Langur, mjór og gjöfull. Mjóifjörður á fögrum janúardegi.
Langur, mjór og gjöfull. Mjóifjörður á fögrum janúardegi. — Morgunblaðið/Steinunn Ásmundsdóttir
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Mjófirðingum er verulega brugðið vegna óvæntra frétta um að hætta eigi laxeldi á vegum Sæsilfurs í firðinum. Steinunn Ásmundsdóttir tók hús á fjölskyldunni á Brekku og fór yfir stöðu mála.

Ég hef alltaf haft þá trú á Samherja að þetta væri fyrirtæki sem gæfist ekki upp fyrr en öll sund væru lokuð" segir Sigfús Vilhjálmsson, oddviti, bóndi og útgerðarmaður á Brekku í Mjóafirði. "Öllum finnst svo skrýtið að fara allt í einu núna að gefast upp þegar það er bara staðreynd að hlutirnir eru farnir að ganga. Og eftir spám að dæma á gengi krónunnar að stórlagast á þessu ári og þetta verður ekki svona um alla eilífð." Sigfús segir tilkynningu Samherja um að Sæsilfur hætti starfsemi sökum gengismála og hás raforkuverðs klaufalega og rökin haldlítil. "Eina haldbæra ástæðan fyrir því að þeir ætla að hætta hér er að seiðin sem áttu að koma hingað til eldis síðastliðið sumar komu ekki af því að það þurfti að farga þeim út af nýrnaveiki í seiðastöðinni hjá Íslandslaxi," heldur hann áfram. "Það var gríðarlegt áfall. Samherjamenn sögðu alltaf að þrátt fyrir að seiðaframleiðslan hefði að stórum hluta farið forgörðum myndu þeir koma með 600 þúsund seiði sem til eru hingað. En nú á að flytja þau til Færeyja eins og sjálfsagt allt annað sem fylgir eldinu hér. Ég veit ekki betur en að til sé nóg af seiðum í Færeyjum. Og þetta vilja þeir gera vitandi af reynslu að ef eitthvað bregður út af í flutningnum eru allar líkur á að 30-40% af seiðunum drepist. Hvað eru þessir menn að hugsa, að leika sér svona með verðmæti? Þegar marglyttufárið kom hér í fjörðinn um árið og ógnaði eldinu sá ég fyrir mér að nú yrði öllu hætt. En nei, það var ekki aldeilis, þeir bara hörðnuðu. Þá var tugum milljóna eytt í að hanna marglyttuvarnir og þær eru líka frábærar."

Í Mjóafjarðarhreppi búa 42 einstaklingar. Af þeim eru 16 karlar og 16 konur og börnin tíu talsins, frá því að vera nýfædd og upp í unglingsaldur. Karlar eru allir útivinnandi og langflestar konurnar einnig.

"Það er fullskipað í öll þau störf sem eru möguleg" segir Jóhanna Lárusdóttir á Brekku. "Ef annar aðilinn missir vinnuna þá er lífsviðurværið farið."

Mjófirðingar undrast stórum að Samherji skyldi byrja á að segja upp þeim tveimur mönnum sem fluttu með fjölskyldur sínar í Mjóafjörð gagngert til að starfa við eldið. Aðrir, sem kalla má lausamenn, halda störfum sínum enn um sinn, en enginn veit hver á að fjúka næstur. "Við fáum engin svör," segir Jóhanna. "Þeir tveir fóðruðu fiskana og það er eins og fóðrunin skipti ekki máli úr því sem komið er. En menn sem komu löngu seinna og fóru í afleysingu við fóðrun, þeim er ekki sagt upp strax."

"Þetta er heimska og sálarleysið algjört" segir Sigfús og ber framkvæmdastjóra eldisins ekki allskostar vel söguna. "Hann fylgist bara með tölum. Og að spara kann hann ekki. Hér hefur til dæmis mikið af eldisfóðri skemmst af því að við höfum ekki fengið neitt til að verja það. Svo bitnar það auðvitað á eldinu og er sagt vera okkur að kenna."

"Það eru allir gjörsamleg gáttaðir því eldið lítur vel út innst í firðinum," segir Guðmundur Valur Ríkharðsson, tengdasonur Sigfúsar og Jóhönnu og annar þeirra sem sagt var upp í fyrsta kastinu. "Svo er skipstjórinn látinn fara með öll seiði sem til eru til Færeyja. Þeir hafa ekki viljað koma nálægt neinu á landi og ætluðu sér ekki að sitja uppi með neitt. Nú geta þeir dregið allt í burtu, 36 kvíar og allt sem þeim fylgir."

Guðmundur segir menn engan pata hafa haft af því að eldinu yrði hætt. "Einhverjar sögur höfðum við heyrt fyrir mörgum mánuðum um að færa ætti þetta allt til Færeyja. Þá kom framkvæmdastjórinn og sannfærði okkur um að þær sögusagnir væru bull og ekkert að marka þær. Svo kemur hann einn daginn og segir að öllu verði lokað. Þetta er ansi erfitt, mig langar að vera hér áfram en það getur orðið óframkvæmanlegt. Konan mín kennir hálfan daginn í skólanum. Sem betur fer höfum við ekki keypt okkur hús hér ennþá."

Tínist hressilega utan af

Ef fram fer sem horfir verður aðeins einn nemandi í skólanum í Mjóafirði næsta vetur og raunar er vart líklegt að foreldrarnir vilji hafa hann aleinan í skóla. Þá lokar og leikskóli sem starfræktur hefur verið í firðinum undanfarið. "Það tínist hressilega utan af okkur við þetta" segir Jóhanna og virðist ekki bjart um að útgönguleið sé til úr þessu ástandi fyrir Mjófirðinga.

Að eldinu undanskildu byggir atvinnulífið í Mjóafirði á ýmsu smálegu. Tveir menn eru með heimaverkun og tvo báta, tvær fjölskyldur reka áætlunarbát sem siglir tvisvar í viku milli Mjóafjarðar og Norðfjarðar, en rekstur hans byggist á að eitthvað sé til að flytja. Býli eru tvö, á Dalatanga og Brekku, en fólkið vinnur auk búverka utan heimilis. Fiskkvótinn í Mjóafirði er um 100 tonn í það heila.

"Ég sé það fyrir mér að byggð í Mjóafirði líði undir lok, að þetta sé náðarhöggið" segir Sigfús. "Ég ætla ekki að verða hér aleinn eftir, það er alveg á hreinu. Hins vegar er eldið nú ekki slegið af fyrr en 2008. Það getur allt gerst. Það má semja um ýmislegt á þessum tíma. En Samherji græðir ekki á þessu núna og hefur auðvitað fullt leyfi til að hætta þessu, það er ekkert við því að segja."Jóhanna segist hafa búið í Mjóafirði í fjörutíu ár og skipst hafi á skin og skúrir á þeim tíma. "Stundum hefur manni nú ekki fundist neitt framundan á þessum árum. Það er samt svo skrýtið að það er eins og alltaf hafi ræst úr því. Vissulega hefur maður haft meiri væntingar núna heldu r en nokkurn tíma áður, ekki síst af því að börnin okkar eru hérna. Það er ekki gott að segja hvað gerist. Þau hafa svo sem engan áhuga á að fara héðan, en eitthvað verður fólk að hafa að gera."

"Ég veit ekki hvort hægt er að leysa þetta með einhvers konar þrýstingi," bætir Sigfús við. "Kannski er hægt að fá einhverja fleiri eða aðra til að koma að málinu. Þetta hlýtur að vera alveg ofboðslegur kostnaður ef þeir ætla að flytja þetta allt burt. Og fjárfestingarnar í Fjarðabyggð eru miklar, hundruð milljóna króna í sláturhúsi, laxatanki, þvottastöð fyrir kvíarnar á Reyðarfirði og plastkassaverksmiðju. Tækin í sambandi við slátrunina nýtast vart í annað. En kannski má nýta húsin eitthvað."

Stundum staðið naumt

Mest bjó af fólki í Mjóafirði, rúmlega 400 manns, um aldamótin 1900. Í kringum 1950 fluttu flestir á brott. Þau Sigfús og Jóhanna segja ástæður þess m.a. vera þær að fólkið sem bjó þar hafi verið orðið fullorðið og börnin hafi verið að fara. Menn sem fóru burt á vertíðir, jafnvel suður með sjó, gáfust upp á að vera langdvölum að heiman. "1880 voru Norðmenn með síldarsöltun og heilmikla síldveiði í Mjóafirði og stóð það framundir aldamótin nítjánhundruð," rekur Sigfús um sögu fjarðarins. "Þá komu Norðmenn með hvalveiðina og hvalstöð og var það í tólf ár en kláraðist alveg upp úr því. Svo komu kreppuárin og voru framundir seinni heimsstyrjöld þegar fór að réttast úr kútnum og þá fór fólkinu á landsbyggðinni að fækka verulega. Síðan var voðalega lélegt hér alveg fram undir 1965, þegar komu hér menn og reistu söltunarstöð og fóru að salta síld. Það var meira að segja búið að festa kaup á lítilli bræðslu úti í Svíþjóð sem átti að setja upp hér, en þá hvarf allt í einu síldin. Þá var það búið. Það sem eftir stóð var Sólbrekka og úr henni voru gerð skóli og gistiaðstaða fyrir ferðafólk, sem og skólastjóraíbúð. Svo kom laxinn, sé sagan tekin í stórum stökkum, og þá nýttust gistiaðstaðan og mötuneytið fyrir það. Þar hafa starfsmennirnir búið og borðað í mötuneytinu. Þegar húsnæði fór að vanta byggði sveitarfélagið svo þrjú hús í tengslum við eldið á fjórum árum. Höfnin var einnig stækkuð og endurbyggð á kostnað Hafnarsamlags Fjarðabyggðar, sem við erum aðilar að."

Húsin þrjú kostuðu hreppinn yfir fjörutíu milljónir króna auk ýmiss aukakostnaðar sem fylgt hefur fleira fólki og meiri umsvifum. Hreppurinn hefur á milli 15 og 17 milljónir í tekjur, skatttekjur hafa þrefaldast með tilkomu Sæsilfurs og að auki koma inn einhverjar leigutekjur fyrir húsakost. Fram til þess að húsin þrjú voru byggð hafði hreppurinn ekki verið skuldsettur, en það hefur breyst.

"Samherji er með heilt byggðarlag í greipum sér," segir Sigfús. "Framkvæmdastjórinn, Simin Pauli, sagði fyrir jólin að þetta gengi vel og að ef ekkert kæmi upp á yrði fyrirtækið ef til vill í plús eftir slátrun í ár. Þegar fyrirséð var að seiðin kæmu ekki kom framkvæmdastjóri Sæsilfurs hingað síðastliðið sumar, ansi brattur, og sagði að menn væru ekkert að hætta þessu eða gefast upp. Hann sagði nóg vera að gera og að ég gæti treyst því að Samherji væri ekkert að hætta. Svo dúkkaði hann hér upp á miðvikudagskvöldið og sagði mér að þeir væru að hætta, sló þann varnagla að ef fiskurinn sem á að slátra hér bráðum kæmi mjög vel út væri ekki loku fyrir það skotið að þeir héldu áfram. Það hefur sjálfsagt bara verið til að hugga okkur. Það er ekkert að marka þetta."

Alltaf gert ráð fyrir erfiðleikum

Stærsti framleiðandi eldislax hérlendis, Sæsilfur hf., hyggst hætta starfsemi árið 2008 vegna erfiðleika í rekstri, sem raktir eru einkum til gengismála. Langstærsti hluti eldisins hefur farið fram í Mjóafirði þar sem 11 af 42 íbúum starfa við það. Tveimur hefur þegar verið sagt upp. 4 milljónir laxaseiða hafa verið sett í sjó og rúmlega 10 tonnum af laxi slátrað á því fimm ára tímabili sem eldið hefur starfað og slátra á yfir 4.000 tonnum í ár. Sæsilfur er í eigu Samherja og Síldarvinnslunnar.

Aðalsteinn Helgason, forstjóri Síldarvinnslunnar í Neskaupstað, segir ekkert breytast í starfsemi fyrirtækisins vegna laxaslátrunar á yfirstandandi ári. "Þetta er langur ferill og við munum halda áfram að slátra laxi hér," segir Aðalsteinn. "Við þær aðstæður að laxeldið hætti lýkur laxaslátrun einhvern tíma á árinu 2007 og hvað Síldarvinnsluna varðar erum við að slátra 4.000 tonnum á ári, sem er einn dagur í viku eða svo og höfum giskað á að það svari til 15-18 stöðugilda. Slátrunin hefur verið unnin í okkar fiskvinnsluhúsum sem eru ekki sérstaklega bundin við slátrun, en auðvitað er búið að fjárfesta heilmikið í verkefninu, bæði í Mjóafirði og síðan er í Neskaupstað löndunarbúnaður eða kvíar til að setja fiskinn í."

Síldarvinnslan er verktaki í slátrun og hvorki kaupir laxinn né selur. Aðalsteinn segir tilkynningu um lokun Sæsilfurs ekki hafa komið á óvart. "Síldarvinnslan hefur að sjálfsögðu alltaf vitað hvernig reksturinn gengur og gert ráð fyrir erfiðleikum í rekstri þessa félags í bókum sínum. Við vitum vel að margt gott hefur gerst og reksturinn batnað jafnt og þétt, þ.e.a.s. kostnaður hefur lækkað jafnt og þétt og menn náð betri árangri á mörgum sviðum í rekstrinum. Það eru bara ýmsar aðstæður hér í kringum okkur sem valda því að þessi ákvörðun var tekin."

Slæm niðurstaða

Vilhjálmur Hjálmarsson frá Brekku í Mjóafirði, fyrrum ráðherra og alþingismaður, segir ákvörðun Samherja afar slæma niðurstöðu fyrir Mjófirðinga. Þarna sé mönnum sagt upp sem hafa fasta búsetu á staðnum. Miklar fjárfestingar hafi verið í sjó en engar á landi, Hafnarsjóður Fjarðabyggðar hafi rokið til og byggt upp höfn. Nú sé þetta allt glatað ef fram fer sem horfi.

Viðmælendur Morgunblaðsins innan verkalýðsforystunnar eystra segja dómgreindarskort hjá eigendum Sæsilfurs að byrja á að segja upp fjölskyldumönnum sem flust hafi með fjölskyldur sínar til Mjóafjarðar vegna vinnu við eldið. "Það er spurning hver siðferðileg og samfélagsleg ábyrgð fyrirtækisins er þegar settur er upp atvinnurekstur á litlum stað eins og Mjóafirði, fólk flytur þangað í kjölfarið og fjárfestir í húsnæði. Mjóifjörður er sérstakur partur af Íslandi vegna þess að þó þetta sé hér á Mið-Austurlandi, með kraftmikla bæi hægri og vinstri, er þetta fólk í algerri einangrun. Hvort einhverjir tveir bændur halda áfram að lafa þarna eða trillukarl, það getur vel verið, en þetta er vanhugsað af fyrirtækinu, sérstaklega af því að þetta eru engin smáfyrirtæki sem standa að því heldur tveir risarnir í útgerðarbransanum."

"Þetta eru mikil vonbrigði," segir Smári Geirsson, forseti bæjarstjórnar Fjarðabyggðar. "Menn munu ræða þetta við forsvarsmenn fyrirtækisins og komast að raun um það hvað þarna er á seyði. Auðvitað verður rætt hvort einhverjir möguleikar séu á því að þessi afstaða breytist. Málið er ekki aðeins Mjófirðinga, heldur er einnig um að ræða á annan tug ársverka sem tengd eru laxaslátruninni. Spurning er hvað Síldarvinnslan gerir, hvort hún hugsanlega eykur bolfiskvinnslu á móti því þegar laxaslátrun hættir, sem gerist þó ekki fyrr en 2008." Um hvort Samherji verði krafinn um mótvægisaðgerðir líkt og gerðist á Stöðvarfirði þegar fyrirtækið hætti vinnslu þar, segir Smári það verða rætt við forsvarsmenn Samherja. "Það er full ástæða til að hafa áhyggjur. Þetta var atvinnugrein sem menn bundu miklar vonir við." Jón Einar Marteinsson, framkvæmdastjóri Fjarðanets hf., sem rekur m.a. þvottastöð vegna fiskeldispoka á Reyðarfirði, segir lokun Sæsilfurs munu hafa mikil áhrif á rekstur Þvottastöðvarinnar og þau komi fram á næstu mánuðum.

"Við þurfum að skoða hvort við höldum áfram rekstri stöðvarinnar. Fjárfesting í henni var á milli 60 og 70 milljónir króna, verkefnin eru bundin við fiskeldið og við höfum haft tvo menn í vinnu. Ef til þess kemur að reksturinn hætti missa mennirnir þó ekki vinnuna, við höfum vinnu fyrir þá á öðrum af okkar starfsstöðvum." Fjarðanet hefur framleitt alla fiskeldispoka fyrir Sæsilfur í Mjóafirði. Hafnfirska fyrirtækið Tempra setti upp starfsstöð í Fjarðabyggð vegna fiskeldisins og hefur framleitt frauðplastkassa undir ferskfisk til útflutnings. "Lokun Sæsilfurs gæti verið dauðadómur yfir starfsstöð okkar fyrir austan" segir Páll Sigvaldason, framkvæmdastjóri. Einn maður hefur unnið við framleiðsluna. "Við getum nýtt tæki og tól annars staðar og leigjum húsnæði undir framleiðsluna. Það var alltaf vitað að þetta gæti farið á hvorn veginn sem væri, en menn voru mjög bjartsýnir eftir því sem vaxtarhraði jókst og unnið var gríðarlegt þrekvirki í stofnbótum á þessum fiski og það hefði aldrei verið hægt nema vegna þess að menn fóru í annan fisk en íslenskan eins og frægt er orðið."