*ÁGÚSTA Pálsdóttir , lektor við bókasafns- og upplýsingafræðiskor Háskóla Íslands, varði doktorsritgerð sína í bókasafns- og upplýsingafræði við Åbo Akademi University í Åbo í Finnlandi 9. desember sl.
*ÁGÚSTA Pálsdóttir , lektor við bókasafns- og upplýsingafræðiskor Háskóla Íslands, varði doktorsritgerð sína í bókasafns- og upplýsingafræði við Åbo Akademi University í Åbo í Finnlandi 9. desember sl. Ritgerðin ber titilinn Health and Lifestyle: Icelanders Everyday Life Information Behaviour.

Markmið rannsóknarinnar var að afla þekkingar á því hvernig Íslendingar notfæra sér upplýsingar um heilsu og lífsstíl og hvaða þættir hafa áhrif þar á. Í rannsókninni voru tengslin milli upplýsingahegðunar, skynjaðrar heilsustjórnunar (health self-efficacy) og heilsuhegðunar, þ.e. mataræðis og hreyfingar, rannsökuð. Megináhersla var lögð á að rannsaka upplýsingahegðun: hvatningu til að afla upplýsinga um heilsu og lífsstíl; hversu algengt það er að fólk afli upplýsinga; hvar; og með hvaða hætti upplýsinga er aflað; mat fólks á gildi upplýsinga í mismunandi upplýsingamiðlum; og hvaða þættir geta örvað eða hindrað fólk við að afla upplýsinga.

Gagna var aflað með póstkönnun meðal Íslendinga á aldrinum 18 til 80 ára. Tekið var 1.000 manna úrtak á öllu landinu með tilviljunaraðferð. Svarhlutfall var 51%. Góð samsvörun reyndist vera milli þýðis og svörunar. Þátttakendur voru dregnir í fjóra hópa og var byggt á því hversu oft þeir leituðu upplýsinga um heilsu og lífsstíl af ásettu ráði.

Niðurstöðurnar sýna að í þeim hópi þar sem heilsuhegðun var verst einkenndist upplýsingahegðunin af því að hópurinn leitaði sjaldnast upplýsinga um heilsu og lífsstíl, auk þess sem fólk skynjaði minnstan hvata til að afla upplýsinga og mestar hindranir varðandi upplýsingaöflun. Jafnframt reyndist trú þessa hóps á eigin getu til að stjórna heilsu sinni (health self-efficacy) vera lítil. Aukin upplýsingaöflun tengdist betri heilsuhegðun. Í þeim hópi þar sem heilsuhegðun var best einkenndist upplýsingahegðun hins vegar ekki af því að hópurinn leitaði oftast að upplýsingum heldur af gagnrýnu vali á heimildum og því að fólk skynjaði minnstar hindranir varðandi upplýsingaöflun, auk þess sem trú þessa hóps á eigin getu til að stjórna heilsu sinni reyndist vera mikil. Niðurstöður rannsóknarinnar gefa vísbendingu um að tengsl séu milli upplýsingahegðunar varðandi heilsu og lífsstíl, skynjaðrar heilsustjórnunar og heilsuhegðunar.

Leiðbeinandi Ágústu var dr. Mariam Ginman, prófessor við Åbo Akademi University í Åbo í Finnlandi. Andmælandi við vörnina var dr. Paul Solomon, prófessor við University of North Carolina at Chapel Hill. Í dómnefnd sátu dr. Harriet Silius, dr. Andreas Häger og dr. Gunilla Widén-Wulff.