabl. 28.4., í lengri gerð á kirkju.net). Tel ég alls ekki ólíklegt að hlutfallið sé í raun um eitt prósent, eins og ýmsar aðrar erl. kannanir benda til, í fyrsta lagi könnun kanadískra stjórnvalda 2003, þar sem 1,3% karla 18-59 ára og 0,7% kvenna töldu sig samkynhneigð; í öðru lagi könnun sem fjallað var um í N.Y.T. 15.4. 1993 í greininni Sex Survey of American Men Finds 1% Are Gay (náði aðeins til karla; þó eru þeir með hærri tíðnitölur í þessu en konur). Í þriðja lagi rannsóknir í Bretlandi, BNA og Frakklandi (Stall o.fl. 1990, Sell o.fl. 1995) þar sem meðalhlutfall karla sem höfðu eingöngu mök við sama kyn næstu fimm ár á undan var 0,87%, en hjá konum 0,32%.

Í fjórða lagi er vitað að samkynhneigð er algengust í "þróuðu" stórborgarlífi og fágæt í dreifðari byggðum. Íslenzkt samfélag er trúlega enn sem komið er nær uppruna sínum en þéttbýlið í engilsaxneskum löndum. Ég geri mér þó grein fyrir því, að tíðni samkynhneigðar getur hækkað hér, ef menn leiðast inn í hana fyrir áhrifagirni sakir eða hún fer að þykja 'svöl' og komast í tízku, eins og dæmi og teikn eru um, enda er þessi kynlífsháttur ekki bundinn við arfgengi, heldur getur komið og farið; jafnvel Kinsey-stofnunin viðurkenndi með rannsókn birtri 1970 að 84% samkynhneigðra höfðu skipt um kynhneigð a.m.k. einu sinni, 32% tvisvar og 13% fimm sinnum! Í fimmta lagi vekur athygli að í árslok 2004 eru í mesta lagi 96 pör í staðfestri samvist á Íslandi, þrátt fyrir að það lögverndaða sambýlisform hafi þá verið leyft undangengin átta og hálft ár.

Í sjötta lagi má líta til þess hve sárafáir félagsmenn hafa verið í Samtökunum '78: 1999 var fjöldi þeirra svipaður og fyrri ár eða 185 (Samtakafréttir, marz 1999, s. 14). Væri svo, sem málsvarar þessa hóps halda blákalt fram, að samkynhneigðir, fullorðnir Íslendingar séu 15-20.000 manns, jafnvel enn fleiri, þá hlyti félag þeirra að teljast með eindæmum fámennt, að hafa ekki nema um 1% allra homma og lesbía innan sinna vébanda! Þessi smæð samtakanna hefur þó ekki komið í veg fyrir að í þau hefur verið dælt háum fjárhæðum af almannafé (vel á þriðja tug milljóna); þar að auki eru alþingismenn á skipulögðu undanhaldi að gefast upp fyrir kröfuhörku þeirra, sem auðvitað óx ásmegin með styrkjaflóðinu.

Veit ég vel, að "rannsóknir" skordýrafræðingsins dr. Alfreds Kinseys á kynlífsháttum fólks, sem fram fóru fyrir 55-65 árum, urðu baráttuliði samkynhneigðra átylla til þess síðar að halda 10%-tölunni sem heilögum sannleik að bandarísku þjóðinni. En sú rannsókn byggðist á sjálfboðaliðum og ódæmigerðum þjóðfélagshópum, m.a. leitað sérstaklega á samkomustaði samkynhneigðra; einnig var þar fjöldi kynferðisbrotamanna, og 26% þátttakenda voru refsifangar, en könnunin að auki framkvæmd á hlutdrægan, jafnvel óskammfeilinn hátt (einkum á ungbörnum). Eins og þetta væri ekki nóg voru niðurstöður Kinseys oftúlkaðar af síðari tíma baráttumönnum, m.a. með því að fullyrða að 10% fólks væru samkynhneigð. En 10%-talan í Kinsey-skýrslunni (byggð eins og hún var á öllum hans ranggefnu forsendum) var niðurstaða hans um karlmenn sem samkynhneigðir hefðu verið þrjú ár milli 16 og 55 ára aldurs; hins vegar taldi hann að 4% karla væru alfarið hommar allan sinn fullorðinsaldur.

Rannsóknirnar sem ég gerði grein fyrir í Fréttablaðinu og hér ofar eru hins vegar nýlegar og ólíkt vandaðri en falsiblandin Kinseyskýrslan og mistúlkanir hennar. En fyrir þeim gervivísindum falla þó tvær íslenzkar félags- og kynjafræðakonur kylliflatar (RT og ÞÞ), sem sést í pistlum þeirra á Vísindavefnum. Aðrir apa svo upp villuna! Alvöruþrungnar staðhæfingar þessa fólks með fræðaskikkju á herðunum, þess efnis að 10% Íslendinga séu hommar og lesbíur, eru grátbroslegar og ekki mark á þeim tekið í fræðaheiminum.

Ekki held ég því fram að samkynhneigðir Íslendingar séu svo fáir sem 200 (sbr. 5.-6. lið hér ofar). Jafnvel einungis 1% fullorðinna er 2.200 manns (að öldungum meðtöldum). En ljóst er að tölurnar djörfu um fjölda homma og lesbía eru nálægt fjórum eða jafnvel 5-10 sinnum hærri en nýlegar erlendar kannanir gefa vísbendingar um.

Það hefði einhvern tímann þótt saga til næsta bæjar að Framsóknarflokkurinn ætti erfitt með að gera það upp við sig hvort hann vildi fylgja kristnu siðgæði eða elta uppi kröfur samkynhneigðra. Nú mega góðir þingmenn hugsa sinn gang og gæta þess að enda ekki í því öngstræti að verða viðskila við trúar- og siðferðisvitund þjóðarinnar eða leiðsögn sinnar eigin stjórnarskrár sem styður og verndar kristinn sið í landinu.

Höfundur er guðfræðingur.