Auður Leifsdóttir
Auður Leifsdóttir
Auður Leifsdóttir fjallar um styttingu náms til stúdentsprófs: "Til þessa hefur íslenskum stúdentum ekki verið hafnað fyrir of litla tungumálakunnáttu fyrir danska háskóla en þetta er að gerast núna."

TILEFNI greinar minnar eru áform menntamálaráðherra um styttingu náms til stúdentsprófs um eitt ár.

Stærsti hluti þeirra íslensku námsmanna sem stunda nám erlendis er í skólum á Norðurlöndum. Tölur frá Lánasjóði íslenskra námsmanna sýna að þangað er ásóknin margföld miðað við önnur lönd, og eykst hún með ári hverju. Þannig sóttu fyrir skólaárið 2002-03 998 einstaklingar um lán til náms í Danmörku, árið 2003-04 voru umsækjendurnir 1.066 talsins og árið 2004-05 var þessi tala 1.216. Sömu tölur fyrir Noreg og Svíþjóð eru 209 (02/03), 214 (03/04) og 230 (04/05). Samanlagt er þetta stór hópur sem þjóðin hefur átt kost á að mennta án þess að þurfa að greiða himinhá skólagjöld eins og tíðkast víðast hvar utan Norðurlandanna. Til samanburðar eru sömu tölur þessi ár fyrir Bandaríkin 507, 412 og 374 og England 228, 223 og 244.

Fyrir margar sakir eru Norðurlönd fýsilegur kostur fyrir íslenska námsmenn. Þar telst það, eins og á Íslandi, bæði sjálfsagt og eðlilegt að fólk í námi stofni fjölskyldur og eigi aðgang að dagvistun og skólum fyrir börnin. Þetta líta margar aðrar Evrópuþjóðir, sem við berum okkur gjarnan saman við, öðrum augum. Norrænu samfélögin eru lík og því hefur flest okkar fólk verið nokkuð fljótt að "læra að synda" hinum megin Atlantsála.

Óþarft er að tíunda menningarleg og söguleg tengsl Íslands og Danmerkur, sem og hinna Norðurlandanna. Hins vegar er það staðreynd að við Íslendingar höfum notið sérstakrar velvildar, átt forgang fram yfir námsmenn annars staðar að úr heiminum, í skóla hjá frændum okkar á Norðurlöndum. Þetta á sér margar ástæður, en ein er sú, að til þessa hefur verið hægt að ganga að því vísu að í samræmi við íslensku námsskrána búi íslensk ungmenni yfir góðri undirstöðuþekkingu á einu norðurlandamáli.

Allt útlit er nú fyrir að möguleikar íslenskra ungmenna til að stunda nám í hinum Norðurlandaþjóðunum muni breytast. Með nýrri námsskipan til stúdentsprófs fækkar kennslustundum í dönsku verulega, eða um þriðjung hjá málabrautanemendum og um helming hjá öðrum nemendum, miðað við núverandi tímafjölda. Með þetta veganesti mun enginn venjulegur íslenskur nýútskrifaður stúdent geta staðist "Den Store Danskprøve" sem aðrir námsmenn en íslenskir hafa þurft að taka áður en þeir hafa fengið inngöngu í háskóla í Danmörku og samsvarar eins árs námi í málaskóla í Danmörku.

Í fyrirhuguðum breytingum er gert ráð fyrir að færa hluta af námsefni framhaldsskólanna í dönsku yfir í efri bekki grunnskólans. Slík ákvörðun er tekin af þekkingarleysi um tungumálakennslu og málþroska barna. Það er á framhaldsskólaaldrinum sem reynsluheimur ungmenna stækkar og málþroskinn fylgir því ferli. Það er ekki hægt að tala "fullorðinsmál" á útlensku ef þú talar "barnamál" á þínu eigin móðurmáli.

Margir telja, að til að stunda nám á Norðurlöndum þurfi menn ekki að kunna dönsku, bara ensku, því flestir skólar sem eftirsókn er í bjóði námsbrautir á bæði dönsku og ensku. Þetta er að vissu leyti rétt, en eftir sem áður gera skólar, eins og t.d. Copenhagen Business School og Danmarks Tekniske Universitet, þar sem margar námsbrautir eru á ensku, líka kröfu um að nemendur hafi undirstöðuþekkingu á einu norðurlandamáli.

Til þessa hefur íslenskum stúdentum ekki verið hafnað fyrir of litla tungumálakunnáttu fyrir danska háskóla en þetta er að gerast núna. Stúdentar af náttúrufræðibrautum hafa ekki lært nægilega mikið í tungumálum og stúdentar af málabrautum hafa ekki lært nógu mikla stærðfræði.

Hugtök sem hvað mest hafa verið til umræðu undanfarið eru alþjóðavæðing og útrás. Ég leyfi mér að draga það stórlega í efa að útrás Íslendinga í fyrirtæki og samsteypur á Norðurlöndum sl. tvö ár hefðu gengið jafn vel ef þeir sem unnið hafa hið innra starf fyrirtækjanna hefðu ekki lagt sig eftir að læra tungumál þarlendra. Samningar og fyrirlestrar eru undantekningalítið á ensku, en hin mannlegu tengsl og traustið sem verður að vera í viðskiptum, það "gerist" á tungumálinu sem tengist okkar sameiginlegu norrænu rótum.

Ég vil að endingu leyfa mér að hafa eftir það sem Svavar Gestsson, sendiherra Íslands í Danmörku, sagði um samskipti okkar við hinar Norðurlandaþjóðirnar en áður var hann sendiherra Íslands í Svíþjóð (Mbl. sun. 15. jan. bls. 2):

"Svavar sagði að Danmörk væri landið sem Íslendingar leituðu fyrst til, enn þann dag í dag, þrátt fyrir liðlega sextugt lýðveldi. Í Danmörku væru um eitt þúsund íslenskir stúdentar í námi - en um 150 í Svíþjóð og um 70 í Noregi.

"Hér búa um tíu þúsund Íslendingar, hingað koma fjórar til fimm flugvélar á dag fullar af fólki og hér eru íslenskir menningarviðburðir svo algengir að það er ekki nokkur leið að hafa tölu á þeim. Svo má kannski bæta því við, eins og til skýringar, að fjárfesting íslenskra aðila er alltaf til orðin í góðri samvinnu við fyrirtæki og banka.""

Ég vona að yfirvöld menntamála á Íslandi beri gæfu til að endurskoða stefnu sína varðandi styttingu náms til stúdentsprófs.

Höfundur er dönskukennari við Kvennaskólann í Reykjavík og formaður Félags dönskukennara.