Víkverji er mikill fréttafíkill og reynir að fylgjast vel með hvað er að gerast hér á landi og úti í hinum stóra heimi.

Víkverji er mikill fréttafíkill og reynir að fylgjast vel með hvað er að gerast hér á landi og úti í hinum stóra heimi. Það fer mjög í taugarnar á Víkverja þegar reglulega eru rifjaðar upp gamlar fréttir og þær gerðar að miklu máli, þó svo að ekkert nýtt hafi komið fram í þeim málum sem "fréttin" fjallar um. Blaðið sló upp á forsíðu í vikunni gamalli frétt um fangaflug Bandaríkjamanna - frétt frá því í haust, sem er byggð á skýrslu svissneska öldungadeildarþingmannsins Dicks Martys. Það var eins og við manninn mælt; ríkisútvarpið, RÚV, tók upp málið á nýjan leik eftir að fréttin kom í Blaðinu og kallaði til sömu alþingismennina og kallaðir voru til fyrir fjórum mánuðum til að ræða um sama mál. Þeir fóru mikinn í fréttum RÚV og gamlar lummur voru rifjaðar upp og farið með ýmis stóryrði. Og það var ekki nóg með að alþingismennirnir kæmu fram í fréttatímum, heldur tóku þeir málið aftur upp til umræðna á Alþingi, þar sem RÚV var aftur komið og útvarpaði frá umræðunum og sagði frá þeim á ný í fréttum daginn eftir og þar næsta dag.

Það er hreint ótrúlegt og vægast sagt stórfurðulegt hvernig menn geta hamast með gömul mál sem ekkert nýtt hefur komið fram í, eins og það séu nýjar fréttir. Er hægt að bjóða hlustendum upp á þannig fréttaflutning til lengdar?

Víkverji er einn af aðdáendum "Strákanna okkar" - landsliðsins í handknattleik. Áður en landsliðið hélt á EM í Sviss kallaði Sjónvarpið, RÚV, á Viggó Sigurðsson landsliðsþjálfara og það átti að þjarma að honum í Kastljósi eftir tvo tapleiki gegn Frökkum. Já, eftir að hann hafði áður stjórnað landsliðinu í sextán leikjum án taps.

Viggó hefur verið að yngja upp í landsliðinu síðan hann tók við því í rjúkandi rúst eftir Ólympíuleikana í Aþenu 2004. Viggó stóð sig vel og svar hans var hárrétt þegar hann var spurður hvort Arnór Atlason væri ekki of ungur, 21 árs, til að leika lykilhlutverk í landsliðinu. Viggó svaraði: "Hér er ekki spurning um aldur, heldur hvað leikmenn eru góðir!" Arnór sýndi að svar Viggós var rétt er hann skoraði sjö mörk og átti stórleik gegn Dönum í Sviss á föstudagskvöldið.

Viggó treystir sínum ungu leikmönnum og þeir treysta honum. Það hafa þeir sýnt saman á EM í Sviss.