STJÓRN Landverndar fagnar þeirri viðtæku samstöðu sem er að myndast um hugmyndir um stækkun friðlandsins í Þjórsárverum og þeirri ákvörðun Landsvirkjunar að leggja til hliðar áform um framkvæmdir á svæðinu. Þetta kemur fram í yfirlýsingu frá stjórninni.

STJÓRN Landverndar fagnar þeirri viðtæku samstöðu sem er að myndast um hugmyndir um stækkun friðlandsins í Þjórsárverum og þeirri ákvörðun Landsvirkjunar að leggja til hliðar áform um framkvæmdir á svæðinu. Þetta kemur fram í yfirlýsingu frá stjórninni.

"Þjórsárver eru óumdeilanlega eitt verðmætasta svæðið á hálendi Íslands. Í greinargerð sem tveir alþjóðlega viðurkenndir sérfræðingar, þeir Roger Crofts og Jack D. Ives, unnu fyrir Landvernd eru færð haldgóð rök fyrir því að Þjórsárver gætu átt heima á Heimsminjaskrá UNESCO og hníga öll rök að því að eitt brýnasta verkefni náttúruverndar á Íslandi í dag sé að stækka verndarsvæði þeirra að náttúrulegum mörkum. Skoðanakannanir sýna jafnframt að góður almennur stuðningur er við áform um stækkun friðlandsins.

Stjórn Landverndar fagnar yfirlýsingu umhverfisráðherra um áformaða stækkun friðlandsins og hvetur Samvinnunefnd miðhálendisins, Alþingi og viðkomandi sveitarstjórnir til að vinna með umhverfisráðherra að þessu markmiði. Jafnframt hvetur stjórnin stjórnvöld til að hefja undirbúning að því að koma Þjórsárverum á Heimsminjaskrá UNESCO þar sem tilgreindar eru merkustu náttúruminjar á jörðinni," segir í yfirlýsingunni.