Hrefna Sigurjónsdóttir
Hrefna Sigurjónsdóttir
Hrefna Sigurjónsdóttir fjallar um Reykjanesfólkvang.: "Ég skora á forystumenn sveitarfélaganna og þingmenn svæðisins að hittast til að ræða mál fólkvangsins og einnig framtíðarsýn þeirra hvað varðar Reykjanesið."

Reykjanesfólkvangur var stofnaður og friðlýstur fyrir 30 árum, fyrst og fremst til útivistar. Hann er um 300 ferkm á stærð. Kleifarvatn er í miðju fólkvangsins, Brennisteinsfjöll við austurmörkin, Búrfellsgjá í norðaustri, um Grindarskörð, vestan við Helgafell og um Undirhlíðar að Vatnsskarði, síðan liggja mörkin norðan við Fjallið eina, að Mávahlíðum, vestan í Trölladyngju og svo vestan í Vesturhálsi að Selatöngum. Suðurmörkin liggja meðfram ströndinni að Herdísarvík. Náttúruverndargildi er töluvert, sérstaklega út frá jarðfræði þess og þeirri staðreynd að svæði sem minnir á hálendi Íslands og er enn tiltölulega óraskað er mjög nálægt byggð. Stjórn Reykjanesfólkvangs er skipuð pólitískum fulltrúum meirihluta Reykjavíkur, Hafnarfjarðar, Grindavíkur, Kópavogs, Seltjarnarness og Reykjanesbæjar. Grindavík og Hafnarfjörður eiga mestallt landið. Stjórnin hélt málþing í september sl. þar sem rædd var staða og framtíð svæðisins og opnuð heimasíða þar sem er meðal annars bent á fjölmargar gönguleiðir. Skýrsla um fólkvanginn, sem Sigrún Helgadóttir náttúrufræðingur vann fyrir stjórnina, var þar kynnt. Mikill samhljómur var meðal manna að þarna væri fjársjóður sem hefði gleymst og tími væri til kominn að byggja svæðið upp sem stórkostlegt útivistarsvæði fyrir höfuðborgarbúa og aðra landsmenn og svæði fyrir ferðamenn.

Stjórninni barst nýlega erindi frá Umhverfisstofnun þar sem óskað var eftir umsögn um umsókn Hitaveitu Suðurnesja hf. um rannsóknarleyfi vegna áætlaðra rannsókna á jarðhita á Reykjanesskaga innan fólkvangsins. Hitaveitan óskar einnig eftir loforði um forgang að nýtingarleyfi. Rannsóknarsvæðið er alls 293 ferkm. Tilgangur þessarar orkuöflunar virðist eingöngu vera til að koma til móts við þarfir álvers við Helguvík sem Norðurál hyggst reisa 2008 og hefja framleiðslu áls 2010. Stjórnin sendi þessa umsögn til Umhverfisstofnunar hinn 25. janúar og samdægurs fengu allir þingmenn SV-, S- og Reykjavíkurkjördæmanna sent afrit.

Ljóst er að um er að ræða stórmál á landsvísu. Margt kemur til. Í fyrsta lagi hefur umræða síðustu vikna snúist mikið um það að tími sé kominn til að endurskoða áform um virkjanakosti og þá í þá veru að oft sé heppilegra að virkja jarðvarmann en vatnsaflið. Það verður þó að segjast að umræða um umhverfisáhrif jarðvarmavirkjana hefur verið afar lítil. Í öðru lagi er það spurningin um stóriðjustefnu þessarar ríkisstjórnar. Í þriðja lagi er það spurningin um hvað það þýðir í raun að friðlýsa land. Undanþáguákvæði og réttindi landeigenda virðast oft vega ansi þungt þegar seilst er inn á friðlýst svæði. Allt eru þetta atriði sem þarf að ræða mun meira bæði á Alþingi og í fjölmiðlum.

Stjórnin hefur verið trú þeim markmiðum sem sett voru með stofnun fólkvangsins, þ.e. að þarna eigi að vera athvarf útivistarmannsins til að njóta náttúrunnar, og henni hefur verið sárt um stöðu gróðurs innan fólkvangsins, sem er slæm. Hún hefur af þessum sökum ekki samþykkt óskir bifhjólamanna um að fá æfingasvæði innan fólkvangsins, hún mótmælti skemmdum á Arnarfelli vegna kvikmyndatöku sl. sumar og einnig því að sett yrði upp beitarhólf fyrir fé. Þessi mál eru þó lítilvæg miðað við fyrirætlanir Hitaveitu Suðurnesja um að leggja meirihluta fólkvangsins undir tilraunaboranir með tilheyrandi raski. Tilgangurinn er að finna bestu staðina til að reisa allt að fjórar 100MW virkjanir á rannsóknarsvæðinu til að afla rafmagns fyrir álver Norðuráls í Helguvík. Þessir fjórir staðir yrðu líklega við Trölladyngju, við Sandfell (í vesturjaðri fólkvangsins), við Seltún (í Sveifluhálsinum og við suðurenda Kleifarvatns) og í Brennisteinsfjöllum. Hver slík virkjun þýðir að svæði á stærð við Kleifarvatn eða um 10 ferkm yrði undirlagt undir ýmiss konar mannvirki. Augljóslega myndu þessi mannvirki og tilheyrandi rask rústa fólkvanginum.

Þrátt fyrir að ákvæði um nýtingu jarðvarma hafi verið sett í friðlýsinguna getur engum hafa dottið í hug að unnt væri að leggja allt svæðið undir í þeim tilgangi. Stjórnin óskar þess helst að öllu svæðinu verði þyrmt. Engu að síður samþykkti hún í umsögn sinni til Umhverfisstofnunar að gefa grænt ljós á tilraunaboranir á einu svæði í þeirri von að öðrum svæðum, og þá sérstaklega Brennisteinsfjöllum, verði þyrmt og að framkvæmdaaðili leggi til fé að byggja upp fræðslusetur í fólkvanginum. Svæðið er Seltún og umhverfi þess, þ.e. við Krýsuvík sjálfa og engi sunnan við Kleifarvatn. Vegagerð myndi verða tiltölulega lítil, land er þarna töluvert raskað og ónýt mannvirki eru í nágrenninu. Hafnfirðingar eiga landið og bæjarstjórinn hefur lýst því yfir að þeir vilji virkja innan fólkvangs.

Ég skora á forystumenn sveitarfélaganna og þingmenn svæðisins að hittast til að ræða mál fólkvangsins og einnig framtíðarsýn þeirra hvað varðar Reykjanesið. Við höfuðborgarbúar gleymum því nefnilega hversu stórkostlegt svæði nesið er og hversu mikilvægt er að varðveita náttúru þess fyrir komandi kynslóðir.

Höfundur er líffræðingur og formaður stjórnar fólkvangsins (fulltrúi Reykjavíkur).