— Ljósmyndari / Vilhelm Gunnarsson
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Eftir Margréti Þóru Þórsdóttur maggath@mbl.is TVÖ verk eru á efnisskránni á tónleikum Sinfóníuhljómsveitar Norðurlands sem verða í Glerárkirkju á morgun, sunnudaginn 29. janúar kl. 16. Þetta eru fyrstu tónleikar sveitarinnar á nýbyrjuðu ári.
Eftir Margréti Þóru Þórsdóttur maggath@mbl.is

TVÖ verk eru á efnisskránni á tónleikum Sinfóníuhljómsveitar Norðurlands sem verða í Glerárkirkju á morgun, sunnudaginn 29. janúar kl. 16. Þetta eru fyrstu tónleikar sveitarinnar á nýbyrjuðu ári. Annars vegar minnist hljómsveitin þess að 250 ár eru um þessar mundir liðin frá fæðingu W. A. Mozarts og flytur óbókonsert í C-dúr eftir þennan einn mesta tónsnilling allra tíma, en hitt verkið sem hljómsveitin leikur er Sinfónía nr. 1 í c-moll eftir Johannes Brahms. Einleikari á óbó verður Daði Kolbeinsson en stjórnandi hljómsveitarinnar er Guðmundur Óli Gunnarsson.

Daði er fyrsti óbóleikari Sinfóníuhljómsveitar Íslands en leikur nú í fyrsta sinn með Sinfóníuhljómsveit Norðurlands. "Það er mikill fengur í því að fá Daða til liðs við okkur, hann er óbóleikari í fremsta flokki og ég get lofað því að það verður fallegur Mozart sem menn fá að heyra á tónleikunum, það verður enginn svikinn," segir Guðmundur Óli.

Hann segir konserta Mozarts þægilega áheyrnar, enda hafi þeir verið skrifaðir sem skemmtitónlist. "Þetta er stórkostleg tónlist og það gerir það að verkum að menn eru að halda upp á 250 ára fæðingarafmæli hans. Öll verk Mozarts bera snilligáfu hans vitni, það er eitthvað guðdómlegt í þeim, þau eru ekki venjuleg."

Ástæða þess að óbókonsertinn var valinn á efnisskrána segir hljómsveitarstjórinn m.a. vera þá að tími hafi verið kominn til að fá Daða til að leika einleik með hljómsveitinni, en að auki hafi verkið rímað vel við 1. sinfóníu Brahms. Sinfóníuhljómsveit Norðurlands hefur áður flutt tvær af fjórum sinfóníum Brahms. "Þá eigum við eina eftir sem vonandi verður spiluð á næsta ári," segir Guðmundur Óli. Sinfóníur Brahms eru stórar og miklar, "og eru eiginlega hver fyrir sig heill heimur." Stjórnandinn segir Brahms sporgöngumann Beethovens. "Hann var mjög meðvitaður um að hans sinfóníur væru framhald af sinfóníum Beethovens, enda er þessi fyrsta sinfónía Brahms stundum kölluð 10. sinfónía Beethovens." Brahms var kominn nokkuð á aldur þegar hann lauk við þessa sinfóníu og gaf hana út. Aðspurður um af hverju hann hefði ekki sent frá sér slík verk fyrr sagði hann ekki auðvelt að skrifa sinfóníu þegar maður heyrði ávallt fótatak risans að baki sér.

"Þetta eru ólík verk, en ríma ágætlega saman, þau mynda jafnvægi í efnisskránni." Tónleikarnir nú á morgun eru "stóru sinfóníutónleikar hljómsveitarinnar í vetur," eins og Guðmundur Óli orðar það. Um 45 hljóðfæraleikarar taka þátt, flestir af Norðurlandi en einnig koma hljóðfæraleikarar af Reykjavíkursvæðinu til liðs við hljómsveitina að þessu sinni. "Þetta eru flottar sinfóníur, það má segja að kosturinn við það að halda sjaldan tónleika af þessu tagi sé að maður getur leyft sér að velja aðeins það besta."