Í Lesbók Morgunblaðsins var í gær haldið áfram umfjöllun um stöðu íslenzkrar tungu og sjónum í þetta sinn beint að þýðingum.

Í Lesbók Morgunblaðsins var í gær haldið áfram umfjöllun um stöðu íslenzkrar tungu og sjónum í þetta sinn beint að þýðingum.

Greinarhöfundum í Lesbók, þeim Gauta Kristmannssyni, bókmennta- og þýðingafræðingi, og Ástráði Eysteinssyni, prófessor í bókmenntafræði, ber saman um að vandaðar þýðingar séu ein forsenda þess að tryggja framtíð íslenzkrar tungu. Gauti orðar það svo að við eigum í raun samskipti við okkur sjálf í athöfninni að þýða, "hin framandi menning verður hluti af okkur við þýðinguna, hin erlenda menning fær á sig þann búning sem við búum henni og sest að með margvíslegum hætti inni í okkar menningu og sjálfi þar með". Og Gauti bendir á að hin erlendu áhrif þýðingarinnar séu oftast nær æskileg og umbeðin, stafi af því að einhver gloppa sé í okkar menningu sem kallar á að sé fyllt með því bezta eða athyglisverðasta, sem erlendis er að fá.

Ástráður Eysteinsson tekur enn dýpra í árinni og segir: "En ég tel hinsvegar fullvíst að ekki aðeins íslensk málrækt heldur örlög íslenskrar tungu yfirleitt velti á þýðingum. Á meðan tungan hrærist verður heimsmynd Íslendinga jafnframt háð þýðingum, því miðlunar- og sköpunarstarfi sem fram fer á mótum tungumála og þar með á skilum menningarheima. Þetta er ekki bara fyrirhöfn og erfiði, eins og einhverjir kunna að halda, því þarna er deigla og frjómagn. Á mörkunum er margt hugsað og sú hugsun er send í nýju orðalagi inn í tungumál sem aldrei verður bein spegilmynd nokkurs annars tungumáls.

Íslenskan verður að vera öflugt þýðingamál, vilji hún á annað borð eiga sér vænlega framtíð."

Þetta er hverju orði sannara. Ef Íslendingar gefast upp á þýðingum, spara sér fyrirhöfnina við að vanda til þeirra eins og kostur er, ýta frá sér "glímunni við að orða merkilegar hugsanir á íslensku" eins og Guðrún Helgadóttir og Ingólfur Guðnason orðuðu það í greinargerð með frumvarpi sínu um þýðingarsjóð fyrir 25 árum, verður íslenzk tunga fátækari, veikari fyrir, ónothæf sem tæki til að lýsa nútímanum með sífellt flóknari tækni og fjölbreytilegri hugsun.

Því miður eru þess alltof mörg dæmi í okkar daglega amstri að við sleppum því að þýða erlend orð eða texta. Í hraða viðskiptalífsins er ekki hugsað um að þýða skjöl eða tölvupóst fyrir íslenzka starfsmenn útrásarfyrirtækja, heldur látið gott heita að vinnutungumál fyrirtækisins sé enska. Í íslenzkum háskólum er sumt nám eingöngu á ensku. Afleiðingin er sú að samræður Íslendinga, sem námið stunda, sín á milli eru stundum á einhverju furðulegu hrognamáli, sem er hvorki íslenzka né enska. Mörg fyrirtæki vinna með tölvubúnað sem er sérhæfður og hefur ekki þótt svara kostnaði að þýða. Þeir, sem vinna með framleiðslukerfi Morgunblaðsins, standa sjálfa sig oft að því að tala sín á milli enskuskotna mállýzku, sem enginn myndi skilja utan blaðsins.

En svona hefur þetta reyndar löngum verið. Í nýútkominni ævisögu Hannesar Hafstein eftir Guðjón Friðriksson verður höfundur t.d. iðulega að þýða fjöldamörg orð í texta einkabréfa skáldsins og ráðherrans; svo útbíuð eru þau í dönskuslettum. Þó á Hannes sumar fallegustu ljóðaþýðingar, sem hafa verið ortar á íslenzku. Menn hafa leyft sér að sletta í óformlegum samskiptum, en leitazt við að vanda það, sem á að koma fyrir almennings sjónir. Hættan er sú að einn daginn vitum við ekki lengur hvernig á að orða hugsun okkar á íslenzku.

Lesbókin fór fram á að stjórnmálaflokkarnir lýstu afstöðu sinni til þýðinga. Samstaða virðist ríkja þeirra á meðal um "skyldu stjórnvalda í menningarmálum að efla þýðingarstarf" eins og það er orðað í umsögn Samfylkingarinnar. Athygli vekur að í umsögn Sjálfstæðisflokksins, sem fer nú með ráðuneyti mennta- og menningarmála, kemur fram að áform séu um að kanna möguleika á heildarlöggjöf um stuðning ríkisins við bókmenntir og stofna bókmenntamiðstöð, sem taki við núverandi verkefnum Menningarsjóðs, Bókmenntakynningarsjóðs og Þýðingasjóðs. Markmiðið sé að efla stuðning við þýðingar og útgáfu vandaðra rita á íslenzku, svo og þýðingu íslenzkra bókmennta og kynningu þeirra erlendis. Þetta eru áform sem ber að fagna.