Sigurjón Þórðarson
Sigurjón Þórðarson
Sigurjón Þórðarson fjallar um íslenskan skipasmíðaiðnað: "Nú er að vona að iðnaðarráðherra taki af skarið og hrindi tillögunum í framkvæmd."

Á UNDANFÖRNUM misserum hefur farið fram umræða um framtíð íslenska skipasmíðaiðnaðarins í kjölfar þess að íslensk stjórnvöld sendu varðskipin til viðgerða í Póllandi.

Ég ákvað að fylgja því eftir hvers vegna í ósköpunum íslensk stjórnvöld með Björn Bjarnason í broddi fylkingar sendu skipin úr landi þrátt fyrir að hagstæð tilboð bærust frá íslenskum skipasmíðastöðvum. Niðurstaðan varð sú að eftir að búið var að taka tillit til ýmis kostnaðar við að sigla til Póllands, ferðalaga, ferðakostnaðar, eftirlits og aukaverka reyndist íslenska tilboðið frá Slippstöðinni á Akureyri sem var hafnað síður en svo óhagstæðara en hið pólska, og alveg örugglega ekki ef ýmis þjóðhagslegur ávinningur væri tekinn með í reikninginn.

Skýrslubunki iðnaðarráðherra

Á undanförnum árum hefur iðnaðarráðherra látið gera nokkrar skýrslur um samkeppnishæfni íslensks skipasmíðaiðnaðar þar sem einnig eru tíunduð margfeldisáhrif iðnaðarins á efnahagslífið.

Í skýrslunni sem kom út fyrir um ári var að finna áhugaverðar tillögur um úrbætur sem myndu jafna samkeppnisstöðu íslenska skipasmiðaiðnaðarins.

Markmið tillagnanna var að íslenskur skipasmíðaiðnaðar stæði jafnfætis í samkeppni við evrópskan. Í skýrslunni voru tvær megintillögur, annars vegar að hækka endurgreiðslur af aðflutningsgjöldum úr 4,5 í 6,5% og hins vegar að fara sömu leið og Evrópusambandið, þ.e. að skilgreina skipasmíðaiðnaðinn sem hátækniiðnað. Þá mætti hækka styrki allt upp í 20% ef þeim væri varið til hönnunar og hátækni í iðnaðinum en jafnframt þyrfti auðvitað að tryggja að styrkirnir væru notaðir til þeirra verka.

Ráðherra gerir ekkert nema hækka rafmagnið

Valgerður Sverrisdóttir sagði fyrir ári eða svo að hún ætlaði að fylgja framangreindum tillögum fast eftir. Enn gerist samt ekkert. Hið eina sem hefur gerst frá þeim tíma þegar ráðherra lýsti því digurbarkalega yfir að það ætti að fylgja tillögunum fast eftir er að rafmagnið hefur verið hækkað á iðnaðinn í landinu.

Um eitt þúsund manns störfuðu við skipasmíðar þegar mest var en hefur nú hríðfækkað, m.a. vegna þess að stjórnvöld hafa beinlínis beitt sér fyrir aðgerðum sem hafa skekkt samkeppnisstöðu íslensks iðnaðar. Það er illa gert af ráðamönnum að gefa í skyn að það eigi að bæta samkeppnisstöðu íslenskra skipasmiða en síðan gerist ekki nokkur skapaður hlutur.

Nú er að vona að iðnaðarráðherra taki af skarið og hrindi tillögunum í framkvæmd.

Höfundur er alþingismaður.