Rut Kristinsdóttir
Rut Kristinsdóttir
Eftir Rut Kristinsdóttur: "Vinnubrögð sem leiða af sér deilur og ósætti, vantraust og erfiðleika, veikja ímynd bæjarins."

UNDANFARIN misseri hefur mörgu verið hrint í framkvæmd í Kópavogi. Hvert hverfið á fætur öðru er skipulagt og byggt. Lóðum er úthlutað. Samið er við aðila um rekstur á þjónustu við bæjarbúa. Drifið er í að byggja upp íþróttaakademíu og skissaðar eru upp hugmyndir að óperuhúsi. Allt eru þetta hin ágætustu mál og í sjálfu sér ættu ekki að vera tilefni til sérstakra deilumála. Aftur á móti hefur oftar en ekki verið mjög umdeilanlegt hvernig staðið er að ákvarðanatöku og framkvæmd þessara mála. Ákvarðanataka sem einkennist oft af einræðislegum vinnubrögðum og sérkennilegri forgangsröðun. Tökum nokkur dæmi. Hver deiliskipulagstillagan á fætur annarri hefur orðið að eldfimum deilum, því ekki hefur verið haft nauðsynlegt samráð við íbúa eða hagsmunaaðila. Eða vegna þess að skipulagið er unnið í svo mörgum bútum að menn eru löngu hættir að greina í aðalskipulagið sem liggja á til grundvallar skynsamlegri uppbyggingu. Verðmætum lóðum hefur lengi vel verið úthlutað, án þess að svo mikið sem að dusta rykið af lóðarúthlutunarreglum bæjarins. Ekki hefur verið unnið eftir sömu vinnureglum varðandi útboð á rekstri leikskóla og tónlistarskóla í bænum. Lítil sem engin fagleg umræða fór fram um útboð á rekstri tónlistarskóla, en aftur á móti fór slík nauðsynleg umræða fram vegna útboðs á rekstri leikskóla. Bæjarstjórinn hefur lagt töluverða vinnu og tíma í að teikna upp óperuhús fyrir bæjarbúa. En á meðan hafa verið blikur á lofti í leikskólamálum bæjarins. Það hefur stefnt í að hver leikskóladeildin á fætur annarri loki, vegna þess að hið ótrúlega langlundargeð starfsfólks leikskólanna er að þrotum komið. Það er búið að bíða í marga mánuði eftir; starfsmati, nýjum kjarasamningum, launamálaráðstefnum og nú er enn verið að bíða og vona. Það er ekki fyrr en nú, þegar starfsemi sumra leikskólanna hefur skaðast, ekki fyrr en hækkuð hafa verið lægstu laun hjá starfsfólki í leikskólum Reykjavíkur, að tími hefur fundist til að vinna að einhverri alvöru að lausn þessa máls. Á meðan hafa börn og foreldrar þeirra ekki fengið þá sjálfsögðu þjónustu sem bæjarfélagið hefur skuldbundið sig til að veita. Og nýjar dýrar leikskólabyggingar eru ekki nýttar sem skyldi.

Ofantalin dæmi sýna að það þarf nauðsynlega að bæta vinnubrögðin, svo að allir ákvarðanatökuferlar í bæjarkerfinu verði skýrir og gagnsæir, beri þess ótvíræð merki að unnið sé á lýðræðislegan hátt. Að forgangsröðun verkefna sé með eðlilegum hætti. Vinnubrögð sem leiða af sér deilur og ósætti, vantraust og erfiðleika, veikja ímynd bæjarins. Sumum háttsettum ráðamönnum bæjarins hefur sárnað þegar umræða um vinnubrögð þeirra hafa verið rædd opinberlega. Þeir segja að það sé slík umræða sem veiki ímynd bæjarins, en ekki vinnubrögð þeirra. Eru þá skilaboðin til íbúa að ekki megi ræða eða gagnrýna valdhafana? Er það ekki enn eitt dæmið um einræðislega stjórnunarhætti? Það er því löngu orðið tímabært að fara frá einræði til lýðræðis í Kópavogi. Komum á nýjum meirihluta í bænum, lýðræðislegum meirihluta. Ágætu Kópavogsbúar, kynnið ykkur stefnumál frambjóðenda í prófkjöri Samfylkingarinnar, sem fram fer 4. febrúar nk. Við viljum sjá breytt vinnubrögð. Ég vil gjarna vera með í að stuðla að þeim breytingum. Þess vegna býð ég mig fram í 2.-4. sæti Samfylkingarinnar í prófkjöri þeirra til sveitarstjórnarkosninga. Hvet ykkur til að skoða heimasíðu mína http://rut.hexia.net

Höfundur situr í leikskólanefnd Kópavogsbæjar og býður sig fram í 2.-4. sæti í prófkjöri Samfylkingarinnar í Kópavogi.