Ísraelsstjórn tilkynnti í gær, að hún hefði útilokað viðræður við Hamas-samtökin í Palestínu og skoraði á erlend ríki að viðurkenna ekki stjórn "hryðjuverkasamtaka".

Ísraelsstjórn tilkynnti í gær, að hún hefði útilokað viðræður við Hamas-samtökin í Palestínu og skoraði á erlend ríki að viðurkenna ekki stjórn "hryðjuverkasamtaka".

Þessi hryðjuverkasamtök unnu sem kunnugt er meiriháttar sigur í lýðræðislegum kosningum í Palestínu og hefur enginn borið brigður á, að þær hafi farið fram með réttum hætti.

Smátt og smátt er að koma skýrar fram, að Fatah-hreyfingin, sem stjórnað hefur á þessum slóðum, hefur verið gjörspillt.

Það hefur áður gerzt í okkar samtíma, að einstaklingum og hreyfingum hefur verð lýst sem hryðjuverkamönnum og hryðjuverkasamtökum.

Ef Morgunblaðið frá sjötta áratugnum er lesið má sjá reglulegar fréttir á forsíðu um hryðjuverkamanninn Jomo Kenyatta í Kenýa og hryðjuverkahreyfingu hans Mau-Mau.

Svo kom að því að Kenyatta var kjörinn forseti Kenýa í lýðræðislegum kosningum og gegndi því embætti í áratugi. Hann varð virtur gestur Elísabetar Englandsdrottningar.

Sú var tíðin að miklar fréttir bárust frá Suður-Afríku af hryðjuverkamanninum Nelson Mandela. Að lokum tókst að loka hann inni í fangelsi þar sem hann sat í aldarfjórðung.

Að fangelsisvistinni lokinni varð hann forseti Suður-Afríku, eftirsóttur gestur bæði í London og Washington og raunar hvar sem er í heiminum. Margir telja, að Nelson Mandela hafi verið einn af merkustu stjórnmálaleiðtogum 20. aldarinnar.

Að þessu er ekki vikið til þess að draga úr því að Hamas-samtökin hafi framið voðaverk. Það gerði Fatah-hreyfingin líka á fyrstu árum sínum undir stjórn Arafats. Og það hafa Ísraelsmenn líka gert.

En alveg með sama hætti og hinn herskái Sharon varð að lokum sá leiðtogi Ísraels, sem mestar vonir voru bundnar við varðandi frið í Mið-Austurlöndum, er ekki hægt að útiloka, að hin herskáa Hamas-hreyfing, sem augljóslega nýtur stuðnings meirihluta Palestínumanna, verði áhrifamesta friðarhreyfingin í Palestínu.