Sveinn Aðalsteinsson
Sveinn Aðalsteinsson
Eftir Svein Aðalsteinsson: "F-listinn er eina aflið í borgarstjórn, sem beitir sér fyrir því að Reykjavíkurflugvelli verði tryggð staðsetning í Vatnsmýrinni."

ENDURNÝJAÐUR Reykjavíkurflugvöllur í Vatnsmýrinni mun gegna mikilsverðu hlutverki

um ókomin ár. Ákvörðun um óbreytta staðsetningu Landspítalans, samhliða stórauknu rými með tilfærslu Hringbrautar eykur mjög gildi staðsetningar vallarins.

F-listinn er eina aflið í borgarstjórn, sem beitir sér fyrir því að Reykjarvíkurflugvelli verði tryggð staðsetning í Vatnsmýrinni. Þar liggja til grundvallar öryggis- og hagkvæmnissjónarmið fyrir landsmenn í heild.

Uppbygging Vatnsmýrar

Herflugvöllur krafðist eðlilega mun meira rýmis, en þörf er á varðandi innanlandsflugvöll.

Þess vegna fer uppbygging í Vatnsmýrinni, samhliða áframhaldandi starfsemi innanlands-

og öryggisflugvallar mjög vel saman. Með því að lengja austur/vestur flugbrautina til vesturs

um nokkur hundruð metra, má á einfaldan hátt beina u.þ.b. 80% flugumferðar um þá braut og nota einungis suður/norður flugbrautina í mjög stífum suðlægum/norðlægum áttum. Þannig má að mestu koma í veg fyrir flug yfir gamla miðbæinn. Verðmæti Vatnsmýrar er því hámarkað með samtvinnun Reykjavíkurflugvallar í breyttri mynd, hæfilegri uppbyggingu og að öðru leyti nýtingu hennar sem frábærrar útivistarperlu í tengslum við Tjarnar- og Öskjuhlíðarsvæðin.

Landspítali - Vatnsmýrarflugvöllur

Í tengslum við umræður um staðsetningu Reykjavíkurflugvallar, Landspítala og flutning sjúkra og slasaðra, hefur gætt þess misskilnings að sjúkraflug megi nær alfarið leysa með þyrlum. Staðreyndin er hinsvegar sú, að jafnmikilvægar og þyrlur eru í neyðartilvikum, eru þær einungis notaðar í um 20% tilvika. Af 500 sjúkraflugum á ári, eru þyrlur þannig notaðar í u.þ.b. 100 tilfella. Þyrlur gagnast þar sem öðrum flugtækjum verður ekki við komið. Hinsvegar eru þær hægfleygar og henta því ekki til flutnings sjúkra og slasaðra á milli landshluta. Þær geta ekki, ólíkt flugvélum búnum jafnþrýstibúnaði, flogið stystu leið milli staða, ofar veðrum. Jafnframt er mjög mikilvægt að gera sér grein fyrir að þyrlur, líkt og allar aðrar flugvélar þarfnast aðflugsbúnaðar í vályndum veðrum. Blindaðflug er einungis mögulegt að gera að flugvöllum, sem útbúnir eru blindaðflugstækjum. Það er því höfuðkostur að Landspítali sé í næsta nágrenni við fullkominn innanlandsflugvöll. Þannig nær sjúkraþyrlan að gera blindaðflug að næsta nágrenni spítalans og ef aðstæður leyfa, flýgur hún í lítilli hæð að þyrlupallinum við spítalann, en lendir ella á flugvellinum, þaðan sem örstutt er með sjúkrabíl að spítalanum. Að leggja Reykjavíkurflugvöll af á grundvelli þess að hann þurfi að víkja fyrir verðmætu byggingarlandi, sýnir að mat manna á forgangsröðun er ekki í lagi.

Flugvellir í miðborgum

Til viðbótar framanskráðu, er vert að benda á hversu nálægt miðju ýmissa stórborga flugvellir eru staðsettir, t.d. í London, Berlín og Washington D.C. Þarlend yfirvöld leggja höfuðáherslu á að hafa flugvelli staðsetta miðsvæðis, þar sem því verður við komið.

Í strjálbýlu landi á borð við Ísland, ber að nýta sér kosti flugsins, sem nokkur kostur er og bjóða íbúum landsins sem greiðasta og hagkvæmasta leið milli dreifbýlis og höfuðborgar.

Höfundur er viðskiptafræðingur og varafulltrúi F-listans í skipulagsráði.