Runólfur Ágústsson
Runólfur Ágústsson
ÞEIR sem harðast ganga fram í svokallaðri málvernd gætu í reynd orðið hættulegustu fjandmenn tungunnar og íslenskunni er enginn greiði gerður með því að loka hana innan rimla í menningarlegu safni eða fangelsi.

ÞEIR sem harðast ganga fram í svokallaðri málvernd gætu í reynd orðið hættulegustu fjandmenn tungunnar og íslenskunni er enginn greiði gerður með því að loka hana innan rimla í menningarlegu safni eða fangelsi. Staðnað tungumál mun óhjákvæmilega deyja, sagði Runólfur Ágústsson, rektor Viðskiptaháskólans á Bifröst, meðal annars í ræðu sinni við útskrift fyrstu meistaranemanna í lögfræði frá skólanum í gær, laugardag.

Í ræðu sinni sagði Runólfur að hlutverk háskóla væri meðal annars að búa nemendur undir líf og störf í alþjóðlegu samkeppnisumhverfi. Færni í ensku væri lykilatriði í þeim efnum og það væri "fráleitur heimóttarskapur að telja slíkt ógnun við íslenskuna". Virk erlend samskipti myndu efla þjóðarvitund okkar og þar með tunguna en ekki draga úr vægi hennar.

Hann bætti því við að umræðan um hlutverk tungunnar væri athyglisverð og spurði hvort tungan ætti ekki að þjóna samfélaginu en ekki öfugt. "Er ekki eðlilegt að lifandi tungumál þróist og taki breytingum með því samfélagi sem talar viðkomandi tungu? Eiga ekki tungan og samfélagið að eiga samleið?"

Runólfur benti á að aldrei hefði jafnstórt hlutfall þjóðarinnar tjáð sig opinberlega. Þúsundir Íslendinga héldu úti bloggsíðum, bókaútgáfa stæði með blóma og gríðarleg gróska hvert sem litið væri. Væri þetta merki um deyjandi tungu?

"Er það ekki þvert á móti þannig að þeir sem harðast fram ganga í svokallaðri málvernd gætu í reynd orðið hættulegustu fjandmenn tungunnar? Í samfélagi morgundagsins getum við ekki talað tungu gærdagsins. Börnin okkar lifa í öðru samfélagi en tíðkaðist í íslenskum sveitum um miðja síðustu öld. Umræðuefnin eru önnur, orðin eru önnur og þarfir samfélagsins til þess samskiptamiðils sem tungan er hljóta að taka mið af slíku. Íslenskunni er enginn greiði gerður með því að loka hana innan rimla í menningarlegu safni eða fangelsi. Staðnað tungumál sem ekki fylgir þörfum talenda mun óhjákvæmilega deyja. Sá málfarsfasismi sem vill með einhvers konar hreintungustefnu í reynd skilja að Íslendinga og íslenskuna er því líklega meiri ógnun við tungumál okkar heldur en meintar málvillur ungmenna."